mánudagur, júlí 28, 2008

 

Kýrskýr eða þannig

Ég er að lesa bók sem kom út fyrir jólin eftir íslenskan spennusagnahöfund og fékk, að mig minnir, alveg ljómandi góða dóma. Ég hef reyndar lesið aðra eftir sama höfund sem líka fékk frábæra dóma en er alls ekki á sama máli og gagnrýnendurnir. Mér finnst höfundurinn hreint ekkert góður penni og núna rek ég mig á að hann þekkir ekki merkingu sumra orða sem hann notar, margendurtekur til dæmis að einhver sé kýrskýr ef viðkomandi er með á nótunum eða fylgist vel með. Ég er uppalin í sveit þar sem bæði var sauðfjár- og nautgripabúskapur og við vorum alveg meðvituð um hvað átt var við ef einhver var talinn kýrskýr eða sauðgreindur. Það gátu varla talist meðmæli. Viðkomandi höfundur hefur því trúlega ekki haft nein kynni af fyrrgreindum húsdýrum.

Annað var það ekki núna.
Hafið það gott í sumarblíðunni.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?