föstudagur, apríl 28, 2006

 

Magnaður fjandi

Ég vaknaði í fyrrinótt - eða reyndar klukkan sex um morguninn en það er nótt í mínum huga- við þetta líka flugnasuð í glugganum. Ég ætlaði svo sem ekkert að láta það á mig fá og halda áfram að sofa, en það var bara ekki nokkur andskotans leið. Glugginn var lokaður og ég ætlaði að reyna að beina kvikindinu út, en uppgötvaði þá að þessi var svört og gulröndótt svo ég endaði með því að sækja glas og blað og bar svo helvítið út á svalir. Komst ófreskjan inn um lokaðan glugga eða var hún búin að þegja þarna í 12 tíma þegar hún byrjaði? Mér finnst þetta mega dularfullt.
Annað var það ekki í bili.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

 

Af fermingu og fleiru

Sonarsonur nr. 2 fermdist borgaralega á sunnudaginn var. Það var falleg athöfn í Háskólabíói sem minnti mig þó ákaflega mikið á skólaútskrift, en áhrifamikil og hátíðleg athöfn engu að síður. Á eftir var slegið upp stórveislu sem tókst að ég held með ágætum, ég vona að fermingarbarn og foreldrar hafi verið ánægð. Þau urðu auðvitað að brenna aftur norður á sunnudagskvöldið og ég get ekki ímyndað mér annað en að þau séu enn dauðþreytt eftir þessa törn. Það er nú best að fara að hringja og athuga hvernig ástandið er í Hafnarstræti 35. Og nú eigum við bara eitt barnabarn innan við fermingu. Samt er ég nú barasta hreint ekkert svo gömul!
Og nú er ég nýkomin heim af kóræfingu - stórtónleikar á sunnudaginn kemur í Langholtskirkju klukkan 16.00 og 18.00. Æfingin var búin klukkutíma fyrr en ég reiknaði með og ég er eiginlega himinlifandi yfir að vera komin heim og eiga svona mikinn hluta kvöldsins eftir. Og ég mæli með þessum tónleikum, það er frábært prógram og auk allra kóranna eru að mig minnir einir 7 einsöngvarar! Verst að í kvöld fannst mér ég vera eitthvað svo óörugg í Litlu hryllingssyrpunni, sem er eitt það sem mér finnst skemmtilegast að syngja!

þriðjudagur, apríl 18, 2006

 

Að páskum loknum

Þá eru páskarnir liðnir og mikið var gott að hvíla sig frá daglegu amstri. Lífið hérna á Tjarnarbóli var sem betur fer tíðindalítið og áfallalaust. Á skírdag fórum við hjónin í okkar árlega páskabíltúr um Suðurlandsundirlendið, fyrst á myndlistarsýningu á Stokkseyri og enduðum svo að venju í Eden á sýningu Ingunnar Jensdóttur. Fastir liðir eins og venjulega. Og það er auðvitað líka fastur liður að kaupa páskaliljur í Eden og ég var ekkert að bregða út af honum núna, tók einhvern vönd með lítið útsprungnum blómum af handahófi af borðinu og honum var svo skipt í tvo vasa þegar heim var komið. Það var svo ekki fyrr en að kvöldi föstudagsins langa að ég tók eftir því að á einum stilknum voru tvö blóm, sem sagt tvíblóma páskalilja. Merkilegt fyrirbæri sem ég hef ekki rekið mig á áður.
Og nú er ég að koma heim af kóræfingu og sannast sagna alveg dauðþreytt. Ég er enn ekki alveg nógu örugg í nokkrum lögum, en ætla samt að leyfa mér að sleppa æfingunni sem verður á morgun því að það verða líka tvær æfingar í næstu viku og þá næ ég þessu alveg, mig vantar bara herslumuninn. Og svo er víst líka eins gott að læra textana!

föstudagur, apríl 14, 2006

 

Agndofa

Ég var að hlusta á Garðar Thor Cortes í sjónvarpinu og eins og á öllum góðum tónleikum varð ég agndofa yfir því sem hægt er að gera með 8 tónum. Það er svo annað mál að sumar raddir hljóma betur en aðrar.

 

Rolling Stones

Eftir að fylgjast með Spurningakeppni fjölmiðlanna í útvarpinu í gær og í dag sé ég að ég er alveg skelfilega fávís um Rolling Stones - enda alltaf meira fyrir Bítlana.

þriðjudagur, apríl 11, 2006

 

Viðbjóður

Alltaf sannfærist ég betur og betur um það hvað DV er mikill drullusnepill. (Sorp er eiginlega of fallegt orð.) Er virkilega til fólk sem fær kikk út úr því að lesa um hörmungar náungans?

laugardagur, apríl 08, 2006

 

Lurkum lamin

Í dag var tekið til á heimilinu, hamast og þrifið og við hjónakornin erum held ég bæði lurkum lamin eftir átökin, en nú gleðja hreinlætisilmurinn og páskaliljurnar skilningarvitin. Og svo er bóndinn að elda handa mér kjúklingarétt með kanil og karrí, kókosmjöli og rúsínum. Matarlyktin er tekin að berast að vitum mér og ég finn ég að ég er svöng.
Verði mér að góðu.

 

Draumur á Jónsmessunótt

Það er undarlegt en satt að karlpeningurinn í þessari fjölskyldu virðist allur gripinn leiklistarbakteríunni. Í gær bauð Númi okkur á skólasýningu Waldorfskólans í Lækjarbotnum á verki Shakespeares, Draumur á Jónsmessunótt. Það er í sjálfu sér pínulítið kraftaverk að krakkarnir í þessum pínulitla skóla uppi í heiði geti flutt verk Shakespeares með slíkum glans. Þau fluttu textann býsna vel - og það sem meira er, þau virtust skilja hvað þau voru að segja. Það þarf auðvitað ekki að fjölyrða neitt um það að Númi brilleraði í hlutverki Óberons álfakonungs, og sömuleiðis í smáhlutverki sem einn leikarinn í leikritinu í leikritinu. Húrra krakkar, haldið svona áfram!

Nú er það bara Valtýr Kári sem á eftir að stíga á fjalirnar - en hann er auðvitað búinn að sýna Tae Kwon Do fyrir forsetann.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

 

Bækur eru til margs gagnlegar

Er ekki við hæfi að bókaþjóðin grýti bókum í óvininn þegar hann birtist?
Og svo er alltaf gott að lesa sér til um hlutina.

laugardagur, apríl 01, 2006

 

Ferðahugur í minni

Það er ferðahugur í minni þessa dagana. Fyrir hádegi á fimmtudaginn bókuðum við Ella okkur með fyrsta fluginu til Billund, 27. maí, og ætlum að dvelja með Vallý í viku í sumarbústað á Jótlandi. Vallý er búin að finna bústað einhvers staðar rétt hjá Graasten - það er sem sagt aldrei að vita nema við fáum að berja einhverja úr kongefamilien augum. Ætti maður annars ekki frekar að segja dronningefamilien? Og ef við verðum nálægt Graasten er ekki nema smáspölur yfir landamærin til Þýskalands svo kannski bregðum við okkur þangað einhvern daginn. Og eftir hádegi sama dag, á fimmtudaginn, dreif ég í að staðfesta Ítalíuferðina hjá Úrval-Útsýn. Ég er farin að hlakka til sumarsins en miðað við þessi ferðalög er ekki víst að ég finni tíma til að fara á Strandirnar sem eru þó efst á óskalistanum yfir innanlandsferðir. En við förum allavega í sæludvöl á Búðum eins og við erum svo heppin að hafa getað gert tvö undanfarin ár. Það er gott að eiga góða að!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?