laugardagur, maí 05, 2007

 

Afmæli

Ég átti afmæli í fyrradag sem er auðvitað ekkert í frásögur færandi - ævin er farin að styttast í annan endann og það er svo sem allt í lagi. En þetta var indæll afmælisdagur og eftir góðan kvöldverð sat ég inni í stofu og var að horfa á sjónvarpið þegar dyrabjallan hringdi. Ég fór til dyra og úti fyrir stóð ungur og myndarlegur maður sem rétti mér fána með merki Gróttu og sagði: "Grótta sendir þér þetta í tilefni fertugsafmælisins og takk fyrir að búa á Seltjarnarnesi." "Ó, kærar þakkir," sagði ég himinlifandi en fannst nú samt eitthvað athugavert við þetta. Svo áttaði ég mig þegar ungi maðurinn var kominn af stað niður stigann. "Þetta er einhver misskilningur, ég á reyndar afmæli í dag en það er dálítið langt síðan ég var fertug," hrópaði ég á eftir honum. Ungi maðurinn fór að skellihlæja og óskaði mér hjartanlega til hamingu - Grótta er nefnilega fertug á þessu ári og sendi af því tilefni öllum bæjarbúum svona fána að gjöf. Mér fannst þetta svo skemmtileg tilviljun að það sem eftir lifði kvöldsins sat ég fyrir framan sjónvarpið og veifaði Gróttufánanum. Áfram Grótta!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?