sunnudagur, febrúar 25, 2007

 

Langt síðan síðast

Æ, það hefur verið svo fjári mikið að gera hjá mér að ég hef hreinlega ekki haft mig í að skrifa neitt að undanförnu - enda ekki neitt til að skrifa um.
En nú fór ég á frumsýningu hjá Íslenska dansflokknum á föstudagskvöldið og varð ekki fyrir vonbrigðum. Dansflokkurinn verður betri og betri og ég held að hann hljóti að vera kominn í hóp bestu nútímadansflokka sem starfandi eru. Og dugnaðurinn í krökkunum er slíkur að þau dansa stórslösuð liggur mér við að segja, ein stelpan svo illa meidd í öxlinni að það var óvíst hvort hún gæti dansað á frumsýningunni og einn strákurinn nefbrotinn með glóðarauga eftir að hafa fengið spark í andlitið á æfingu. En þau stóðu sig eins og hetjur og eiga hrós skilið.
Og í gærkvöldi fórum við á góugleði og bingókvöld upp í Fannahlíð og það var sko gaman að hitta gömlu sveitungana aftur. Mér fannst ég eiginlega ganga í barndóm og verða aftur litla sveitastelpan. Ekki unnum við neitt í bingóinu, en dönsuðum hins vegar eins og herforingjar, þ.e. eiginmaðurinn eins og herforingi en ég eins og sveitastelpa. Nú vona ég bara að þetta verði árlegur viðburður, enda líkur á því fyrst þetta er annað árið sem svona skrall er haldið.
Hef þetta ekki meira í þetta sinn - eigið góðar stundir.

föstudagur, febrúar 09, 2007

 

Af gefnu tilefni

Af gefnu tilefni og því sem ég skrifaði síðast er rétt að taka fram að ég hef aldrei verið í Framsóknarflokknum.
Annars er allt gott en ekkert nýtt að frétta á Tjarnarbóli. Fullt að gera, sumt skemmtilegt en annað miður skemmtilegt. Ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi Rockys eða Sylvesters Stallone en hef nú þann heiður að þurfa að þýða fjórar Rocky myndir í einum rykk (2, 3, 4 og 5) og reyndar er hægt að sjá eitthvað skemmtilegt við þær allar, sérstaklega mynd nr. 4 sem er svo hrikalega amerísk að það hálfa væri nóg. Þær eru það reyndar allar þannig að það má alltaf brosa út í annað. Annað kvöld erum við vinkonurnar að fara í mat til Ellu og svo verður spilað á eftir. Það verður ekki leiðinlegt. Í dag ætlaði ég að kaupa mér hlébarðaskó til að vera eins og Dorrit en því miður fann ég enga sem féllu að mínum sérstaka smekk.
Eiginmaðurinn sagði mér í gær frá fólki sem hélt þorrablót með gamaldags, íslenskum mat, kótelettum í raspi og okkur fannst þetta svo bráðsnjöll hugmynd að í kvöld ætlum við að hafa þorrablót með kótelettum í raspi.
Hef ekki annað að segja í bili.

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

 

Undarlegur andskoti

Þegar Kristinn H. Gunnarsson yfirgaf Alþýðubandalagið og gekk í Framsóknarflokkinn varð ég svolítið hissa, en hugsaði þó með mér að kannski bæri hann einhver góð málefni fyrir brjósti sem hann teldi sig betur geta komið í framkvæmd þar. Ég ætla ekki að dæma um hver árangur hafi verið af setu Kristins í Framsóknarflokknum, en nú þegar hann er kominn yfir í Frjálslynda flokkinn finnst mér minn gamli flokksbróðir hafa fjarlægst upprunann hreint ótrúlega mikið. Þetta kalla ég að vilja lafa inni á þingi hverju sem tautar og raular.

föstudagur, febrúar 02, 2007

 

Meira umhugsunarefni

Í sjónvarpinu í fyrrakvöld heyrði ég Hannes Hólmstein segja að vissulega væri ríka fólkið á Íslandi orðið miklu ríkara, en hins vegar væri fátæka fólkið líka orðið ríkara. Einhvern veginn finnst mér að fátækt fólk geti aldrei verið ríkt. Hvað finnst ykkur?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?