laugardagur, október 28, 2006

 

Hvalveiðar

Ég hef velt vöngum fram og til baka yfir hvalveiðunum sem hafnar eru á ný og hef loksins komist að því að ég tel þetta mistök, enda þótt mér þyki súrt rengi hinn besti matur og rétt tilreitt hvalkjöt hin ljúffengasta steik. Reyndar var ég á sínum tíma alfarið á móti því að láta taugaveiklaða útlendinga (hef aldrei kunnað við orðið "móðursjúkir") ráða því hvernig við nýtum okkar náttúruauðlindir og verð að viðurkenna að mér finnst fólk sem ættleiðir hvali ekki beinlínis stíga í vitið. Og ég varð yfir mig hneyksluð þegar haft var eftir sjávarútvegsráðherra Breta í Mogganum að það væri hroðalegt að sjá hvernig þetta glæsilega dýr (langreyðurin) væri dregið í land þar sem því væri slátrað til skemmtunar fyrir blóðþyrsta áhorfendur. Mjög trúlega er ekki þetta ekki rétt haft eftir eða ekki rétt þýtt, því varla heldur maðurinn að við séum í kúrekaleik og snörum hvalina á hafi úti og drögum þá svo í land til slátrunar? Ég gréti líka þurrum tárum tæki einhver sig til og myndi sökkva Sea Shepherd, ef mannbjörg yrði. En þrátt fyrir þessar skoðanir mínar held ég að fyrst við létum undan á sínum tíma séu það reginmistök að byrja á þessu aftur. Þetta skiptir engu fyrir þjóðarbúið og eiginlega engu fyrir neinn nema Kristján Loftsson og það væri trúlega betra að við borguðum honum fyrir að láta þetta vera, þótt ég auðvitað, sem fyrrverandi Hafnfirðingur, standi með Stjána Lofts (svona að vissu marki).
Ég hef líka heyrt að nú séu útlendingar farnir að koma hingað á haustin til að fara í göngur og taka þátt í réttunum - og borga trúlega dágóða upphæð fyrir skemmtunina. En gerir það fólk sér þá ekki grein fyrir að fallegu dilkarnir sem skoppa um heiðarnar eru svo reknir í sláturhúsið og étnir? Ég bara spyr.

föstudagur, október 27, 2006

 

Mýrin

Fórum að sjá Mýrina í gær. Þrælgóð. Ég mæli með henni.

mánudagur, október 23, 2006

 

Lífrænar konur

Við vinkonurnar vorum spurðar að því um helgina hvort við værum "svona lífrænar konur".
Við vorum hreint ekki alveg klárar á því hverju við ættum að svara.

 

Matur og magadans

Ég hef ekki bloggað mikið að undanförnu, sem aðallega stafar af miklu annríki. En mér tókst samt að klára allt sem ég hafði sett mér á réttum tíma fyrir helgina og á föstudagskvöldið skellti ég mér með BPW vinkonum mínum austur að Minni Borg í Grímsnesi þar sem við dvöldum fram á sunnudag í góðu yfirlæti í sólskini og blíðu. Á laugardaginn drifum við okkur um hádegisbilið til að skoða Sólheima en það verður að segjast að við urðum fyrir talsverðum vonbrigðum því þar sást ekki hræða á ferli og allt var lokað. Kaffihúsið átti að opna klukkan tvö, verslunin klukkan þrjú og kertagerðin eitthvað um svipað leyti. Þarna er vissulega fallegt og friðsælt og það var ósköp indælt að ganga þarna um, en konur vilja auðvitað alltaf komast í búð til að skoða og jafnvel kaupa. Svo við drifum okkur bara til baka í bústaðina og klukkan þrjú vorum við mættar í félagsheimilið þarna, þar sem við fengum kennslu í indverskri matargerð (ég er allavega útskrifuð með meirapróf í lauksteikingu). Það var býsna skemmtilegt og maður fræddist heilmikið um alls kyns krydd og aðferðir sem tengjast þessari matargerð. Shabana, sem var kennarinn okkar, var líka skemmtileg og auk þess að kenna okkur að elda mat kenndi hún okkur indversk sönglög. Að eldamennskunni lokinni settumst við að sjálfsögðu niður og borðuðum framleiðsluna og hún var rosalega góð. Mikið af grænmetisréttum og góðum karríréttum (en karrí er bara samheiti sem notað er á Vesturlöndum yfir ýmsar kryddblöndur). Og þegar við vorum pakksaddar af góðgætinu vorum við drifnar í magadans, tvær dansmeyjar mættu á svæðið og sýndu okkur kúnstirnar og svo urðum við allar að spreyta okkur. Ég lýsti því yfir að í næsta fjölskylduboði yrði aðalnúmerið "amma sýnir magadans" - veit reyndar ekki hvað fjölskyldan segir um það!
Þegar ég var svo komin heim á sunnudaginn hringdi sonurinn á Akureyri og sagði að siglingakappinn væri að koma heim eftir Svíþjóðarferðina og þyrfti að fá gistingu eina nótt, sem var auðvitað sjálfsagt, enda gisti hann hjá okkur nóttina áður en hann fór út. Drengurinn birtist svo undir miðnættið alsæll með ferðina og sagðist hafa lært alveg heilan helling. Og bætti við að þeir hefðu verið vaktir klukkan sjö alla morgna og drifnir út að hlaupa fyrir morgunmat. Mér heyrðist hann samt ekki ætla að leggja það í vana sinn að öllu jöfnu. Honum var svo skutlað á flugvöllinn til að taka vél til Akureyrar klukkan tvö.
Man ekki eftir fleiru í bili - lifið heil.

föstudagur, október 13, 2006

 

Syfja

Vikan hefur verið annasöm.
Mánudagur:
Reikningsskiladagur og síðan skruppum upp á Skaga að sækja mynd til elsta bróður til að setja í endurminningabók frænda okkar. Stöldruðum ekki lengi við, en samt nóg til að eiga ánægjulegt spjall við bróður og mágkonu. Myndin sem hann átti var stórfín og nú er hún komin í hendur þess frænda sem er að búa bókina til prentunar.
Þriðjudagur:
Skutlaði eiginmanninum út í háskóla kl. 11.40 og fór svo í rope-jóga í hádeginu. Heim að vinna og svo söngæfing hjá Gospelsystrum klukkan sex. Var komin heim aftur upp úr hálfníu. Eldaði mér grænmeti á pönnu og gúlpaði því í mig ásamt nokkrum sneiðum af lambalæri frá því um helgina.
Miðvikudagur:
Frekar tíðindalaus. Söngæfing hjá kór Kvennakirkjunnar milli fimm og sex, lenti svo á smákjaftatörn en var komin heim milli hálfsjö og sjö. Eiginmaðurinn eldaði smalaböku sem smakkaðist undurvel og svo vann ég aðeins eftir kvöldmatinn til að klára Big Love 8. Glápti svo á sjónvarp og hálfsofnaði yfir því en skreiddist á endanum í rúmið.
Fimmtudagur:
Skutlaði eiginmanninum í skólann kl. 11.40 og fór svo í rope-jóga. Dreif mig síðan heim og hélt áfram að vinna. Fór með Ellu á frumsýningu hjá Íslenska dansflokknum kl. 20.00. Hún bauð mér upp á hvítvínsglas fyrir sýningu og ég fékk loksins að heyra stórfréttirnar hjá henni. Hún hefur sem sagt fengið vinnu á sínu sviði hjá Ríkisskattstjóra og er að auðvitað alveg hæstánægð.
Stykkin sem voru sýnd voru bæði ágæt, en ég hef séð dansflokkinn sýna skemmtilegri verk, eða verk sem höfðuðu meira til mín. Þessir krakkar eru bara svo frábærir að það er hreinn unaður að horfa á þau. Svo var vitanlega frumsýningarpartí á eftir og ég skreiddist heim undir miðnættið.
Föstudagur:
Loksins einn dagur sem ég hélt að væri með ekkert prógram, en svo hringdi Inda frænka um hádegið og meldaði sig veika eina ferðina enn. Ég var sem sagt búin að gleyma því að við ætluðum á ferðaskrifstofuna í dag að láta búa til Kanadaferð fyrir Rauðholtskynið. Vona bara að henni hafi ekki fundist ég vera allt of æst í að hún færi nú vel með sig og væri bara í rúminu þar til henni væri batnað. En ég hef sem sagt setið við tölvuna síðan klukkan tíu og verið dugleg. Og rétt þegar ég lýk dagskammtinum og ætla að flýta fyrir mér með næsta verkefni kemur eiginmaðurinn heim og vill að við förum út í helgarinnkaup. Það væri kannski skynsamlegt að komast aðeins út undir bert loft, því mig er farið að syfja skuggalega. Kannski út af hvítvíninu frá því í gærkvöldi - og þó, nei, fjandakornið, mér líður ekki þannig.

miðvikudagur, október 04, 2006

 

Erfitt

Gærdagurinn var erfiður. Þannig er að vinkona mín og kórsystir hafði verið afar lasin allt síðastliðið ár, þurfti að fara í erfiða aðgerð í fyrrahaust og núna í sumar greindist hún með illkynja æxli í heila. Hún kvaldist sem betur fer ekki neitt en lést 21. september og var jarðsett í gær. Við söngsysturnar sungum við jarðarförina og það er eitthvað það erfiðasta sem ég hef á ævi minni gert. Var eiginlega miður mín í allan gærdag því hún var nánasta vinkona mín í kórnum og við höfðum gott samband og gerðum ýmislegt fyrir utan það að syngja saman. Kórinn hefur auðvitað sungið oftar við jarðarfarir og einu sinni við útför annarar kórsystur en það var einhvern veginn allt annað - hún vildi fara. En þetta fylgir auðvitað lífinu, enginn veit hvenær kallið kemur. Svo var kóræfing í gærkvöldi og við æfðum kafla úr Gloríu Vivaldis - mér fannst hann erfiður en það var gott að einbeita sér að tónlistinni.

Og svo var nú ekki allt jafndapurlegt í gær. Ég hringdi í yngri soninn og co. í gærkvöldi og frétti að siglingakappinn á Akureyri er á leið til Svíþjóðar í keppni! Gott hjá honum. Held allavega að það sé keppni, en kannski eru þeir bara að fara til að æfa siglingar. Gaman samt.

Í dag á eiginmaðurinn afmæli og ég er búin að lofa honum að elda uppáhaldsmatinn hans, ostakótelettur. Ætli það verði ekki líka eina afmælisgjöfin, hann vantar ekki neitt og ég get ekki fundið upp á neinum hégóma til að gefa honum.
Meira seinna, lifið heil.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?