miðvikudagur, febrúar 23, 2005

 

Hvað er þetta með okkur?

Hvað er þetta með okkur hjónin að vera vitlaus í raunveruleikaþætti í sjónvarpinu? Það var næstum eins og jólin í gær þegar Survivor byrjaði aftur - það liggur við að ég sé búin að ákveða með hverjum ég held og hverja ég þoli ekki. Svo tókum við Blokkina upp og mikið rosalega fer snobbaða líkamsræktarparið í taugarnar á mér. Þau voru svo spæld yfir að vera ekki boðin í brúðkaupið hjá hinum að þau urðu að halda stórpartí í garðinum fyrir fínu vinina og ættingjana! Ha, ha, ha! Minnti mig á: „Þau eru súr,“ sagði refurinn. Núna áðan stóð ég mig að því að hlusta með athygli á strákana í American Idol og ákveða yfirvegað hverjir mér finnst að eigi að detta út og nota svo tímann þar til það kemur í ljós til að skrifa þetta blogg. Og ekki má svo gleyma Amazing Race, sem ég hef reyndar ekki horft á fyrr en núna og þá bara af því ég vildi sjá fyrsta þáttinn sem var tekinn hérna. Ég vil endilega að fríkið sem er alltaf að skamma konuna sína tapi. Ég held að hún hljóti að sparka honum um leið og þau detta út úr keppni, ef ekki fyrr. Ég þekki svo sem fólk sem er ekki ólíkt honum og snobbaða parinu í blokkinni. Sumir standa einfaldlega í þeirri trú að þeir séu betri en allir aðrir og það er því miður sjaldan hægt að leiðrétta. Auðvitað er ekki eðlilegt að liggja svona í þessum þáttum - við sem alla jafna höfum talið okkur sæmilega skynsamt fólk. Ég held að ég verði að fara að endurskoða það álit mitt á okkur hjónakornunum. En nú er þetta farið að vera nöldur svo ég ætla að hætta því. Annars er því við að bæta að ég er ekki enn lögst yfir Next topmodel en ef það gerist held ég að ég verði að leita til sálfræðings!

Þrotin að kröftum!
Ég kom heim þrotin að kröftum eftir kraftgönguna í dag, þvílíkt púl, maður minn. Ég sem hélt að ég væri öll að styrkjast! Líklega verð ég að endurskoða líkamlega ástandið jafnt því andlega! Það var verið að tala um að fara í gönguferð um Hornstrandir í sumar og mikið svakalega væri gaman að fara með í hana. Það verður bara að koma í ljós eftir því hvenær verður farið og hvað það kemur til með að kosta. Ætli það sé ekki best að byrja á fjöruferðinni um aðra helgi og sjá til hvernig maður verður eftir hana.

sunnudagur, febrúar 20, 2005

 

Hugleiðing

Þetta orti ég einu sinni. Hreint ekki sem verst.

Hugleiðing.

Um sumardag er situr fugl á grein
og sólin vermir grund og kaldan stein,
þá hvarflar að mér, allt er vilja háð
þess alheimsguðs er verndar okkar láð.

Þótt kólni um sinn er sumar okkur nær
og senn mun strjúka um vanga ljúfur blær
sem vekur fræ er frostið svæfði í haust
svo frjó af blundi vakna, ofur laust.

Og brátt úr moldu fífill fagur grær
og fyrr en varir allt mót sólu hlær
sem dregur lífsins anda á okkar jörð
og unaðstöfrum skreytir kalinn svörð.

Og þannig er með okkar æviskeið
en oft það reynist kalt á þeirri leið,
þá bíður ávallt betri, fegri tíð,
þótt byrsti sig um tíma vetrarhríð.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

 

Ys og þys - ekki út af engu

Það er búið að blása kórferðina af. Ég sé eiginlega ekkert eftir því, enda var ég aldrei ákveðin í að fara og það kom í ljós að áhuginn var ekki nógu mikill, ekki nema ca. 1/3 af kórnum sýndi áhuga. Í staðinn verður væntanlega farið eitthvað í haust eða í febrúar-mars á næsta ári og mér finnst það líka miklu betri tími. Magga nefndi til dæmis að okkur stæði til boða að halda tónleika í New York, einhverri kirkju á miðri Manhattan, og hugsanlega líka á Guggenheim-safninu og það finnst mér brjálæðislega spennandi! Auk þess er dollarinn svo hagstæður núna að það yrði hræódýrt að fara í aðra Ameríkuferð - ekki eins og síðast þegar hann var rúmar hundrað krónur.
En nóg um það - í bili allavega.

African Sanctus tónleikarnir á laugardaginn voru frábærir í einu orði sagt. Höfundurinn, David Fanshawe, notar upptökur frá Afríku undir eigin tónsmíðar, latneska messu með öll tilheyrandi, sanctus, kyrie, gloria, credo, crusifixus og Agnus Dei. Meiri háttar flott samsetning og svo söng Diddú einsöng og hún stendur að sjálfsögðu alltaf fyrir sínu. Á sunnudag var svo sextugsafmæli Dídíar með miklu fjöri og flottum veitingum. Ég gæti hugsað mér afmælið mitt eitthvað í þessa veru ef ég held upp á það. Á mánudagskvöldið var samsöngur í Domus Vox, ég tók Till There Was You og fékk held ég bara góða umsögn. Ekki mikla krítik á sönginn en góðar ábendingar varðandi túlkunina. Á þriðjudagskvöldið eftir kóræfingu tók við dömu- og daðurnámskeið hjá Helgu Brögu. Ég ætti að vera útskrifuð í fræðunum þar sem þetta er annað námskeiðið sem ég er á hjá henni. Svo setur fólk upp undrunarsvip þegar ég segi frá því! Í gærkvöldi var svo kertaljósafundurinn hjá BPW, hátíðlegur og flottur eins og alltaf. Jóna Hrönn miðborgarprestur var með fyrirlestur og fór á kostum - hún er alveg bráðskemmtileg og svo lifandi og sjarmerandi manneskja.

Nú, sem sagt er komin ró yfir mig og ég er alveg dauðfegin að geta verið heima og þurfa ekki að fara nokkurn skapaðan hlut - við hjónakornin fórum í sund í dag og ég get svo svarið að ég er viss um að vigtin í sundlauginni er snarbiluð! Hún stenst bara alls ekki. Annars grunar mig að einhver spellvirki sitji um að fikta í henni þegar hann sér mig mæta í sund og horfa svo á mig í gegn um falda myndavél og skellihlæja þegar hann sér fýlu- og undrunarsvipinn færast yfir andlitið á mér.

laugardagur, febrúar 12, 2005

 

Tíðindalaust vestur á Nesi

Vaknaði í morgun um hálftíuleytið og fékk vatn í munninn þegar ég fann þessa líka indælu bökunarlykt. Ég vissi að Jón hafði ætlað að taka heita croissants með í vatnslitatímann og dauðsá eftir að hafa ekki beðið hann að baka einn handa mér líka. Haldið þið svo ekki að þessi elska hafi gert það alveg hreint óbeðinn - ég er viss um að hann hefur fundið hlýja strauma frá mér þegar ég settist niður með blöðin og nýlagað kaffi og croissant með smjöri og osti. Frábært upphaf að laugardegi. Eftir að hafa flett yfir blöðin og leyst krossgátuna í Lesbók Moggans æfði ég mig svolítið fyrir tímann á eftir. Eitt örlítið, venjulegt tónbil í Med en primula veris þvælist skelfilega fyrir mér en ég SKAL ná því í tímanum í dag. Ég hef margoft sungið þetta lag og þetta hefur aldrei þvælst neitt fyrir mér áður svo ég hlýt að geta losað mig við þessa meinloku. Eiginlega ætluðum við Ella og Vala að taka Laugavegsrispu í dag en í gær ákváðum við Ella að fresta því og ég lofaði að tala við Völu og láta hana vita. Ákvað svo að bíða með það þar til hún kæmi heim úr vinnunni og þar með gleymdist það með öllu. Ég hringdi svo til hennar núna um hádegið og þá hafði hún fastlega reiknað með að rispunni væri frestað og var búin að panta sér miða á African Sanctus í Neskirkju klukkan sex og það varð úr að ég ákvað að fara með henni. Ég hafði einmitt séð tónleikana auglýsta og dauðlangaði að fara en framkvæmdirnar eru aldrei í líkingu við löngunina þegar um eitthvað svona er að ræða. Sem sagt í dag eru það tónleikar klukkan sex og á morgun sextugsafmæli Dídíar. Nóg að gera þessa helgina.
Eins og sést tókst mér að koma dagsetningunum yfir á íslensku. Það var reyndar með hjálp Daníels, ég vissi það alveg að hann gæti leiðbeint mér. En mér tókst ekki að fylgja leiðbeiningum hans við að setja upp linka svo það verður að bíða betri tíma. ÞaÐ getur hugsast að hann gisti hjá okkur eina nótt um næstu helgi því þá verður hann á einhverju kennaraþingi á Selfossi - var að bjóða sig fram í stjórn Kennarasambandsins og þá er eins gott að mæta.

Annars var aldrei ætlunin að þetta blogg mitt yrði nein dagbók, málið er að mér hefur bara ekki dottið neitt annað í hug en nú er Kalli prins búinn að tilkynna að hann ætli að kvænast Kamillu sinni í vor og var nú bara tími til kominn. Ég var að lesa að þau hafi kynnst fyrir 35 árum en ekki fengið að eigast af því hún var ekki nógu fín. Hvað ætli það hafi svo gert margar manneskjur óhamingjusamar og sorgmæddar? Andsk. rugl þetta. Annars hef ég heyrt kenningu um að Karl sé í raun og veru hommi og Kamilla klæðskiptingur, en hún er auðvitað fundin upp af einhverjum körlum sem finnst Kamilla ekki nógu sæt og kvenleg. Og hvað með það? Kemur það nokkrum við fyrst Kalli er ánægður með hana og hún með hann. Hann er svo sem ekkert kyntröll sjálfur.
En nú rausa ég ekki meira í bili.

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

 

Sprengidagur seint og um síðir

Í gær var sprengidagur en þar sem ég fór í söngtíma klukkan fjögur og svo á kóræfingu strax á eftir var ekki eldað saltkjöt og baunir á þessu heimili. Í söngtímanum fór ég rétt aðeins í lagið sem ég var að fá, Ich Liebe Dich eftir Beethoven (eða Ludvig van) og nú reyni ég að æfa það heima fyrir næsta tíma ásamt Vittoria, mio core. Annars var ég hálfþreytt og illa upplögð svo mér gekk ekki sérlega vel í tímanum. Og vegna þess að ég þarf að bíða í hálftíma þar til kóræfingin byrjar hef ég verið svo elskuleg að taka að mér laga kaffi fyrir kórinn en haldið þið ekki að helv. kaffivélin hafi tekið upp á að stríða mér. Það tókst samt að laga á eina könnu áður en æfingin hófst og ég setti aðra af stað til að hafa tilbúna í hléinu en þá hafði vélin klikkað aftur. Merkilegt nokk náði ég samt einum bolla í pásunni! Á æfingunni var aðeins rætt meira um hugsanlega Ítalíuferð, það er komið í ljós að okkur býðst að syngja við hámessu í Markúsarkirkjunni í Feneyjum 26. júní og að halda tónleika í einhverri annarri kirkju í borginni þá um kvöldið. Flogið yrði til Bologna og ekið til Rimini og dvalið þar á íbúðahóteli í viku. Ein kórsystirin kom strax til mín og bað mig að vera herbergisfélagi sinn. Hún hefur reynslu af því og greinilega ekki mjög slæma. Ég er samt ekki alveg ákveðin í að fara þótt mig blóðlangi - mér finnst ekkert ægilega spennandi að vera á Rimini innan um þúsundir Íslendinga, en auðvitað er hægt að sleppa því að vera á börunum og sækja frekar í menninguna sem er hvar sem litið er eða fæti drepið niður á Ítalíu. Það kitlar mig líka að eiga von um að komast á strönd en mér finnst svolítið skítt að við yrðum bara í Feneyjum þennan eina dag. Færum þangað að morgni og snerum aftur um kvöldið. En mér er svo sem engin vorkunn þar sem ég hef komið þangað tvisvar sinnum áður. Svo er enn í ath. hvort betri helmingurinn gæti komið þegar kórferðinni lýkur og við lagt Ítalíu undir fót í viku eða tíu daga - það yrði frábært. Við sjáum til með það.

Í dag hófst ég svo handa að elda saltkjöt og baunir og slökkti undir pottunum þegar við þurftum að fara í kraftgönguna svo krásirnar voru tilbúnar þegar við komum heim aftur - þurftum bara að hita það aðeins upp og sjóða kartöflurnar. Og mikið rosalega var þetta gott! Ég er svo búin að sitja með vatnsglas við hendina í allt kvöld alveg hræðilega þyrst en það var vel þess virði! Annars þurfti ég að setjast við þegar heim var komið og klára myndina sem ég var að þýða. Það tók nú ekki nema rétt um klukkutíma, ég átti svo lítið eftir, og nú er ég búin að senda hana frá mér. Þetta var bara nokkur góð mynd, A Touch of Pink, sem fjallar um múslimskan homma, kvikmyndatökumann sem vinnur í London og býr þar með elskhuga sínum og fjölskyldu hans,
þ. e. hommans, en hún býr öll í Toronto. Annars fannst mér múslimsku konurnar vera gerðar svo óttalega einfaldar stereótýpur - það þarf enginn að segja mér að múslimakonur hugsi bara um skartgripi, fínheit og að gifta börnin sín. Það er gaman að fá endrum og eins að fást við skemmtileg verkefni en svo tekur eitthvað nýtt við á morgun.

Mikið svakalega fer í taugarnar á mér að dagsetningin á blogginu er alltaf á ensku. Ég verð að finna út hvernig ég breyti því. Og nú er ég farin að rausa eins og ég hét víst að gera ekki!

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

 

Kraftganga

Áramótaheit okkar hjónakornanna var að reyna að þjálfa okkur aðeins upp, okkur fannst við vera að verða eins og gamalmenni og það er nú ekki gott til afspurnar. Til að gera eitthvað í málinu fórum við að stunda kraftgöngu í Öskuhlíðinni með alveg dásamlegum leiðbeinendum. Í fyrstu tímunum vorum við auðvitað móð og másandi og svitinn rann ekki bara af okkur í taumum heldur lækjum. En núna, eftir sex skipti, erum við bara öll að færast í aukana held ég, þótt ekki sjáist þess mikil merki á vigtinni - en góð vinkona mín sagði mér í dag að það tæki þrjá mánuði að fara að sjá árangur. Ég hef það til marks um árangur að við förum alltaf upp sömu brekkuna í lok göngunnar og hún er ekki nærri því eins erfið núna og hún var fyrst. Sem sagt, þetta er alveg frábær hreyfing og góð útivera. Við byrjum alltaf inni í Perlunni og hitum upp, síðan er farið út og arkað um Öskjuhlíðina í um það bil hálftíma og síðan eru gerðar teygjuæfingar í Perlunni í lokin. Það var svolítið skondið í síðustu viku að það var einhver fín móttaka á jarðhæðinni þar svo við þurftum að hita upp og teygja niðri í kjallaranum og urðum síðan að skjóta okkur, kófsveitt og eldrauð í framan, í gegnum allt fína fólkið í móttökunni. Okkur dauðlangaði að vita hvert tilefnið var en tókum ekki sénsinn að vera talin boðsgestir svo við flýttum okkur út! Núna erum við sem sagt nýkomin úr kraftgöngunni og ég er búin að fara í sturtu og komin í náttfötin - og búin að steikja kjötbollur í tilefni dagsins og meira að segja borða þær líka. Ég hef ekkert æft mig fyrir söngtímann á morgun, verð að muna að fara nokkrum sinnum yfir fyrsta kaflann í Vittoria, mio core eins og mér var sett fyrir - ég hef morgundaginn til þess. Reyni að vakna skikkanlega í fyrramálið og vinna eins og manneskja fram að hádegi.

sunnudagur, febrúar 06, 2005

 

Fyrsta bloggið

Í dag tók ég ákvörðun um dálítið sem ég hef lengi verið að hugleiða, sem sagt að byrja að blogga. Undanfarna mánuði hef ég skoðað ótalmargar bloggsíður, sumar mjög athyglisverðar, þar er fjallað málefnalega um það sem er efst á baugi og margt skemmtilegt þar að finna. En það sem ég er svolítið hissa á er hversu margir nota bloggið bara til að skammast út í allt og alla, það er eins og sumir líti aldrei glaðan dag og burðist með allan heiminn á herðunum. Ég heiti því þess vegna að dreifa aðeins birtu og gleði á síðunni minni, en svo dett ég kannski ofan í sama ruglið og hinir og byrja að rífast og skammast. Annars kann ég ekkert á þessi ósköp og er ekki einu sinni viss um að koma þessu skammlaust frá mér - ætli ég verði ekki að hringja í yngri soninn til að fá leiðbeiningar!

Þessi dagur hefur svo sem verið ágætur, ég steinsvaf til klukkan hálfellefu þegar bóndinn ræsti mig og síðan var farið í Sundlaug Seltjarnarness eins og er fastur liður á sunnudagsmorgnum. Þegar heim var komið tók ég mig til og bakaði helling af vatnsdeigsbollum svo nú ætti að vera nóg til af bollum fyrir morgundaginn - en af gamalli reynslu býst ég við að þurfa að baka smáskammt í viðbót á morgun, það er svo merkilegt hvað þessar krásir eru fljótar að hverfa en það er auðvitað álfinum í kæliskápnum að kenna. Hann á það til að borða það sem stungið er inn í skápinn til geymslu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?