mánudagur, júní 27, 2005

 

Mikið lifandis ósköp!

Mikið lifandis ósköp hlýtur Eiríkur Jónsson að þekkja leiðinlegt og ómerkilegt fólk ef aðalumræðuefnið á vinafundum og fjölskyldusamkomum eins og fermingarveislum eru kjaftasögur um náungann. Aumingja maðurinn á bara alveg hræðilega bágt. Ég var að hlusta á hann í Kastjósinu og er í sannleika sagt ekki viss um að hann sé alveg með öllum mjalla. Ég verð að minnsta kosti að játa þegar hann var að vísa í hið fornkveðna að fegurðin sé í auga sjáandans og vitnaði í fyrirsagnirnar sem hafa verið á forsíðu Hér og nú að undanförnu að ég sé ekki fegurð í þeim, aðeins illgirni og ljótleika. Held þess vegna að mat Eiríks á fegurð hljóti að vera hræðilega brenglað og sömuleiðis kímnigáfa hans fyrst fyrirsögnin Bubbi fallinn átti að vera fyndin. Og svo er alltaf spurning hvað manni komi einkalíf annarra við. Og varðandi þetta með að Bubbi átti að hafa fjármagnað laxveiðarnar með því að hætta að reykja held ég að hann sé alveg nógu efnaður til að veiða lax þótt hann hafi byrjað að reykja aftur. Allavega er það ekki Eiríkur Jónsson sem borgar laxveiðarnar hans! En ekki meira um þetta, ég segi bara: Áfram Bubbi, stattu þig!

Annars var ég geysilega upptekin á kirkjudögum um helgina. Kórinn við opnunarhátíðina vakti mikla athygli og lukku. Mér skilst að það eigi að vera framhald á þessu samstarfi og ég verð að segja að þar sem ég syng í tveimur kvennakórum fannst mér rosalega gaman að syngja í svona blönduðum kór. Málstofa Kvennakirkjunnar á laugardaginn tókst mætavel og það var gaman að vera í básnum okkar, ég held að við höfum fengið heilmikla jákvæða athygli. Merkilegt samt að sjá viðbrögð sumra þegar minnst var á feminíska guðfræði. Og mér fannst svolítið sorglegt að heyra unga pilta halda þvi blákalt fram að það væri hlutleysi að ávarpa samkomur í karlkyni. Þeim fannst samt mjög óviðeigandi ef samkomur væru ávarpaðar í kvenkyni. En jafnvel þetta nægði ekki til að koma mér úr góða skapinu allan laugardaginn og ég bjó að því á sunnudaginn þegar við fórum suður í Selvog til að halda messu í Strandarkirkju. Það var yndislegt eins og alltaf og ekki spillti fyrir hvað veðrið var dásamlegt. Svo var þetta fyrsta ferð Litla kúts út fyrir malbikið og hann stóð sig með ágætum á Krísuvíkurleiðinni. Eða er það Krýsuvíkurleiðin? Finn ekki nafnið í orðabók en af hverju ætti ý-ið að vera komið? Ekki er þetta nein krús eða hvað? Svar óskast ef einhver veit hið rétta.

sunnudagur, júní 19, 2005

 

Áfram, stelpur!

Í dag er 19. júni og 90 ár síðan íslenskar konur fengu kosningarétt, þá var móðir mín 15 ára. Hún sagðist muna vel eftir fyrstu kosningunum eftir að kosningarétturinn fékkst og verið alveg hissa á að sumar konur vildu ekki nota hann. Vel að merkja voru það aðeins konur 40 ára og eldri sem nutu þessa réttar fyrstu fimm árin, það var ekki fyrr en 1920 sem konur fengu sama rétt og karlar. Þetta væri auðvitað alveg frábært ef árangurinn eftir 90 ár væri aðeins sjáanlegri. Baráttumálin í dag virðast mikið til þau sömu og fyrir 30 árum, þegar ég fór að taka þátt í kvennahreyfingunni, t.d. sömu laun fyrir sömu vinnu og fleiri konur í valdastöður. Fyrir 30 árum heyrðist líka krafan um jafnan rétt og jafna möguleika til menntunar, það virðist þó hafa unnist, a.m.k. eru stúlkur núna meirihluti nemenda við Háskóla Íslands svo kannski tekst þeim að breyta einhverju til batnaðar á sínum ferli. Við rákum líka áróður fyrir því að karlar tækju jafnan þátt í heimilisstörfum og barnauppeldi, þar hefur sem betur fer orðið mikil breyting á held ég. En ég verð samt að viðurkenna að ég er orðin ansi þreytt á baráttunni, nú er komið að næstu kynslóð að halda áfram. Þess vegna ætla ég að sleppa því að mæta á Þingvöll í dag en áfram stelpur! Alls ekki að gefast upp!

Hvernig er það annars, er ekki lenska að það sé rok og rigning 17. júní?
Manni varð bara um og ó í veðurblíðunni í fyrradag. Við hjónin tókum einn rúnt um miðbæinn upp úr hádeginu áður en mestu lætin hófust og ég þekkti mig varla. Alls staðar voru borð úti þar sem fólk sat léttklætt í sólinni við hvert einasta borð, allavega gátum við hvergi fundið sæti til að skella í okkur eins og einum kaffibolla eða ölglasi. Við fórum því bara heim og nutum dagsins á svölunum þar til komið var mál að undirbúa matarboðið, sem var svo sem ekkert mikið vesen. Lambahryggi skellt í ofninn ásamt stórum bökunarkartöflum og hrásalat rifið niður. Þegar allt hafði verið þar í eins og klukkutíma var löguð frábær sósa (m.a. með smáslummu af rúsínusinnepinu sem ég keypti hjá fröken Friis á Jótlandi). Svo var bara borðað og setið og spjallað. Brutum reyndar regluna um að ræða hvorki trúmál eða stjórnmál og ræddum hvort tveggja og síðan urðu allir sammála um að vera ósammála og skáluðu fyrir því. Þessu ágæta samsæti lauk svo einhvern tíma á 3. tímanum eftir miðnætti að ég held.

Ég veit ekki hvort það er sumarið og veðurblíðan en ég finn ekki neitt til að nöldra um núna.

fimmtudagur, júní 16, 2005

 

Ýmist allt eða ekkert og tíminn líður

Er það ekki alltaf þannig að margar uppákomur ber upp á sama daginn en þess á milli gerist fátt? Ég er boðin í fertugsafmæli á morgun, 17. júní, en er líka búin að bjóða í mat á sama tíma. Reyndar hélt ég að afmælið væri ekki fyrr en um næstu helgi og leit ekki nógu vel á boðskortið sem beið mín þegar ég kom heim úr Danaveldi - enda sjálft afmælið ekki fyrr en þá. Eins gott að þetta uppgötvaðist og ég mætti ekki uppdubbuð eftir viku! En svona er lífið. Og í dag er reyndar afmæli yngri sonar míns, hann er hvorki meira né minna en 34 ára. Úff. Maður verður víst að horfast í augu við að árin hlaðast á mann þegar yngri sonurinn nálgast óðum hálffertugt, sá eldri er fertugur og elsta barnabarnið 22 ára. Svei mér þá alla daga. Svo er ég hissa á að skrokkurinn á mér sé ekki eins og ég var tvítug!
En það er víst best að hafa ekki fleiri orð um þetta, fæst orð bera minnsta ábyrgð.

þriðjudagur, júní 14, 2005

 

Long time, no blog!

Það er orðið langt síðan ég hef látið ljós mitt skína og auðvitað er frá æði mörgu að segja. Þann 4. júní fórum við Ella sem sagt til Danmerkur, nánar tiltekið Jótlands, að heimsækja Vallý og höfðum það frábærlega skemmtilegt í heila viku. Við fórum vítt og breitt, þvers og kruss um norður- og austurhluta Jótlands og þótt ég hafi þrisvar áður komið út á Jótland hef ég aldrei séð eins mikið og núna. Á sunnudaginn fórum við á nokkra markaði, fyrst á markað þar sem fólk var að selja ýmislegt sem það annað hvort býr til eða var að losa úr geymslunni. Hann var reyndar ekkert sérlega merkilegur en gaman að sjá hann. Svo var farið á stóran innimarkað sem er svona blanda af antík- og flóamarkaði. Virkilega gaman að labba þar um og skoða. Það munaði engu að ég keypti 2 stk. Butlers Tray, virkilega fína og gamla, fyrir tvöþúsund danskar, en sá svo að ég kæmi þeim aldrei heim öðruvísi en að borga stórfé í flutningsgjald og toll svo það varð ekkert úr því. Á mánudaginn gerðum við úttekt á tískubúðunum í Silkiborg en gerðum ekki mikil innkaup, enda var ég ekkert í þeim hugleiðingum. Á leiðinni þangað fórum við reyndar fyrst í furðulega búð í gamalli hlöðu langt uppi í sveit, þar sem alls kyns föt voru á boðstólum á mjög góðu verði. Þar festi ég kaup á sumarjakka og hversdagsbuxum og voru það lengi vel einu fatakaupin mín. Þriðjudagurinn var svo tekinn í ferð norður til Skagen og það var sko skemmtilegt. Merkilegast fannst mér að koma á Skagen Odde þar sem Skagerak og Kattegat mætast. Undarlegt að sjá strauminn koma úr báðum áttum og öldurnar skella saman við tangann. Eins var skrýtið að sjá Den tilsandede kirke, sem er stór kirkja sem grafist hefur í sand þannig að aðeins turninn stendur upp úr. Á miðvikudaginn fórum við til Århus og litum þar á búðir og veitingahús og enduðum svo í litlum bæ þar rétt hjá og hlustuðum á tónleika hjá Skólakór Mosfellsbæjar þar sem Arnhildur mín blessunin var undirleikari. Fínir tónleikar en lélegur hljómburður í kirkjunni. Þá var kominn fimmtudagur og haldið til eyjunnar Mors á Limafirðinum að skoða stærsta blómagarð í Evrópu (Danir segja reyndar í heiminum) sem var stórskemmtilegur. Þar varð ég fyrir þeirri reynslu að fá í fyrsta sinn eldri borgara afslátt! Aðgöngumiðinn kostaði sem sagt kr. 100 en fyrir 60 ára og eldri bara kr. 80. Ég geymi aðgöngumiðann og ætla að kaupa ramma utan um hann! Á föstudaginn var Viborg heimsótt og gerð úttekt á verslunum þar - ég keypti samt ekki neitt. Þótt ég reyndi ítrekað fann ég hreinlega ekkert sem mig langaði í þrátt fyrir að margt æðislegt væri þarna að sjá og Ella mín dressaði sig glæsilega upp fyrir þingið í Lucern. Gott að ég ákvað að fara ekki þangað, annars hefði ég hreinlega lent í vandræðum með fatnað. Um kvöldið dressuðum við okkur upp (jú, ég tók með mér þokkalegt dress) og fórum út að borða á dásamlegan stað uppi í sveit. Hann heitir Knutshule og er eiginlega farfuglaheimlili og líka er hægt að leigja þar smáhýsi og svo er þessi frábæri veitingastaður sem við vorum að sjálfsögðu búnar að kanna áður, svona fínar dömur taka enga áhættu. Á laugardaginn var svo hlustað á jasstónleika á torginu í Silkiborg og markaðurinn sem þar er á laugardögum skoðaður. Þar keypti ég 2,5 kíló af nýjum kartöflum sem ég tók með mér heim. Þegar hljómsveitin fór í pásu stóðum við Vallý upp til að liðka okkur aðeins og haldið þið að ég hafi ekki dottið inn í búð með frábæran fatnað og keypt mér voða lekkeran sumarjakka eða blússu. Ég veit eiginlega ekki hvort heldur ég á að kalla flíkina, held samt að hún sé skyldari jakka. Eftir snemmbúinn kvöldverð hjá Vallý keyrði hún okkur svo aftur til Billund þaðan sem við flugum heim. Það var svo ákveðið að þetta yrði endurtekið að ári. Ég má til með að bæta því við að á kvöldin sátum við þrjár á náttfötunum og spiluðum póker og drukkum koníak. Hvað viljið þið hafa það betra?

En nú er þetta orðið nokkuð langt skrivelsi og ég hef hreinlega ekki neitt til að nöldra yfir eins og er og held að ég láti þetta nægja.

P.S. Ég sagði víst að bíllinn okkar ætti að heita Litla krílið en það er ekki rétt. Hann heitir Litli kútur!

föstudagur, júní 03, 2005

 

Sei sei jú, mikil ósköp!

Já, sei sei jú, mikil ósköp. Dagurinn hjá mér fór eiginlega í allt annað en hann var ætlaður í en samt sem áður tókst mér að gera allt sem ég ætlaði að gera, nema þurrka af og taka til - dálítið merkilegt, ekki satt? Kannski næ ég að gera það í fyrramálið en ef ekki þá bara skítt með það.
En sem sagt þá höfum við hjónakornin lengi verið að hugsa um að skipta um bíl, en í eina skiptið sem við sáum farartæki sem okkur leist vel á og á verði sem okkur leist líka vel á var það frátekið og slapp frá okkur. Í morgun lá leið okkar fyrir hreina tilviljun fram hjá bílasölu og í einhverju bríaríi stönsuðum við til að líta á hvað væri í boði og haldið þið ekki að draumabíllinn hafi staðið þarna og meira að segja á draumaverði. Nú, við litum inn og eftir smástund var bíllinn kominn niður fyrir draumaverðið sem á hann var sett í upphafi eða á sæludraumaverð. Svei mér ef ég held ekki að við séum það sem Kaninn kallar „impulse buyers“ en nú stendur þessi elska hérna á stæði íbúðar A-4 og ljómar og skín, enda prýðisvel bónaður. Leiki einhverjum forvitni á að vita hvers konar bíl er um að ræða er þetta Toyota RAV4. Nú verður sprett úr spori um landið í sumar. Við erum meira að segja búin að gefa gripnum nafn, Litla krílið heitir hann. Af þessu tilefni opnuðum við hvítvínsflösku (heimilisframleiðsluna) í kvöld og mér líður alveg ljómandi vel. Ég verð samt að játa að þegar ég vaknaði í morgun var mér margt annað ofar í huga en að festa kaup á bíl. Verst að ég verð ekki heima til að aka honum næstu vikuna. Það er nefnilega komið að því, á morgun fljúgum við Ella til Billund í heimsókn til Vallýar svo það verður ekkert blogg frá mér næstu vikuna. Ferðasagan verður sögð þegar ég kem aftur heim.
En auðvitað get ég ekki látið vera að nöldra svolítið. Mér finnst eins og fólk skilji ekki muninn á því að stöðva (eitthvað) og stansa. Það fer rosalega í taugarnar á mér að heyra sagt eða sjá skrifað: „Ég stöðvaði við verslanamiðstöðina“. Eða í sjónvarpstexta þegar löggan hleypur á eftir glæponinum og hrópar: „Stöðvaðu!“ Hvern fjandann á hann að stöðva og hvað stöðvaði maðurinn við verslanamiðstöðina? Það má vel vera að það sé ekkert endilega rangt að segja þetta en mín máltilfinning segir að maður stöðvi eitthvað, stöðvi til dæmis bílinn við verslanamiðstöðina og að löggan ætti frekar að hrópa: „Stans!“ eða „Stansaðu!“ á glæpamanninn. Ef einhver les þetta sem veit betur þá endilega látið mig vita.

P.S. Við stöðvuðum bílinn sem við vorum á við bílasöluna og litum inn. Eða kannski námum við staðar við hana. Ég held reyndar að við höfum bara stansað.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?