laugardagur, september 09, 2006
Consumer Therapy
Við hjónin skelltum okkur í neytendameðferð (Consumer Therapy) seinnipartinn í dag, en það er annað og fínna orð yfir búðarráp og peningaeyðslu. Allt vegna þess að mig vantar góða, svarta götuskó fyrir veturinn. Byrjuðum á einhverjum skómarkaði í Perlunni þar sem ég fann ekki neitt. Þar næst var farið í Kringluna - fann heldur ekki neina svarta skó þar en sá fullt af flottum, brúnum spariskóm með hæl. Þar af leiðandi eyddi ég engum peningum í Kringlunni en eiginmaðurinn keypti tvær DVD myndir. Næsti viðkomustaður var Kolaportið og auðvitað fann ég enga svarta skó þar, en viti menn, haldið þið að ég hafi ekki rekist á vel með farið eintak af Draumalandinu eftir Andra Snæ og fengið það á þúsundkall. Og bóndinn fjárfesti sömuleiðis í tveimur bókum, Norskum ævintýrum og Þjóðsögum frá Eistlandi. Í stað þess að halda áfram að vinna þegar ég kom heim fleygði ég mér í hægindastólinn minn góða með Draumalandið - þetta er bara smápása frá lestrinum.
Góðar stundir!
Góðar stundir!