laugardagur, mars 31, 2007

 

Þvítþvegin

Ég hef víst ekki alltaf fetað hinn mjóa veg dyggðarinnar að undanförnu og því gekk ég tvisvar til altaris í dag svona til vonar og vara.

Aðrar fréttir eru þær að við hjónin erum að fara í leikhúsið á Akureyri á laugardagskvöldið eftir viku. Sýningin klukkan sjö var uppseld þegar ég loksins kom mér að því að panta miða en búið að setja upp aðra sýningu klukkan hálftíu sem við festum okkur miða á. Svo nú er spurningin hvort yngri sonurinn gefi okkur að borða áður en við förum eða, þar sem ég var búin að blogga um að við myndum borða í bænum eftir sýningu, hann hermi upp á okkur að hafa ætlað á veitingahús og vísi okkur út. Annars er aldrei að vita nema það náist við hann samningar þegar við hittumst. Hins vegar er núna grísabógur að steikjast í ofninum hér á Tjarnarbóli og von á eldri syninum með fjölskylduna í mat á eftir.

Annars er ég viss um að nú er vorið að koma því vordemóninn er byrjaður að kitla mig. Ég er farin að hlakka til Danmerkurferðar í júni, við stöllurnar erum búnar að festa okkur bústað á Norður Sjálandi, rétt hjá Frederiksværk, vikuna 9. til 16. júní. Ég fékk leigusaminginn undirritaðan af hr. Nielsen í pósti í gær og búin að borga helming leigunnar. Við Ella erum svo bókaðar í flug til Köben 8. júni. Ég meira að segja gat notað vildarpunktana og slepp því billega. Vallý kemur með lestinni eftir vinnu föstudaginn 8. júní og við þeysum allar þrjár saman í bústaðinn daginn eftir. Það verður áreiðanlega mikið spilað, mikið farið um og mikið hlegið þessa viku og kannski aðeins sopið á rauðvíni.

Það er óvíst að ég bloggi meira fyrr en eftir páska og því óska ég öllum vinum og velunnurum nær og fjær ánægjulegrar páskahátíðar og vona að þið eigið ljúfar stundir í vændum.

þriðjudagur, mars 27, 2007

 

Um ristilhreinsanir og fleira

Á sunnudaginn fór ég á Carmina Burana í Langholtskirkju - það var dásamleg stund. Okkur vinkonunum kom saman um að þetta væri sálarbætandi og gerði miklu meira gagn en að fara í ristilhreinsun til Póllands. Sem ég reyndar skil ekki að nokkur fari í af fúsum og frjálsum vilja.
Og nú er loksins ákveðið að við ætlum að verja páskahátíðinni hjá yngri syninum og fjölskyldu á Akureyri. Mig dreplangar að fara í leikhúsið þar og sjá Lífið notkunarreglur í leiðinni, ég sé að það er sýning á laugardagskvöldið sem við gætum farið á. Verst að hún er á hundleiðinlegum tíma, klukkan sjö, svo annað hvort yrðum við að borða fyrir allar aldir, eða rölta niður í bæ að sýningu lokinni og fá okkur snæðing. Sem er jú auðvitað ekki vitlaus hugmynd. Ég með mína skavanka þyrfti helst að borða kvöldverð á sama tíma alla daga árið um kring, en þetta gæti nú samt verið allt í lagi. Ræði þetta við eiginmanninn þegar hann kemur heim á aftir.
Í kvöld verður löng kóræfing vegna styrktartónleikanna á morgun, ég verð sennilega ekki komin heim fyrr en klukkan að ganga tíu - þá verður kvöldmaturinn snæddur býsna seint. Vona bara að tónleikarnir á morgun heppnist vel og fái góða aðsókn því þetta er fyrir gott málefni. Ljósið, sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinssjúka og aðstandendur þeirra fær allan ágóðann. Meðal þeirra sem koma fram eru Diddú og Stebbi Hilmars svo þetta verður ansi hreint fjölbreytt efnisval.

Að endingu vil ég bara segja að mér fannst þjóðsöngurinn hjá Spaugstofunni á laugardaginn hreint dásamlegur.

"Við erum eitt smáblóm með titrandi tár
sem tilbiður Alcan og deyr."

Hvenær hafa sannari orð verið töluð? Vonandi ber Hafnfirðingum gæfa til að kjósa gegn stækkun álversins á laugardaginn. Mér finnst ranglátt að allir íbúar suðvesturhornsins fái ekki að kjósa, en þess ber að gæta að á pappírunum er verið að kjósa um deiliskipulag í Hafnarfirði.
Lifi Sól í Straumi!

mánudagur, mars 12, 2007

 

Ég skil ekki fólk...

1. ...sem getur verið harðákveðið í því hvaða flokk það kýs í vor.
2. ...sem horfir alltaf á Silfur Egils og finnst það frábært.
3. ...sem situr með fjarstýringuna við sjónvarpið og skiptir í sífellu á milli stöðva.
4. ...sem les aldrei bók.
5. ...sem er gersneytt sjálfsgagnrýni.
6. ...sem fer aldrei í sund þrátt fyrir allar dásamlegu sundlaugarnar hérna.
7. ...sem gleypir gagnrýnislaust allt sem því er sagt.
8 ...sem hlustar á útvarp Sögu.
9. ...sem hefur ekki gaman af söng og tónlist.
10. ...sem finnst ekki best að búa á Íslandi þrátt fyrir allt.

miðvikudagur, mars 07, 2007

 

Aumingjagæska

Finnst engum nema mér eðlilegt að maður sem ræðst á annan mann með hafnaboltakylfu og skilur hann eftir í blóði sínu sé dæmdur í fangelsisvist með hámarks öryggisgæslu? Auðvitað er eðlilegt að foreldra taki sárt að sjá á eftir barninu sínu í 20 ára fangelsi , en verða ekki allir að taka afleiðingum gerða sinna? "Erfitt að vita hann lokaðan inni með morðingjum og ofbeldismönnum," sagði faðirinn, en hvað var afbrotið annað en ofbeldisverk og morðtilraun? Ekki var það piltinum að þakka að fórnarlambið skyldi ekki deyja. En, jú, reyndar var þetta fyrsta brot svo kannski hefði dómurinn átt að vera mildari. hvað veit ég?
En líklega er ég bara svona vond manneskja.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?