föstudagur, maí 25, 2007

 

Stefnt skal að og áhersla lögð á...

Það væri gaman að sjá einhvern tíma málefnasamning sem í stæði: "Við munum tryggja elli- og örorkulífeyrisþegum mannsæmandi lífeyri þannig að þeim sé ekki ofviða að fara í leikhús eða sækja tónleika eða jafnvel að borða á veitingahúsi stöku sinnum, við munum tryggja að allir hafi sama rétt til náms við sitt hæfi, óháð búsetu og efnahag, við munum tryggja öllum fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. tannlækningum, fyrir verð sem engum er ofviða þótt viðkomandi þurfi aðeins að lifa á ellilífeyri eða tryggingabótum og við munum ekki láta nauðga landinu okkar".
Hefur nokkur heyrt um neikvæðan stjórnarsáttmála? Það er ekki spurning um hvað stendur á blaðinu heldur hverjar efndirnar verða.

miðvikudagur, maí 23, 2007

 

Rembingskoss

Í fyrradag kysstust kratar og íhald rembingskossi beint á munninn.
Í gær gengu þau í hjónaband.
Kaupmálinn verður birtur í dag.

föstudagur, maí 18, 2007

 

Martröð

Það sem ég óttaðist mest í aðdraganda kosninganna er einmitt að gerast núna.
Þvílíkur sirkus.

laugardagur, maí 12, 2007

 

Meira af kosningum

Það undarlega gerðist að ég varð andvaka tvær nætur í röð út af kosningunum. Mér finnst nefnilega ábyrgðarhluti að neyta atkvæðisréttarins og fram að þessu hef ég alltaf getað ákveðið af sannfæringu hvaða flokki ég fylgi að málum, en nú er svo komið að enginn af þeim kostum sem í boði eru hugnast mér fullkomlega. Þar til í miðri vikunni var ég því ákveðin að mæta á kjörstað og skila auðu. En svo komu andvökunæturnar og ég fylltist kvíða - væri ég með því að hjálpa þessari grábölvuðu ríkisstjórn að halda völdum? Það er því helvíti skítt að þurfa að velja illskársta kostinn eins og ég neyðist til að gera. Af þeim sökum verður krossinn minn miklu fremur gegn ríkisstjórninni en stuðningur við ákveðinn flokk.
Ég vildi bara koma þessu á framfæri.
Lifið heil og verið stillt í kvöld hver sem úrslitin verða.

miðvikudagur, maí 09, 2007

 

Kosningar

Einn er blár og annar grænn
enginn samt er nógu vænn
trú mína og traust að fá
til þess skortir mikið á.
Að fjórum árum liðnum
hvernig verður þá?

laugardagur, maí 05, 2007

 

Afmæli

Ég átti afmæli í fyrradag sem er auðvitað ekkert í frásögur færandi - ævin er farin að styttast í annan endann og það er svo sem allt í lagi. En þetta var indæll afmælisdagur og eftir góðan kvöldverð sat ég inni í stofu og var að horfa á sjónvarpið þegar dyrabjallan hringdi. Ég fór til dyra og úti fyrir stóð ungur og myndarlegur maður sem rétti mér fána með merki Gróttu og sagði: "Grótta sendir þér þetta í tilefni fertugsafmælisins og takk fyrir að búa á Seltjarnarnesi." "Ó, kærar þakkir," sagði ég himinlifandi en fannst nú samt eitthvað athugavert við þetta. Svo áttaði ég mig þegar ungi maðurinn var kominn af stað niður stigann. "Þetta er einhver misskilningur, ég á reyndar afmæli í dag en það er dálítið langt síðan ég var fertug," hrópaði ég á eftir honum. Ungi maðurinn fór að skellihlæja og óskaði mér hjartanlega til hamingu - Grótta er nefnilega fertug á þessu ári og sendi af því tilefni öllum bæjarbúum svona fána að gjöf. Mér fannst þetta svo skemmtileg tilviljun að það sem eftir lifði kvöldsins sat ég fyrir framan sjónvarpið og veifaði Gróttufánanum. Áfram Grótta!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?