fimmtudagur, september 28, 2006

 

Dapurleiki

Í dag er svartur dagur í Íslandssögunni, dapurlegt til þess að vita hvað verið er að gera fyrir austan. Og allt fyrir einhver 400 störf og svo þegar betra orkuverð býðst annars staðar lokar Alcoa bara búllunni og flytur sig. Mig langar að nefna sem dæmi að verkefnið Auður í krafti kvenna stóð í 3 ár og varð til þess að stofnað var 51 fyrirtæki og við það urðu til 217 ný störf. Í allt kostaði verkefnið 250 milljónir, en til samanburðar má geta að Kárahnjúkavirkjun mun kosta 250 milljarða og skapa 400 ný störf. Hefði ekki verið hægt að fara af stað með eitthvað slíkt verkefni fyrir austan? Það hefur verið sagt við mig að ég geti ekki haft skoðun á þessu máli þar sem ég hafi aldrei komið á þetta svæði. En ég hef séð myndir þaðan (ófótósjoppaðar)og það nægir mér. Ég sá heldur aldrei Búddalíkneskin sem Talíbanarnir brutu niður um árið, bara myndir af þeim, en samt fannst mér verið að fremja stórglæp. Það vakti líka alþjóðaeftirtekt þegar Aswan stíflan var reist á sínum tíma og þá tókst með mótmælum að bjarga ýmsum ómetanlegum fornminjum. Má ekki líka með sanni kalla hina ósnortnu náttúru Íslands ómetanlegar fornminjar? Ég bara spyr.

 

Að strauja orðabækur

Fljótlega eftir að ég byrjaði að starfa sem þýðandi festi ég kaup á ensk-íslensku orðabókinni sem var gefin út af Erni og Örlygi árið 1984. Ég fékk hana þá á fornsölu fyrir tiltölulega lítinn pening vegna þess að kápuna vantaði á hana, en auðvitað jaskaði ég henni út þannig að spjöldin duttu af henni og fljótlega voru komin hundseyru á síðurnar og hún farin að líta frekar druslulega út. Þá blöskraði eiginmanninum þetta og hann tók sig til og strauaði blaðsíðurnar sléttar. Ætli það séu ekki svona 7 eða 8 ár síðan og bókin hefur þjónað mér vel, en nú var farið að sækja í sama farið, ef ekki enn verra en áður en hún var sléttuð á sínum tíma. Og auðvitað blöskraði eiginmanninum þetta enn á ný, en nú tók hann sig til að keypti stífelsisúða í Hagkaupum (spray-stífelsi) og úðaði á hundseyrun og sléttaði mjög huggulega. Bókin er 1241 blaðsíða og þetta tók nokkra daga en nú liggur gripurinn hér á borðinu hjá mér, slétt og felld. Ef hann verður svo spurður hvað hann hafi gert skemmtilegt um síðustu helgi getur hann svarað: "Ég straujaði orðabókina."

sunnudagur, september 17, 2006

 

Þegar amma var ung

Ég var að horfa á Loftleiðaævintýrið - sögu Loftleiða - í sjónvarpinu og verð nú bara að segja að ég fylltist stolti yfir að hafa fengið um tíma að taka þátt í þessu. Ekki svo að skilja að það hafi beinlínis verið neitt afrek, ég vann þarna bara á uppgangstímum. En mér fannst ég bara alveg hryllilegur forngripur þegar þættinum var lokið. Og svo fór ferlega í taugarnar á mér að heyra þulinn tala um Loftleiði, það var sko enginn leiði hjá Loftleiðum í gamla daga og mér þykir undarlegt að enginn hafi tekið eftir þessu í vinnslunni. Orðið beygist leiðir um leiðir frá leiðum til leiða. Og þar hafið þið það.

föstudagur, september 15, 2006

 

Dagskrá laugardagsins

Í kvöld hringdi sonarsonurinn frá Akureyri og var þá staddur í Varmahlíð (hann hringdi sem sagt ekki frá Akureyri heldur á hann heima þar) og var á leiðinni í bæinn að keppa í siglingum. Hann vissi enn ekki hvar þeir myndu gista eða hvernig þetta mót yrði en ætlar að hringja í okkur þegar hann verður kominn í bæinn. Svo ég verð sem sagt að horfa á siglingakeppni á morgun. Kannski ég hringi í frændsystkini hans í fyrramálið og bjóði þeim að koma með að horfa á. Þau eru alltaf svo ánægð þegar þau hittast.
Góðar stundir og góða helgi.

miðvikudagur, september 13, 2006

 

Leti

Ég hef því miður rekið mig á þá staðreynd að ég er letingi. Eða kannski er bara svona djúp lægð yfir landinu - verður maður þá ekki linur eins og kökudeig? Núna ætti ég til dæmis að vera að gera eitthvað allt annað og það verður að segjast að ég hef ekki unnið mikið af viti í dag. Ja, reyndar vanni ég heilmikið fyrripartinn í dag, en var svo að frétta að það er búið að fresta útgáfunni og nú finnst mér ég hafa eytt þessum tíma til einskis, sem er auðvitað ekki rétt þar sem ég hef einfaldlega verið að vinna fram í tímann.
Þar hafið þið það.

mánudagur, september 11, 2006

 

Tíund

Í dag fór ég með eiginmanninum í heimsókn á skrifstofu Tollstjóra. Á meðan hann sinnti erindum sínum fór ég að blaða í tímariti sem gefið er út af embætti tollstjóra og heitir því skemmtilega nafni Tíund. En gamanið tók að kárna þegar ég fór að lesa grein um skattamál í Rúmeníu þar sem í greininni virtust flest öll nafnorð vera höfð í fleirtölu. Það þurfti sem sagt að gefa þóknanir upp til skatts samkvæmt ákveðnum reglum og rekstrartöp mátti færa á milli ára, en svo voru frádrættir háðir enn öðrum reglum. Það sem mér þótti samt undarlegast var að það var ekki talað um rekstrarhagnaði sem mér hefði þó fundist eðlilegt miðað við rekstrartöpin.
Hvað er eiginlega að fólki að setja svona nokkuð á prent? Ég bara spyr.

laugardagur, september 09, 2006

 

Consumer Therapy

Við hjónin skelltum okkur í neytendameðferð (Consumer Therapy) seinnipartinn í dag, en það er annað og fínna orð yfir búðarráp og peningaeyðslu. Allt vegna þess að mig vantar góða, svarta götuskó fyrir veturinn. Byrjuðum á einhverjum skómarkaði í Perlunni þar sem ég fann ekki neitt. Þar næst var farið í Kringluna - fann heldur ekki neina svarta skó þar en sá fullt af flottum, brúnum spariskóm með hæl. Þar af leiðandi eyddi ég engum peningum í Kringlunni en eiginmaðurinn keypti tvær DVD myndir. Næsti viðkomustaður var Kolaportið og auðvitað fann ég enga svarta skó þar, en viti menn, haldið þið að ég hafi ekki rekist á vel með farið eintak af Draumalandinu eftir Andra Snæ og fengið það á þúsundkall. Og bóndinn fjárfesti sömuleiðis í tveimur bókum, Norskum ævintýrum og Þjóðsögum frá Eistlandi. Í stað þess að halda áfram að vinna þegar ég kom heim fleygði ég mér í hægindastólinn minn góða með Draumalandið - þetta er bara smápása frá lestrinum.
Góðar stundir!

föstudagur, september 08, 2006

 

Bananalýðveldi

Ætli það sé ekki einsdæmi í Vestur-Evrópu að ráðherra svari spurningu fréttamanns: "Ég hvorki játa því né neita." Og það var ekki verið að spyrja að einhverju saklausu heldur hvort það væri tilfellið að ómerktar flugvélar fljúgi eftirlitslaust um íslenska lofthelgi. Ég held að Lómatjarnarfrúin þurfi aðeins að fara að athuga sinn gang, ég hef heldur aldrei náð upp í að hún skuli hafa verið gerð að utanríkisráðherra. Ég hef í lengstu lög reynt að mótmæla að við búum í bananalýðveldi, en svei mér þá ef ég er ekki farin að hallast að því og held jafnvel að yfirstjórn landsins sé skipuð öpunum sem bananana éta. Og þar hafið þið það!

miðvikudagur, september 06, 2006

 

Bjólfskviða

Við hjónakornin brugðum okkur í Háskólabíó áðan og sáum Bjólfskviðu. Það verður að segjast að þrátt fyrir að eitt og annað virkaði hjákátlega á mig í byrjun gleymdi ég þessum agnúum fljótt og er bara hæstánægð með myndina í heild. Íslenska landslagið er auðvitað stórkostlegustu leiktjöld sem hægt er að hugsa sér og Ingvar E. Sigurðsson hreinlega fæddur í hlutverk Grendils hins ógurlega. Og tónlistin er hreint mögnuð, ég beið þess vegna eftir kreditlistanum til að sjá hver hefði samið hana og varð svo sem ekkert hissa þegar nafn Hilmars Arnar Hilmarssonar kom upp. Sem sagt, mun viturlegra að eyða tímanum í þetta heldur en að sitja heima og góna á einhverja endaleysu í sjónvarpinu.
Góðar stundir.

laugardagur, september 02, 2006

 

Snæfellsnes

Við komum heim seinnipartinn í dag eftir frábæra tveggja daga vist á Búðum. Ég sný ekki aftur með það að það stafar einhverjum krafti frá jöklinum. Allavega fannst mér ég fyllast orku um leið og ég mætti á staðinn. En í þetta sinn fengum við ekki herbergi 17 heldur herbergi 14, sem er bara standard herbergi. Það er ekkert hægt að setja út á sjálft herbergið, en það angraði okkur talsvert að það var svo mikil klóaklykt á baðinu. Skýringin kom í morgun þegar ég orðaði þetta um leið og við tékkuðum okkur út og gerðum upp. Það hafði komið upp stífla í lögnunum á þessu herbergi og þrátt fyrir að einhver stíflusérfræðingur hefði komið og gert eitthvað var það greinilega ekki nóg. Veðrið lék við okkur, við hefðum ekki getað verið heppnari. Í gær byrjuðum við daginn á að aka út á Arnarstapa þar sem við lögðum bílnum og gengum síðan yfir að Hellnum, sem er svona á að gista klukkutímaganga. Við vorum samt eitthvað lengur því það var svo mikið af berjum á leiðinni, alveg við göngustíginn, að það var ekki hægt að standast mátið. Vorum nokkuð þreytt þegar við komum í Fjöruhúsið á Hellnum, þar sem við vörpuðum mæðinni og fengum okkur Swiss Mocca. Síðan gengum við aðeins um á staðnum - höfum reyndar skoðað flest allt þar áður - og enduðum svo aftur í Fjöruhúsinu þar sem við fengum þessa líka frábæru fiskisúpu og heimabakað brauð áður en gengið var til baka. Ég verð að viðurkenna að ég var ansi hreint þreytt í fótunum. Eftir þetta afrek var svo ekið yfir á Hellissand og þaðan til Ólafsvíkur þar sem við fengum okkur kaffi í bakaríinu eins og er fastur liður þegar við komum á þessar slóðir. Ég verð að segja að mér finnst afar merkilegt að í þessu litla sjávarplássi skuli vera svona frábært bakarí - konditori. Og svo keypti ég auðvitað hálandabrauð þar til að taka með heim. Þegar komið var aftur að Búðum beið okkar "óvæntur glaðningur" á herberginu og það var geysilega notalegt að fleygja sér upp í rúm með bók og freyðivínsglas og slaka á fram að kvöldverði eftir kenjum kokksins. Komumst reyndar að því í þessari ferð að "kenjar kokksins" eru að hann ræður hvenær fólk fær matinn. Við þurftum bæði kvöldin að bíða ansi hreint lengi á milli rétta.
Í morgun var talsvert hvasst en við létum það ekki á okkur fá og skruppum í gönguferð um Búðafjöru áður en við tókum saman og tékkuðum út. Og enn bættist við steinasafnið sem ég hef verið að koma mér upp úr fjörunum á Snæfellsnesi. Líklega þarf ég að fara að finna einhverja huggulega skál undir grjótið.
En sem sagt, tveir frábærir dagar að baki og á morgun þarf ég að vinna.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?