mánudagur, júlí 28, 2008

 

Kýrskýr eða þannig

Ég er að lesa bók sem kom út fyrir jólin eftir íslenskan spennusagnahöfund og fékk, að mig minnir, alveg ljómandi góða dóma. Ég hef reyndar lesið aðra eftir sama höfund sem líka fékk frábæra dóma en er alls ekki á sama máli og gagnrýnendurnir. Mér finnst höfundurinn hreint ekkert góður penni og núna rek ég mig á að hann þekkir ekki merkingu sumra orða sem hann notar, margendurtekur til dæmis að einhver sé kýrskýr ef viðkomandi er með á nótunum eða fylgist vel með. Ég er uppalin í sveit þar sem bæði var sauðfjár- og nautgripabúskapur og við vorum alveg meðvituð um hvað átt var við ef einhver var talinn kýrskýr eða sauðgreindur. Það gátu varla talist meðmæli. Viðkomandi höfundur hefur því trúlega ekki haft nein kynni af fyrrgreindum húsdýrum.

Annað var það ekki núna.
Hafið það gott í sumarblíðunni.

föstudagur, júlí 25, 2008

 

Rauðu skórnir

Eftir langt rolukast er ég loksins að komast á rétt ról á ný og hélt upp á það með því að fara í morgun og kaupa mér fallega, rauða skó sem ég hafði haft augastað á um tíma. Það spillti ekki fyrir að skórnir voru komnir á útsölu svo eiginlega stórgræddi ég á kaupunum. Rauða skó hef ég ekki átt síðan ég var sjö ára gömul, en þeim rauðu skóm gleymi ég áreiðanlega aldrei.
Þannig er mál með vexti að það hlýtur að hafa verið fyrir jólin 1952 að mamma fór með mig út á Akranes að kaupa skó og efni í jólakjól á heimasætuna, allavega held ég að það hafi átt að kaupa bæði skó og kjólefni. Skemmst er frá því að segja að í KSB (Kaupfélagi Suður-Borgfirðinga) á Skaganum sá ég þessa líka yndislegu rauðu lakkskó með bandi um ökklann. Þeir voru eitthvað það fallegasta sem ég hafði séð og það hlaut að vera unaðslegt að eignast slíka skó. Svartir skór eða brúnir urðu einhvern veginn svo litlausir og hversdagslegir í samanburði við þessa stórkostlegu, rauðu skó. Og þær lyktir urðu á málinu að ég fékk rauðu, fallegu skóna og varð svo óstjórnlega glöð að ég komst hreinlega á eitthvert æðra tilverustig, óþekkt og hamagangur sem yfirleitt var nóg af gufaði bara samstundis upp, stúlka sem átti svona rauða skó gat ekki annað en verið þæg og góð. En eitthvað hafa rauðu skórnir verið dýrari en gert hafði verið ráð fyrir og það hlaut því að koma niður á kjólefninu. Mamma saumaði á mig jólakjól sem ég man lítið eftir en mig minnir að hafi verið rauðrósóttur en efnið var léreft - eða sirs eins og ég held að það hafi verið kallað. Ég sá ekkert athugavert við hann og hvaða máli skipti svo sem einhver kjóll þegar ég var komin í rauðu skóna?
En eftir jólatrésskemmtunina í sveitinni heyrði ég svilkonu mömmu segja við hana að einhverjar konur hefðu "verið alveg hissa á Þórhildi að hafa Siggu í þessum ómerkilega sirskjól" á jólunum. Ég hugleiddi það svo sem ekkert meira en einhvern veginn hefur þetta setið í mér alla tíð síðan og mér er nokk sama þótt þessum konum, sem ég reyndar veit ekki hverjar voru, hafi ekki litist nógu vel á kjólinn minn. Þær hafa sko ekki litið á skóna mína, þá hefðu þær örugglega fallið í stafi yfir fótabúnaðinum! Takk, mamma mín, fyrir að leyfa stelpunni þinni frekar að fá rauðu jólaskóna en einhverja hversdagslega skó, þótt kjóllinn hefði þá kannski verið úr ögn fínna efni!

föstudagur, júlí 04, 2008

 

Sumar og sól

Það er hreint ekki einleikið hvernig veðrið leikur við okkur hjónakornin. Merkilegt nokk fengum við sól upp á hvern einasta dag á Héraði, það var reyndar loftkuldi og mikill snjór enn í fjöllum en við gátum ekki búist við betra veðri. Og við þurftum auðvitað að byrja á að koma húsinu í lag enda fyrstu dvalargestirnir eftir veturinn. Það tókst á endanum eftir að ég hafði hringt í einn frændann til að spyrja um vatnsinntakið í húsið og fengið þær upplýsingar að það væri í norðausturhorninu! Það er sem sagt hornið sem snýr að kirkjunni. Og þegar vatnið var komið á kom svo flóð, leiðsla var í sundur á bak við sturtuklefann, en á mánudaginn þegar búið var að fjárfesta í stjörnuskrúfjárni kom eiginmaðurinn því í lag svo hægt var að komast í sturtu. Reyndar fórum við mjög oft í sundlaugina á Egilsstöðum. Svo kom auðvitað múgur og margmenni og þegar mest var voru 11 manns í heimili og mikið talað og þrasað og hlegið svo mikið að það endist næstu vikurnar. Og ég hef fengið á hreint að staðurinn heitir Hjaltastaður. Það ku vera málvenja að þar sem er kirkja þar er "staður", þar sem ekki er kirkja eru "staðir". Sem sagt, við vorum á Hjaltastað, ekki Hjaltastöðum.
Og nú er spáð rjómablíðu um allt land yfir helgina og þá er einmitt sumargleði Rauðholtskynsins í Fannahlíð. Ég veit ekki alveg hverjir mæta, vonandi bara sem flestir. Gúllassúpan sem ég býð upp á í hádeginu á sunnudaginn er tekin að malla frammi í eldhúsi.
En þegar þessari helgi er lokið verður ekki frekara rall á mér, það veitir ekki af að vinna eins og berserkur fram í september þegar ég fer til Sardiníu. Við Ella vinkona erum sem sagt búnar að bóka okkur til London 10. sept. og heim 23. sept. Þann 13. - 21. verðum við svo með Vallý á Sardiníu. Það verður ekki leiðinlegt.

En að dapurlegri hlutum: Mér finnst ótrúleg skömm að því að Paul Ramses skyldi vera vísað úr landi án þess að fjallað væri um mál hans. Verði hann sendur aftur til Kenía er það sama og dauðadómur og þá hafa Íslendingar enn eitt mannslífið á samviskunni. Ef eitthvað er hefur ástandið versnað frá því að ég var þar 1991 og var það þó slæmt þá. Síðasta sólarhringinn þurftum við vinkonurnar tvær sem eftir voru að halda okkur inni á hótelinu þar sem búist var við að óeirðir brytust út á hverri stundu. Það gerðist þó ekki fyrr en við vorum komnar heim til Íslands. Ári seinna var BPW konan Beth Mugo, sem við kynntumst í Kenía, fangelsuð fyrir það eitt að bjóða sig fram í frjálsum kosningum gegn þáverandi forseta. Hún var reyndar látin laus eftir fáeina daga þar sem mótmælum rigndi yfir stjórnvöld, m.a. frá undirritaðri.

Þá er það ekki fleira. Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?