miðvikudagur, september 07, 2005

 

Af landsbyggðarreisu

Komin heim á ný eftir frábæra landsbyggðarferð. Búðir standa alltaf fyrir sínu (þ.e. Hótel Búðir ekki svona verslanir eða krambúðir) og tveggja nátta dvöl þar er á við vikudvöl á sólarströnd. Við fengum sama herbergið og í fyrra svo þetta var eins og best var á kosið. Skrítið að hafa þetta frábæra útsýni af salerninu. Við lágum auðvitað ekki í leti og afslappelsi, ó, nei. Við fórum í fjallgöngur og berjamó, gengum í fjörunni og ókum svo um Snæfellsnesið og komum á ótrúlega fallegan stað sem hvorugt okkar hafði litið augum áður. Staðurinn heitir Skarðsvík og er á leiðinni niður á Öndverðarnes. „Tilkynning frá Vitamálastjórn, vitinn á Öndverðarnesi logar ekki.“ Hver man ekki eftir þessu? Þarna í þessari vík er stórkostleg, hvít sandfjara umlukt svörtum klettum og í sumri og sól er örugglega ekki verra að baka sig þarna heldur en á Spánarströnd. Þarna fannst kumbl fornmanns fyrir einhverjum árum og ég verð að segja að þetta er býsna fallegur hinsti hvílustaður. Ég gæti alveg hugsað mér það fyrir sjálfa mig en það má vist ekki hola fólki niður hvar sem er. Það mætti skrifa langan pistil um matinn á Búðum en ég held að ég sleppi því bara, nóg að segja að hann er í stíl við allt annað og veldur ekki vonbrigðum. Eftir dvölina þarna brenndum við vestur í Dali, höfum ekki komið þangað í áratugi og það var líka mjög skemmtilegt. Verst var að við vorum nokkrum dögum of sein til að skoða Eiríksstaði, þar er sem sagt lokað og læst 1. september. Við gátum nú samt skoðað tóftirnar sem hafa verið grafnar upp og svo auðvitað skálann að utan. Vorum mest hissa á að hann skyldi ekki hafa verið stærri, en þessi „tilgátuskáli“ eins og hann er kallaður er nákvæmlega jafnstór tóftunum sem fundust eða 48 fermetrar. Og svo eru auðvitað engir gluggar (eða skjáir) á honum, sem ég hélt þó að hefðu verið gerðir úr kálfsmaga eða einhverju slíku. En sem sagt, við komum aftur heim seinnipartinn í gær og eftir allar krásirnar var bara ljómandi gott að borða Ora fiskbollur úr dós og berjaskyr á eftir!
Þá er ég hætt í bil. Meira seinna.

P.S. Vitinn á Öndverðarnesi logaði ekki.

P. P.S. Ég hafnaði atvinnutilboðinu, það var ekki nógu spennandi til að binda sig um óákveðinn tíma.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?