fimmtudagur, febrúar 26, 2009

 

Ofneysla?

Það er spurning hvort ég hafi neytt of mikillar menningar undanfarna daga.
1. Laugardagurinn 21. feb. Óperuperlur í Íslensku óperunni.
2. Sunnudaginn 22. feb. Íslenski dansflokkurinn í Borgarleikhúsinu.
3. Miðvikudaginn 25. feb. Milljarðamærin snýr aftur í Borgarleikhúsinu.
Svo fer ég örugglega ekkert næstu vikurnar, klára þetta bara í snarheitum á fimm dögum.

Og eftir að hafa séð viðtalið við seðlabankastjóra í Kastljósi (horfði á það á Netinu daginn eftir) finnst mér undarlegt ef allir sjá ekki að maðurinn er með mikilmennskubrjálæði á hæsta stigi og þyrfti að fara umsvifalaust í geðrannsókn. Ég óttast satt að segja viðbrögð hans þegar hann neyðist til að yfirgefa bankann sinn eins og hann orðaði það í viðtalinu.

sunnudagur, febrúar 22, 2009

 

Nei, ekkert skammdegisþunglyndi

Það er býsna langt síðan ég skellti einhverju hérna inn síðast og ef einhver hafa óttast að það sé vegna þess að ég hafi lagst í skammdegisþunglyndi er það alrangt. Ástæðan er einfaldlega sú að ekkert merkilegt hefur gerst í lífi mínu síðan síðast. En daginn er farið að lengja verulega og algerlega ástæðulaust að láta þunglyndi fara illa með sálina. Reyndar verður þessi helgi ansi viðburðarík, en svo gerist áreiðanlega ekkert næstu vikurnar. Í gærkvöldi var fögnuður hjá kórnum, við hittumst í Domus Vox í drykki og snakk og síðan var farið á Óperuperlurnar sem voru auðvitað alger snilld. Og eftir sýningu litum við aðeins inn á Næsta bar, en ég var komin heim nokkurn veginn allsgáð um ellefuleytið.
Í kvöld erum við Ella svo að fara á sýningu Íslenska dansflokksins og ég er alveg viss um að það verður bráðskemmtilegt að vanda.
Passið svo endilega að borða ekki yfir ykkur af bollum svo þið getið kýlt ykkur út á saltkjöti og baunum á þriðjudaginn.
Sæl að sinni.

þriðjudagur, febrúar 10, 2009

 

Frosti Noël

Litli prinsinn heitir Frosti Noël. Hann fékk nafn við fallega og látlausa athöfn á laugardaginn. Ég öfunda hann svolítið því hann á helling af öfum, ömmum, langöfum og langömmum, en ég kynntist því aldrei að eiga afa eða ömmu, þau voru öll löngu dáin þegar ég fæddist. Ég veit ekki hvort nafnið er dregið af því að það hefur verið ansi kalt frá því að hann fæddist en fallegt er það engu að síður. Annars gengur lífið bara sinn vanagang hérna á Tjarnarbóli og er það vel. Það er þá ekkert að angra mann.
Og nú legg ég til að aðalbankastjóri Seðlabankans verði borinn út úr bankanum og farið rakleitt með hann í geðrannsókn.
Lifið heil og látið ykkur líða vel með kertaljós og kakó.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?