föstudagur, júní 03, 2005

 

Sei sei jú, mikil ósköp!

Já, sei sei jú, mikil ósköp. Dagurinn hjá mér fór eiginlega í allt annað en hann var ætlaður í en samt sem áður tókst mér að gera allt sem ég ætlaði að gera, nema þurrka af og taka til - dálítið merkilegt, ekki satt? Kannski næ ég að gera það í fyrramálið en ef ekki þá bara skítt með það.
En sem sagt þá höfum við hjónakornin lengi verið að hugsa um að skipta um bíl, en í eina skiptið sem við sáum farartæki sem okkur leist vel á og á verði sem okkur leist líka vel á var það frátekið og slapp frá okkur. Í morgun lá leið okkar fyrir hreina tilviljun fram hjá bílasölu og í einhverju bríaríi stönsuðum við til að líta á hvað væri í boði og haldið þið ekki að draumabíllinn hafi staðið þarna og meira að segja á draumaverði. Nú, við litum inn og eftir smástund var bíllinn kominn niður fyrir draumaverðið sem á hann var sett í upphafi eða á sæludraumaverð. Svei mér ef ég held ekki að við séum það sem Kaninn kallar „impulse buyers“ en nú stendur þessi elska hérna á stæði íbúðar A-4 og ljómar og skín, enda prýðisvel bónaður. Leiki einhverjum forvitni á að vita hvers konar bíl er um að ræða er þetta Toyota RAV4. Nú verður sprett úr spori um landið í sumar. Við erum meira að segja búin að gefa gripnum nafn, Litla krílið heitir hann. Af þessu tilefni opnuðum við hvítvínsflösku (heimilisframleiðsluna) í kvöld og mér líður alveg ljómandi vel. Ég verð samt að játa að þegar ég vaknaði í morgun var mér margt annað ofar í huga en að festa kaup á bíl. Verst að ég verð ekki heima til að aka honum næstu vikuna. Það er nefnilega komið að því, á morgun fljúgum við Ella til Billund í heimsókn til Vallýar svo það verður ekkert blogg frá mér næstu vikuna. Ferðasagan verður sögð þegar ég kem aftur heim.
En auðvitað get ég ekki látið vera að nöldra svolítið. Mér finnst eins og fólk skilji ekki muninn á því að stöðva (eitthvað) og stansa. Það fer rosalega í taugarnar á mér að heyra sagt eða sjá skrifað: „Ég stöðvaði við verslanamiðstöðina“. Eða í sjónvarpstexta þegar löggan hleypur á eftir glæponinum og hrópar: „Stöðvaðu!“ Hvern fjandann á hann að stöðva og hvað stöðvaði maðurinn við verslanamiðstöðina? Það má vel vera að það sé ekkert endilega rangt að segja þetta en mín máltilfinning segir að maður stöðvi eitthvað, stöðvi til dæmis bílinn við verslanamiðstöðina og að löggan ætti frekar að hrópa: „Stans!“ eða „Stansaðu!“ á glæpamanninn. Ef einhver les þetta sem veit betur þá endilega látið mig vita.

P.S. Við stöðvuðum bílinn sem við vorum á við bílasöluna og litum inn. Eða kannski námum við staðar við hana. Ég held reyndar að við höfum bara stansað.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?