föstudagur, september 30, 2005

 

Klukk

Ég var klukkuð - og var lengi að hugsa hvað ég ætti að opinbera um sjálfa mig og hér kemur það.

1. Ég er fædd og uppalin í sveit og í barnaskóla gekk ég meira að segja í farskóla. Ég er enn ótrúlega mikil sveitastelpa í mér.
2. Ég hef alltaf verið lofthrædd og lofthræðslan hefur ágerst með aldrinum. Núna er hún eiginlega orðin eins konar fötlun sem háir mér verulega.
3. Vinum mínum og vinkonum finnst ég hafa húmor.
4. Ég er bókaormur og verð alltaf að hafa eitthvað að lesa. Viðurkenni samt að stundum þegar ég byrja á bókum, sem mér finnst síðan ekki þess virði að lesa, legg ég þær bara frá mér. Áður fyrr píndi ég mig í gegnum þær.
5. Ég er langrækin. En ég man líka lengi hverjir hafa gert mér og mínum gott og reyni eftir megni að endurgjalda það.

P.S. Ég klukka Gullu (þegar tölvan hennar kemst í lag) og Eygló.

miðvikudagur, september 28, 2005

 

Af styttumálum

Í tilefni af umræðum sem spruttu upp varðandi styttu af Tómasi Guðmundssyni langar mig til að varpa fram þeirri spurningu hvort einhvers staðar sé til stytta af Nóbelsskáldinu okkar? Ef einhver veit það væri ég þakklát ef hann eða hún léti mig vita. Tómas Guðmundsson er allra góðra gjalda verður og ljóð hans yndisleg, en það eru til önnur skáld af sömu kynslóð sem ekki er einu sinni til brjóstmynd af. Tómas var held ég aldrei mikið fyrir að berast á og ég hugsa að hann væri hæstánægður með brjóstmyndina af sér á Bókasafni Reykjavíkur, sem er auðvitað mesti virðingarstaðurinn fyrir skáld.

þriðjudagur, september 27, 2005

 

Sápa

Finnst ykkur nokkuð að þið séuð stödd í miðri sápuóperu? Þvílíkt fjör. Við höfum verið með tilraunaáskrift að Mogganum (var boðin mánuður fyrir sama gjald og helgaráskriftin sem við vorum með) og ætluðum að segja henni upp fyrir mánaðarmótin, en nú er ekki nokkur leið að gera það fyrr en maður sér hver framvinda Stóra tölvupóstmálsins verður.

mánudagur, september 26, 2005

 

Stóra tölvupóstmálið

Ég hef því miður engan spennandi tölvupóst undir höndum. Á honum eru engin fingraför að finna.

sunnudagur, september 25, 2005

 

Pissað í skóna

Mér sýnist á öllu að ýmsir framámenn í þjóðfélaginu hafi pissað illa í skóna sína og mikið er ég hrædd um að þeim verði kalt á tánum þegar kólna fer.
Það var ekki annað.

 

Afmæli

Sonarsonur nr. 1 varð 14 ára í gær. Hann fékk þessa vísu í sérhönnuðu afmæliskorti.

Fjórtán ára flottur gæi
fremur kúnst af ýmsu tagi,
gáfurnar í góðu lagi
enda sonarsonur minn,
sæti, litli stúfurinn.

Afmælisbarnið fílaði þetta í botn og amma og afi fengu gott knús. Ég hef reyndar ekki enn komist að því hvað það er sem við gáfum honum í afmælisgjöf. Það kemur í ljós.

laugardagur, september 24, 2005

 

Ja, nú er ég hissa

Alveg er ég steinhissa á að ritstjóri Moggans, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og Jón Steinar Gunnlaugsson skuli hafa fundað um mál Jóns Geralds Sullenbergers gegn Baugi.
Hverjum hefði dottið annað eins í hug? Væri kannski rétt að kalla Styrmi veiðimálastjóra?

föstudagur, september 23, 2005

 

Þura í Garði

Ég var að glugga í Vísur Þuru í Garði og má til með að birta eina. Þura heyrði á tal nokkurra stúlkna sem voru að tala um unga pilta og þá helst hvað einn þeirra væri smávaxinn.

Við skulum ekki hugsa um hann
heldur einhvern stærri mann.
Það er eins og þankastrik
þetta litla, stutta prik.

Það var ekki fleira að sinni.

þriðjudagur, september 20, 2005

 

Illgirni? Nei, nei.

Ég get ekki að því gert að það hlakkar í mér í dag. Vil samt taka það fram að ég tengist Baugsmönnum ekki neitt að öðru leyti en því að ég kaupi stundum í matinn í Bónus.

mánudagur, september 19, 2005

 

Nöldur og þó ekki

Ég gæti skrifað heillangt nöldur um nýja samgöngumannvirkið sem ætlað er að létta borgarbúum lífið í umferðinni, þ.e. nýja kaflann á Miklubrautinni, en þessar framkvæmdir hafa lengt til muna tímann sem það tekur okkur að komast frá Tjarnarbólinu upp að Perlu, en ég held að ég sleppi bara öllu nöldri af því mér líður svo ljómandi vel núna. En það fer ekki á milli mála að umferðarljósin eru eitthvað vitlaust stillt, allavega á Reykjanesbrautinni upp í Öskjuhlíðina. Hvað um það, við fórum í kraftgönguna eins og lög gera ráð fyrir og eftir það í sund og gufu og nú líður mér eins og nýhreinsuðum hundi, eins og frændi minn sálugi hefði sagt.
Og svo er það annað. Er einhver hissa þótt Halldór hafi lýst yfir framboði til Öryggisráðsins án þess að tala fyrst við Davíð eða Geir? Það er bara dæmigert fyrir flumbruganginn sem einkennir þessa ríkisstjórn. Þegar Geir (sem reyndar er eini ráðherrann sem ég treysti) var spurður í hvað hann vildi eyða peningunum sem fengust fyrir símann sagðist hann ekki geta tekið ákvörðun um það einn, það væri Alþingi sem færi með fjárveitingavaldið. Skömmu síðar lýsti ríkisstjórnin því yfir í hvað peningarnir færu án þess að það væri nokkurn tíma borið undir Alþingi. Hver er svo hissa á að Dóri missi eitthvað út úr sér í hita leiksins? Eru kannski allir búnir að gleyma Bermúdaskálinni? Eða var Dabbi bara borgarstjóri þá?

 

Mikið var

Loksins kom ég því í verk að falda kantana á nýju eldhúsgardínunum og koma þeim upp. Nú er eldhúsið orðið alveg æðislega flott og nýju púðarnir komnir á stólana. Mjög ljúft og elegant að sitja þar með morgunkaffið og lesa Moggann - Fréttablaðið höfum við ekki fengið á virkum dögum síðustu vikurnar. Annað er tíðindalaust, kraftgangan er byrjuð aftur og svo fer ég tvisvar í viku í rope-jóga sem er alveg frábært. Mikið fjandi verð ég flott áður en veturinn er úti.
Það var svo sem ekki annað sem ég vildi sagt hafa.

fimmtudagur, september 15, 2005

 

Snillingur

Í gærkvöldi horfðum við hjónin á fyrri hluta heimildamyndar um Jóhann Sigurjónsson sem við tókum upp úr sjónvarpinu í fyrrakvöld að mig minnir. Mikill rosalegur snillingur hefur maðurinn verið - og auðvitað sjarmör á heimsmælikvarða. Það kunna auðvitað allir Einn sit ég yfir glasi en ég held að kannski kunni ekki margir síðasta erindið sem er svona:

Að baki mér bíður Dauðinn,
ber hann í hendi styrkri
hyldjúpan næturhimin
helltan fullan af myrkri.

Hvað viljið þið hafa það betra? Er þetta ekki eitt magnaðasta ljóð sem ort hefur verið á íslenska tungu? Ég bíð í ofvæni eftir að sjá síðari hluta myndarinnar!

miðvikudagur, september 14, 2005

 

Í minningu stórleikara

Bessi Bjarnason, einn mesti snillingur sem íslenskt leikhús hefur átt, er látinn. Sem dæmi um snilld hans langar mig að segja ofurlitla sögu frá því að eldri sonur minn var lítill. Bessi Bjarnason var vitaskuld eitt mesta átrúnaðargoð drengsins og að verða þeirrar ánægju aðnjótandi að vera eitt sinn óvænt staddur í verslun á sama tíma og hann var ógleymanlegt litlum stubb. Svo var það þegar snáðinn var líklega fimm ára eða á fimmta ári að verið var að sýna Litla Kláus og Stóra Kláus í Þjóðleikhúsinu og fór Bessi með hlutverk hins voðalega Stóra Kláusar. Ég fór að sjálfsögðu með frumburðinn í leikhús og þarna sátum við og fylgdumst grannt með öllu sem fram fór á sviðinu. Síðan kemur þar í leikritinu að stóri Kláus hefur komið litla Kláusi í pokann og ætlar að tylla sér inn á krá og fá sér hressingu áður en lengra er haldið, en þá snýr Bessi sér að salnum og segir við krakkana að þeir verði að kalla og láta sig vita ef litli Kláus ætli að sleppa úr pokanum. Auðvitað byrjar litli Kláus að reyna að sleppa og alltaf stækkar opið á pokanum og ég finn að sá litli við hliðina á mér ókyrrist meira og meira. Loks er svo komið að það er auðsýnt að fanginn sleppi og þá stenst drengurinn ekki mátið en hrópar háum rómi: „Stóri Kláus! Stóri Kláus, hann er að sleppa!“ Frænka drengsins og jafnaldra sem sat hinum megin við hann sneri sér þá við og rak honum vel útilátinn löðrung. „En...“ byrjaði drengurinn. „Maður heldur ekki með stóra Kláusi,“ hvæsti hún á hann.
En svona var Bessi, lítil sál gat ekki skilið að átrúnaðargoðið gæti leikið vondan mann.

þriðjudagur, september 13, 2005

 

Ættarsagan

Ættarsagan fór í prentsmiðjuna í gær og þungu fargi af okkur létt sem mest hafa staðið í þessu. Við Rauðholtsbóndinn tókum góða törn á sunnudaginn, hann þó heldur lengri þar sem ég var laus allra mála um áttaleytið en hann víst ekki fyrr en á miðnætti. Nú segja þessar ágætu konur í prentsmiðjunni að þær verði búnar með umbrotið fyrir vikulok svo þetta er allt á góðri leið og barnið loksins að fæðast eftir nokkurra ára meðgöngutíma. Enda þótt bókin líti dagsins ljós í þessum mánuði, ef ekkert fer úrskeiðis, verður útgáfuteitið ekki fyrr en í byrjun nóvember þegar Rauðholtsbóndinn kemur næst í bæinn. Annars verð ég vist að hætta að titla hann bónda þar sem hann flytur til Egilsstaða eftir mánuð og sonur hans tók við búinu fyrir þremur árum ef ég man rétt. En, hvað um það, við bíðum öll spennt eftir að sjá bókina!
Það var nú sjálfsagt ekki í tilefni af þessu en í gærkvöldi fór ég á fatakynningu og kom heim með æðislegan ólífugrænan leðurjakka sem ég veit að á eftir að verða uppáhaldsflík hjá mér! En ég get svo svarið að nú er ég hætt þessum spandans, ekki meiri fatakaup fyrr en næsta vor!

fimmtudagur, september 08, 2005

 

Ó, New Orleans!

Ó, New Orleans, yndislega borg. Ég græt í hjartanu þegar ég sé myndir af mannlausum götum sem ættu að iða af lífi og lífsglöðu, brosandi fólki. Það vill svo til að ég var í New Orleans fyrir nákvæmlega fjórum árum, um mánaðarmótin ágúst/september 2001 og þessi borg heillaði mig algerlega upp úr skónum. Allt glaðlega fólkið sem tók á móti okkur er ógleymanlegt og nú hvarflar hugurinn æði oft til þess hvernig komið sé fyrir því. Börnin kátu sem sungu fyrir okkur og með okkur, fólkið sem stjórnaði gospelnámskeiðinu og allt skemmtilega fólkið sem tók þátt í námskeiðinu og allir sungu saman um kvöldið. Hver hafa örlög þeirra orðið? Hvernig stendur á því að ríkasta þjóð í heimi lætur þetta fara svona? Hvers vegna var ekki búið að styrkja varnargarðana þar sem vitað var fyrir löngu að þeir stæðust ekki fellibyl af þessum styrkleika? Hvers vegna var dregið svona að senda hjálp á staðinn? Getur það hugsanlega verið af því að þarna eru 80% íbúanna svartir og tekjulágir? Svari nú hver sem veit, en ég held að það gildi ekki það sama um ríka, hvíta John og svarta, fátæka John. Sveiattan. Ungi hótelstarfsmaðurinn sem hjálpaði mér að fá lækni þegar moskítóbitin voru farin að líta illa út var einmitt svartur og hét John. Hvað skyldi hafa orðið af honum? Hann sem var svo kurteis og þægilegur, eiginlega eins og góður frændi að hjálpa frænku gömlu.
Ég vona bara að lögð verði áhersla á uppbygginguna og brátt fari tónlistin að fljóta aftur á Bourbon Street, þar sem jassinn hljómaði og líka blues og gospel eða jafnvel rokk og alls staðar var hægt að setjast inn og hlusta á lifandi flutning. Og markaðurinn við Canal Street er heill kafli út af fyrir sig með allri sinni fjölbreytni. Hvað er New Orleans án kennimerkja sinna?

miðvikudagur, september 07, 2005

 

Af landsbyggðarreisu

Komin heim á ný eftir frábæra landsbyggðarferð. Búðir standa alltaf fyrir sínu (þ.e. Hótel Búðir ekki svona verslanir eða krambúðir) og tveggja nátta dvöl þar er á við vikudvöl á sólarströnd. Við fengum sama herbergið og í fyrra svo þetta var eins og best var á kosið. Skrítið að hafa þetta frábæra útsýni af salerninu. Við lágum auðvitað ekki í leti og afslappelsi, ó, nei. Við fórum í fjallgöngur og berjamó, gengum í fjörunni og ókum svo um Snæfellsnesið og komum á ótrúlega fallegan stað sem hvorugt okkar hafði litið augum áður. Staðurinn heitir Skarðsvík og er á leiðinni niður á Öndverðarnes. „Tilkynning frá Vitamálastjórn, vitinn á Öndverðarnesi logar ekki.“ Hver man ekki eftir þessu? Þarna í þessari vík er stórkostleg, hvít sandfjara umlukt svörtum klettum og í sumri og sól er örugglega ekki verra að baka sig þarna heldur en á Spánarströnd. Þarna fannst kumbl fornmanns fyrir einhverjum árum og ég verð að segja að þetta er býsna fallegur hinsti hvílustaður. Ég gæti alveg hugsað mér það fyrir sjálfa mig en það má vist ekki hola fólki niður hvar sem er. Það mætti skrifa langan pistil um matinn á Búðum en ég held að ég sleppi því bara, nóg að segja að hann er í stíl við allt annað og veldur ekki vonbrigðum. Eftir dvölina þarna brenndum við vestur í Dali, höfum ekki komið þangað í áratugi og það var líka mjög skemmtilegt. Verst var að við vorum nokkrum dögum of sein til að skoða Eiríksstaði, þar er sem sagt lokað og læst 1. september. Við gátum nú samt skoðað tóftirnar sem hafa verið grafnar upp og svo auðvitað skálann að utan. Vorum mest hissa á að hann skyldi ekki hafa verið stærri, en þessi „tilgátuskáli“ eins og hann er kallaður er nákvæmlega jafnstór tóftunum sem fundust eða 48 fermetrar. Og svo eru auðvitað engir gluggar (eða skjáir) á honum, sem ég hélt þó að hefðu verið gerðir úr kálfsmaga eða einhverju slíku. En sem sagt, við komum aftur heim seinnipartinn í gær og eftir allar krásirnar var bara ljómandi gott að borða Ora fiskbollur úr dós og berjaskyr á eftir!
Þá er ég hætt í bil. Meira seinna.

P.S. Vitinn á Öndverðarnesi logaði ekki.

P. P.S. Ég hafnaði atvinnutilboðinu, það var ekki nógu spennandi til að binda sig um óákveðinn tíma.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?