sunnudagur, apríl 27, 2008

 

Sumarveður

Það er nú meira sumarveðrið hér á Seltjarnarnesi í dag. Eftir sunnudagssundið í morgun og stutta gönguferð á Eiðistorgið eftir hádegið vorum við hjónakornin komin í þvílíkt sumarskap að við drifum í að koma sumarhúsgögnunum út á svalir og þegar því var lokið skelltum við "gróðurhúsinu" upp. Nú er það komið á sinn stað og nýtur sín vel og ég held að blómunum og kryddjurtunum eigi eftir að líða vel þar. Hugsa samt að ég verði að taka kryddjurtabakkana inn yfir nóttina til að byrja með, ég er hrædd um að þær þoli ekki næturkuldann. Að öllu þessu loknu dreif húsbóndinn á heimilinu í því að baka vöfflur, en enda þótt við hefðum ætlað að drekka síðdegiskaffið á svölunum gleymdist það einhvern veginn og vöfflurnar voru bara snæddar í eldhúskróknum. En engu að síður eru svalirnar tilbúnar undir sumarið sem við skulum bara vona að verði gott og sólríkt.
Annað var það ekki að sinni.
Njótið dagsins

fimmtudagur, apríl 24, 2008

 

Gleðilegt sumar!

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn, vinir og vandamenn nær og fjær!
Vonandi verður þetta ekki rigningasumar, en er ekki bara yfirleitt rigning á sumardaginn fyrsta ef það er ekki frost og kuldi? Ég er allavega staðráðin í að þetta verði gott sumar, kannski ekki betra en síðastliðið sumar sem var það besta sem ég man, en allavega jafngott - eða þannig.
Ástæða bloggleysis síðustu þriggja vikna er einfaldlega sú að héðan af Tjarnarbóli er ekkert nýtt að frétta. Bóndinn er í ritgerðasmíð og að lesa undir próf og frúin á fullu í söng - vortónleikarnir okkar verða 14. maí og svo eru samæfingar byrjaðar á Carminu Burana. Ein æfing búin og þetta ævintýri leggst vel í mig en framundan eru svo margar æfingar að ég hef ekki tölu á þeim.
Og fljótlega mun ég setja "gróðurhúsið" upp á svölunum og ilmur af kryddjurtum taka að fylla loftið. Ég er reyndar búin að setja niður skrautblómalauka og haldið þið ekki bara að dalían sé byrjuð að skjóta upp kollinum. Ég get varla beðið eftir að koma þessu öllu út á svalir!
Hafið það svo sem allra best.
Góðar stundir

föstudagur, apríl 04, 2008

 

Ellimörk

Mér finnst ég ekkert sérlega gömul en þegar ég hugsa um að í dag verður elsta barnabarnið mitt aldarfjórðungsgamalt þarf ég kannski að fara að endurskoða þetta.
Innilega til hamingju með daginn, Hulda mín, ef þú lest þetta. Ég man svo vel þegar ég sá þig fyrst á Fæðingarheimilinu - kom heim frá Kaupmannahöfn daginn sem þú fæddist með gul og græn barnaföt en hafði hringt heim daglega til að vita hvort ég ætti að kaupa blá eða bleik. Það er auðvitað alveg í þínum anda að vilja ekki hefðbundinn stelpulit!

 

Tungutorg

Ég fór að gamni inn á Tungutorgið og sló inn þennan texta:
Köttur úti í mýri setti upp á sér stýri, úti er ævintýri.
Þetta er afraksturinn:
A cat out in the marsh installed on oneself controls, out is an adventure.
Mér finnst þetta með stjórntækin sérlega athyglisvert.
Hafið það gott um helgina en gangið hægt um gleðinnar dyr

 

Mótmælaaðgerðir

Það er ekkert spaug fyrir sjálfstætt starfandi fólk þegar útgjöld við reksturinn hækka upp úr öllu valdi en tekjurnar standa í stað. Þess vegna styð ég flutningabílstjóra heilshugar. Hins vegar dytti mér ekki í hug að mæta á mínum "fjallabíl" í mótmæli jeppaeigenda. Við hjónin ákváðum að kaupa okkur jeppa vitandi vits að hann eyddi meiru en litli eyðslugranni fólksbíllinn sem við áttum fyrir og ef við stæðum ekki undir rekstrinum hefðum við einfaldlega ekki efni á að eiga hann, svo einfalt er það.
En mikið vildi ég að við stelpurnar hefðum efni á að taka einkaþotu þegar við förum til Sardiníu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?