föstudagur, október 13, 2006

 

Syfja

Vikan hefur verið annasöm.
Mánudagur:
Reikningsskiladagur og síðan skruppum upp á Skaga að sækja mynd til elsta bróður til að setja í endurminningabók frænda okkar. Stöldruðum ekki lengi við, en samt nóg til að eiga ánægjulegt spjall við bróður og mágkonu. Myndin sem hann átti var stórfín og nú er hún komin í hendur þess frænda sem er að búa bókina til prentunar.
Þriðjudagur:
Skutlaði eiginmanninum út í háskóla kl. 11.40 og fór svo í rope-jóga í hádeginu. Heim að vinna og svo söngæfing hjá Gospelsystrum klukkan sex. Var komin heim aftur upp úr hálfníu. Eldaði mér grænmeti á pönnu og gúlpaði því í mig ásamt nokkrum sneiðum af lambalæri frá því um helgina.
Miðvikudagur:
Frekar tíðindalaus. Söngæfing hjá kór Kvennakirkjunnar milli fimm og sex, lenti svo á smákjaftatörn en var komin heim milli hálfsjö og sjö. Eiginmaðurinn eldaði smalaböku sem smakkaðist undurvel og svo vann ég aðeins eftir kvöldmatinn til að klára Big Love 8. Glápti svo á sjónvarp og hálfsofnaði yfir því en skreiddist á endanum í rúmið.
Fimmtudagur:
Skutlaði eiginmanninum í skólann kl. 11.40 og fór svo í rope-jóga. Dreif mig síðan heim og hélt áfram að vinna. Fór með Ellu á frumsýningu hjá Íslenska dansflokknum kl. 20.00. Hún bauð mér upp á hvítvínsglas fyrir sýningu og ég fékk loksins að heyra stórfréttirnar hjá henni. Hún hefur sem sagt fengið vinnu á sínu sviði hjá Ríkisskattstjóra og er að auðvitað alveg hæstánægð.
Stykkin sem voru sýnd voru bæði ágæt, en ég hef séð dansflokkinn sýna skemmtilegri verk, eða verk sem höfðuðu meira til mín. Þessir krakkar eru bara svo frábærir að það er hreinn unaður að horfa á þau. Svo var vitanlega frumsýningarpartí á eftir og ég skreiddist heim undir miðnættið.
Föstudagur:
Loksins einn dagur sem ég hélt að væri með ekkert prógram, en svo hringdi Inda frænka um hádegið og meldaði sig veika eina ferðina enn. Ég var sem sagt búin að gleyma því að við ætluðum á ferðaskrifstofuna í dag að láta búa til Kanadaferð fyrir Rauðholtskynið. Vona bara að henni hafi ekki fundist ég vera allt of æst í að hún færi nú vel með sig og væri bara í rúminu þar til henni væri batnað. En ég hef sem sagt setið við tölvuna síðan klukkan tíu og verið dugleg. Og rétt þegar ég lýk dagskammtinum og ætla að flýta fyrir mér með næsta verkefni kemur eiginmaðurinn heim og vill að við förum út í helgarinnkaup. Það væri kannski skynsamlegt að komast aðeins út undir bert loft, því mig er farið að syfja skuggalega. Kannski út af hvítvíninu frá því í gærkvöldi - og þó, nei, fjandakornið, mér líður ekki þannig.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?