mánudagur, september 29, 2008

 

Heppin sú gamla

Lánið eltir mig svo sannarlega á röndum. Hugsið ykkur hvað ég hefði tapað miklu ef ég ætti hlutabréf í Glitni, en þau á ég blessunarlega ekki. Hins vegar standa skuldirnar mínar við bankann í stað og hækka bara samkvæmt verðtryggingu. Svona leikur lánið alltaf við mig.
Hins vegar skilst mér að Seðlabankinn hefði getað veitt Glitni svokallað neyðarlán til að bjarga málunum fyrir horn. Getur verið að Davíð Oddsson sé loksins að ná sér niðri á Jóni Ásgeir með því að láta Geir H. Haarde þjóðnýta bankann hans? Hvers vegna var ekki veitt neyðarlán í þessu tilfelli? Ég bara spyr, enda veit ég ekkert um fjármálaheiminn eða fjármál yfirleitt, kalla mig góða að geta haldið mínum eigin nokkurn veginn í réttu horfi.
Annað var það ekki. Gætið ykkar á myrkrinu.

laugardagur, september 27, 2008

 

Ferðalok að hausti

Jæja, sú gamla er komin heim aftur eftir mikla ævintýraferð til Sardiníu með viðkomu í Lundúnaborg í báðum leiðum. Ég ætla svo sem ekki að skrifa neina ferðasögu, en Sardinía er auðvitað yndislegur staður og þessi litli bær, Santa Teresa di Gallura, þar sem við vorum þessa viku var afar notalegur. Íbúðin var vel staðsett, rétt við miðbæinn, rétt við höfnina og ekki langt á ströndina þegar ekki er farin einhver fjallabaksleið eins og við álpuðumst til að gera einu sinni. Og við fórum í "Miðjarðarhafssiglingu" yfir til Korsíku í lítinn bæ sem heitir Bonifacio og ég heillaðist gjörsamlega af. Innsiglingin eins og að vera komin í sjóræningjamynd og einhvern veginn átti ég von á að Johnny Depp birtist á hverri stundu með lepp fyrir auganu! Verðlagið þar var líka mun hagstæðara en á Sardiníu og merkilegt nokk voru allir Frakkarnir sem við áttum samskipti við yfirmáta kurteisir og elskulegir. Það hefur nefnilega verið sagt um Frakka eins og Íslendinga að þeim sé ekki gefin sérlega mikil þjónustulund!
London var svo auðvitað frábær eins og venjulega. Kvöldið áður en við fórum heim buðum við vinkonurnar Ann að sjá Mama Mia (söngleikinn), en Ann skaut yfir okkur skjólshúsi meðan við dvöldum í London og var í alla staði afar elskuleg. Það er skemmst frá því að segja að ég hef ekki skemmt mér betur í langan tíma. Ég hafði satt að segja engan áhuga á að sjá kvikmyndina sem allir eru að dásama, en núna dreplangar mig á sing-along sýningu og þenja lungun. En ætli ég láti nokkuð verða af því, það er annað að standa upp í leikhúsi þar sem enginn þekkir mann og dansa og syngja eins og vitleysingur en að fremja slíkt hér heima þar sem ég gæti þekkst!
En ævintýrin héldu áfram að elta okkur. Þegar við vorum búnar að tékka okkur inn á Heathrow á þriðjudagskvöldið og vorum í biðröð í öryggiseftirlitinu varð allt í einu uppi fótur og fit og öllum skipað að fara út eins og skot. Þegar við Ella vorum að skunda út mætti okkur svo ábúðarfullur maður sem mundaði sjálfvirka hríðskotabyssu eins og í bíómynd og okkur fannst hann nánast miða henni á okkur. (Sem sagt; fyrst sjóræningjamynd og síðan hasarmynd.) Svo voru allir reknir út á hlað, líka þeir sem voru að tékka inn, og þar biðum við í svona kortér eða tuttugu mínútur þar til við fengum að fara inn aftur. Heimferðin gekk síðan samkvæmt áætlun og ég held að ég hafi meira að segja sofið í allt að klukkutíma, allavega fannst mér hún taka ótrúlega stuttan tíma. Kom heim klukkan að ganga tvö og var komin í rúmið rúmlega tvö.
Nú hef ég fengið nóg af ferðalögum í bili, ákvað meira að segja að sleppa haustferð BPW í þetta sinn þótt ekki sé farið lengra en austur í Grímsnes!

miðvikudagur, september 10, 2008

 

Sæl að sinni

Innan skamms legg ég af stað í rigninguna í London og nokkrum dögum síðar í sólina á Sardiníu. Það versta þegar maður er að fara á tvo áfangastaði er að þurfa að pakka fyrir þá báða, en í þessu tilfelli fáum við að geyma hjá Ann það sem við þurfum ekki á að halda á Sardiníu. Það var eiginlega ekki fyrr en í sundinu í morgun sem það rann upp fyrir mér að það væri komið að þessu. Já, við hjónakornin fórum sem sagt í sund í morgun, enda verður líklega hálfur mánuður fram að næstu sundferð hjá mér.
Annað var það ekki í bili. Ferðafréttir þegar ég kem aftur heim.
Góðar stundir og njótið haustsins.

laugardagur, september 06, 2008

 

Eðli starfa

Formaður Samninganefndar ríkisins lætur hafa eftir sér í Mogganum að ekki eigi að miða eingöngu við menntun þegar launakjör séu ákvörðuð heldur einning við "eðli starfa". Hvert skyldi nú vera "eðli starfa" ráðherra og þingmanna annars vegar og ljósmæðra hins vegar?
Að mér sækir illur grunur.
Hafið það svo sem allra best um helgina.

 

Hamagangur á Hóli

Nú fer að styttast í það að ég haldi af stað til Sardiníu og það er svo margt sem ég þarf að klára áður en ég fer að ég má halda vel á spöðunum. Og svo reiknuðum við stöllurnar auðvitað ekki með þróun gengisins þegar við ákváðum þennan áfangastað í júní í fyrra. Reyndar borguðum við flugið frá London til Alghero strax í mars og sömuleiðis helminginn af íbúðinni og svo fáum við ókeypis gistingu í London svo það má eiginlega segja að við sleppum nokkuð vel, en ég er hrædd um að ég haldi nokkuð fast í budduna - eða öllu heldur kortið. Ég kvarta nú samt ekki mikið yfir hlutskipti mínu! En þegar ég kem heim hætti ég allavega að flækjast í bili.

Hins vegar er ég eiginlega að verða brjáluð á þessu bananalýðveldi okkar. Ljósmæður í verkfalli -já, þingmenn góðir, hver tók á móti ykkur? Og væntanlegt frumvarp um bætur til handa Breiðuvíkurdrengjunum er til háborinnar skammar. Á sama tíma erum við að ausa peningum í alls konar andskotans vitleysu svo sem Kínaferðir menntamálaráðherra með föruneyti og heræfingar og sitt hvað fleira. En svo er ekki hægt að borga þeim sem vinna bráðnauðsynleg störf eins og ljósmæðrunum mannsæmandi laun, enda þótt þær hafi varið mörgum árum í að mennta sig til þess, hvað þá heldur þeim sem vinna almenn umönnunarstörf. Ja, svei. Ég verð að segja að mér finnst þessi ríkisstjórn ekki hótinu betri en sú sem ríkti á undan henni og Geir Haarde er kominn með sama fýlusvipinn og forveri hans. Ég er reyndar blessunarlega laus við að hafa kosið þessa flokka, en ef stjórnarandstaðan tekur ekki betur við sér held ég hreinlega að ég skili auðu ef ekkert breytist fyrir næstu kosninar.

Þar hafið þið það og hana nú.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?