miðvikudagur, október 31, 2007

 

Tíu litlir negrastrákar

Álit mitt á útgáfu þessarar bókar er nákvæmlega það sama og á birtingu Múhameðsmyndanna í Jyllandsposten á sínum tíma. Auðvitað er útgáfan hvergi bönnuð með lögum og ástæðulaust að efna til bókabrennu en hún þjónar nákvæmlega engum tilgangi - nema kannski að særa.

fimmtudagur, október 25, 2007

 

Hopp og hí og tralala

Það er víst alveg ljóst að það verður lítið lát á önnum okkar hér á Tjarnarbóli og hreint öruggt að fyrri hluti næsta árs verður ekki sérlega leiðinlegur. Einkar spennandi hlutir eru í vændum þótt ég segi ekki frá þeim alveg strax, en þeim fylgja annir og stúss og mikill söngur ásamt ferðalögum innanlands sem utan. En áður en allt það stúss tekur við ætlum við að bregða okkur til Tenerife í janúar til að stytta skammdegið aðeins og erum þegar búin að ganga frá ferðinni.
Mér skilst að fólk sé yfirleitt afskapalega ánægt með Tenerife svo það verður ekki leiðinlegt.
Og um helgina er ég að fara með BPW vinkonunum í haustferð austur í Ölfus. Við byrjum á Heilsuhæli NFLÍ í dekri og afslöppun og förum svo í bústaði skammt frá Hveragerði þar sem einhver dularfullur kokkur ætlar að elda handa okkur kvöldverð og síðan skemmtum við okkur við söng og gítarleik fram eftir kvöldi - eða jafnvel nóttu. Og ég ætla meira að segja að sleppa því að mæta "í beina" hjá Hemma Gunn á Bylgjunni á sunnudaginn til að geta skemmt mér án samviskubits. Magga vildi fá "þessar gömlu" og einhverjar ungar með sér í þáttinn til að plögga tónleikana okkar. Hausttónleikar Gospelsystra verða nefnilega á þriðjudagskvöldið - þeir verða bráðskemmtilegir og vonandi vel sóttir. Eftir tónleikana höldum við svo upp á tíu ára afmæli kórsins á Borginni.
Ég hvet alla sem lesa þetta að mæta í Fríkirkjuna í Reykjavík á þriðjudagskvöldið. Eitthvað af miðum er eftir og verða seldir við innganginn á kr. 1.500.

mánudagur, október 15, 2007

 

Annir og partí

Þrátt fyrir gífurlegt annríki okkar hjónanna tókum við okkur frí á föstudagskvöldið og brugðum okkur í partí, þ.e. hið árlega haustgrill Hjaltastaðafélagsins. Við Inda frænka erum auðvitað nýjar í því ágæta húsfélagi og það var ekki hægt annað en að bregða sér á samkomuna og hitta fyrir aðra félaga. Við hjónakornin sóttum frænku og síðan var brunað suður í Kópavog þar sem samkvæmið var haldið. Ekki þarf að orðlengja að þetta var frábært kvöld, ljúffeng lambalæri með fínu meðlæti og á eftir kaffi og súkkulaði, Og félagsskapurinn var auðvitað það besta, bráðskemmtilegur og mikið hlegið og fíflast. Það verður örugglega ekki vandamál að vera í húsfélagi með svona góðu fólki, mér sýndist það ekki mjög smámunasamt. Eitt af því sem stungið var upp á í partíinu var að hóa saman Kanadaförunum með skylduliði og þess vegna fleirum og halda smáskrall. Og þar sem það er í tísku að halda októberfest ákváðum við að halda frekar nóvemberfest og auðvitað var undirbúningnum skellt á okkur Indu svo við verðum víst að fara að huga að einhverju skipulagi, reyndar ætlar Inghildur að sjá um myndagræjur svo hægt sé að vera með myndir á diskum til að sýna á skjá. En við sjáum nú til hvað verður úr þessu, það er alltaf svo auðvelt að ákveða, meira vesen að framkvæma.
Nú veitir víst ekki af að vera dugleg að vinna fram í tímann fyrst ég er að fara til Köben á aðventunni, við ætlum nefnilega að vera með aðventutónleika þar. Ég er meira að segja búin að kaupa miða í óperuna og fá þá senda. Ætla að sjá Don Carlos í nýju, fínu óperunni þeirra Kaupmannahafnarbúa. Jón er víst líka að fara til Köben um miðjan nóv. vegna myndarinnar um Jónas svo við förum bæði þangað tvisvar þetta árið en ekki þó saman.
Og svo erum við að spá í að komast saman í frí í janúar, helst að fara í sól og liggja þar með tærnar upp í loftið í viku eða tíu daga.
Nánar um það síðar.

fimmtudagur, október 11, 2007

 

Friðarsúla og fallin borgarstjóri

Yoko færði oss friðarsúlu,
frið skal boða á jarðarkúlu,
en í borginni er barist víða,
bitur höggin lengi svíða.

Vilhjálmur væni er fallinn,
vesalings aumingja kallinn.
Spillingar datt hann í dallinn
svo drullugur varð á honum skallinn.

laugardagur, október 06, 2007

 

Bakarí, orðrómar og tómleikatilfining

Í vikunni áttum við hjón leið um Kópavog og sem við vorum að aka einhverja götu þar hringdi gemsi eiginmannsins og þar sem hann er ekki með handfrjálsan búnað renndi hann inn í bílastæði fyrir framan bakarí eitt til að geta talað í símann. Ég sá um leið mikinn fjölda girnilegra brauða inn um gluggann og stökk út úr bílnum til að ná í ilmandi, nýbakað brauð. Ég hafði aldrei áður komið í þetta bakarí og þarna var úrval af brauðum og ég var ekki alveg viss um hvað ég ætti að velja. Sá mjög aðlaðandi graskersbrauð og spurði afgreiðslustúlkuna hvort það væru í því graskersfræ - það hefði líka getað verið niðurrifið grasker sbr. gulræturnar í gulrótarköku - en þá versnaði í því. Veslings stúlkan skildi ekki íslensku nógu vel. Auðvitað brá ég þá fyrir mig enskunni (Íslendingar halda að allir tali ensku) og spurði hvort það væri "pumpkinseed in the pumkinbread." En stúlkan skildi heldur ekki ensku og hljóp á bak við og náði í svuntuklæddan karlmann, líklega bakarann sjálfan, og hann gat svarað mér að það væru vissulega graskersfræ í brauðinu. Brauðið keypti ég síðan, brosti til stúlkunnar og sagði hátt og skýrt "takk fyrir" þegar ég kvaddi. Og bragðið samsvaraði útlitinu, brauðið var rosalega gott og það sem kom mest á óvart var verðið, stórt og mikið brauð á 190 krónur! Það sem ég vildi sagt hafa var að hefði nú bakarinn ekki verið við býst ég við að ég hefði bara bent á brauðið og keypt það. Eftir á datt mér í hug að það myndi auðvelda afgreiðslufólkinu ef það lægi frammi listi á afgreiðsluborðinu yfir innihald brauðanna svo sem vegna þeirra sem eru með ofnæmi, t.d. fyrir hnetum, eða fólk sem vill forðast sykurneyslu.

Og gott ef það var ekki þetta sama kvöld sem við sátum fyrir framan sjónvarpið þegar á einhverri stöðinni hófst þáttur sem heitir því þjóðlega nafni "Game TV". Líklega er allt of hallærislegt að kalla svona þátt einfaldlega Tölvuleiki eða Tölvuleikjaþáttinn. Þessum þætti stýra tveir drengir sem tala bæði hátt og hratt og hvor upp í annan - eða kannski er mitt gamla eyra orðið svona sljótt að geta ekki numið allan þennan hressleika á augabragði. En ég náði þó að annar talaði um að það væru uppi orðrómar um að eitthvað væri að fara að gerast - hvað það var er löngu horfið í gleymsku - og seinna varð öðrum að orði að margir fylltust tómleikatilfinninu við eittthvað, líklega þegar tilteknum leik væri lokið. Ég fæ alltaf gæsahúð þegar orðið tilfinning er hengt aftan í gott og gilt íslenskt orð eins og í þessu tilfelli tómleika. Svo talar fólk um öryggistilfinningu og gott ef ég heyrði ekki einhvern tíma orðið sorgartilfinning.
Hvernig er eiginlega móðurmálskennslu háttað í skólum núna? Eða kennslu í bókmenntum? Ég held að besta íslenskukennslan sem hægt sé að fá sé að lesa góðar bókmenntir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?