laugardagur, desember 20, 2008

 

Jólin, jólin, jólin koma brátt...

Og jólaskapið kemur smátt og smátt. Hér á Tjarnarbóli er búið að baka þrjár smákökusortir og bökunarilmurinn fyllir íbúðina. Reyndar frekar lítið af hverri sort enda verðum við tvö ein í kotinu yfir jólin og engar jólaveislur fyrr en á milli jóla og nýjárs eða um áramótin. Táningarnir ætla reyndar að koma í mat á mánudagskvöldið og fá fisk í raspi a la amma. Við eigum líka malt og appelsín og væntanlega verður þá eitthvað smakkað á téðum smákökum. Á meðan ég var að baka hlustaði ég á upptöku af jólatónleikunum okkar, þeir voru rosalega góðir og eftir að hafa hlustað skil ég vel þá áheyrendur sem sögðust hafa fengið gæsahúð í hár. Við vorum flottar og Diddú auðvitað alveg sér á parti. En svo ætlaði ég líka að hlusta á diskinn frá því í fyrra en uppgötvaði þá mér til angurs að hann er gallaður en svo mundi ég að ég fékk hann ekki fyrr en eftir áramót í fyrra og hef líklega ekki reynt að spila hann fyrr. Vonandi get ég fengið nýjan disk á mánudaginn. Á morgun verður svo tekið til í öllum skúmaskotum og lokið við að setja upp jólaskrautið svo að ekkert verði eftir á Þorláksmessu nema skreyta jólatréð. Ég ætla nefnilega ekki að láta mig vanta í sönginn í miðbænum á Þorláksmessukvöld. Við mætum á Austurvöll klukkan sjö, röltum eitthvað um miðbæinn og látum okkar fagra söng hljóma undurskært. Vona bara að veðrið verði þolanlegt, ekki rok og rigning.
Og svo óska ég landsmönnum öllum nær og fjær gleðilegra jóla og heillaríks nýs árs.
Lifið heil.

P.S. Ég veit að þetta er ekki jólalegt en að lokum legg ég til að aðalbankastjóri Seðlabankans verði sendur í geðrannsókn.

miðvikudagur, desember 17, 2008

 

Er fólk virkilega hissa?

Ég er undrandi á því að fólk skuli virkilega vera hissa á framgöngu ritstjóra DV. Hér sannast það sem ég hef alltaf haldið fram: Fólki hefnist fyrir misgjörðir sínar í þessu jarðlífi. Sá sem hefur framið fjölmörg mannorðsmorð á öðrum hlýtur á endanum að verða sýndur í réttu ljósi.
Að svo mæltu (eða skrifuðu) legg ég til að ritstjóri DV verði, ásamt aðalbankastjóra Seðlabankans, sendur í ítarlega geðrannsókn.

sunnudagur, desember 14, 2008

 

Kreppujól eða þannig?

"Við skulum vona að við finnum ekki meira fyrir kreppunni en við fundum fyrir góðærinu," varð eiginmanninum að orði áðan. En eftir að hafa athugað okkar gang sáum við að það væri líklega tilgangslaust að vonast eftir því. Við ætlum samt ekki að leggjast í þunglyndi enda engin ástæða til þess og jólin verða haldin eins og venjulega á Tjarnarbóli. Það eina sem angrar mig eru verkefnin sem ég þarf að koma frá mér fyrir jól, ég er hrædd um að eins og venjulega mæti smákökubakstur og hreingerningar afgangi, en eins og ég sagði við frændur mína sem voru hér í kaffi í gær þá bakaði ég í fyrra. Og þó? Ég held reyndar að ég hafi ekkert bakað í fyrra. Og við höfum enn ekki ákveðið hvað verður í jólamatinn. Rjúpur? Dádýrasteik? Hreindýr? Kengúra? Allt hljómar þetta vel en auðvitað ræðst ákvörðunin af því hvað okkur tekst að ná í. Jólagjafirnar eru komnar í hús, bara eftir að pakka þeim og senda þær sem þarf að senda og ég er langt komin með jólakortin. Útiserían fór á svalirnar í dag, og ég er svolítið byrjuð að skreyta en lokapunkturinn verður svo á Þorláksmessu og þá verður öll íbúðin komin í jólabúning.
En vinnan verður að ganga fyrir svo lífið geti gengið sinn vanagang í janúar.
Ef ég læt ekki heyra aftur frá mér fyrir hátíðarnar óska ég ættingjum og vinum sem þetta lesa gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs og að lokum legg ég til að aðalbankastjóri Seðlabankans verði sendur í geðrannsókn.
Annað var það ekki núna, lifið heil.

P. S. Ég viðurkenni að þetta síðasta er ljótt og ekki í anda jólanna.

fimmtudagur, desember 04, 2008

 

Hótanir

Ég get ekki skilið forsíðufrétt beggja dagblaðanna í morgun á annan veg en að seðlabankastjórinn sé með hótanir. "Ef ég þarf að láta af embætti fer ég aftur í pólitíkina." Ég sannfærist betur og betur um geðheilsu mannsins. Þetta er svona eins og þegar frekjudósin í sandkassanum segir: "Ef ég fæ ekki að leika mér að rauða bílnum skal ég bara lemja þig með skóflunni."
Ég legg því enn og aftur til að viðkomandi verði sendur í ítarlega geðrannsókn.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?