þriðjudagur, júlí 24, 2007

 

Haldið þið ekki...

að ég hafi látið verða af því að fá mér nýjan GSM síma. Gullfallegan, kampavínsgylltan samlokusíma með öllum huganlegum fúnksjónum og bæði fyrir evrópska og ameríska kerfið. Ég get þá alltént hringt í 911 ef ég skyldi fá slæmt sykurfall einhvers staðar á sléttum Minnesota eða Manitoba. En að öllu gamni slepptu finnst mér ákveðið öryggi í því að vera með síma sem virkar þarna vestanhafs. Gripurinn er með myndavél og ég er meira að segja búin að taka mynd af eiginmanninum við vinnu sína og senda honum á MMS - og það tókst. Nú tekur það mig næsta árið að læra á hann, (þ.e. símann, ekki eiginmanninn, ég hef haft rúm fjörutíu ár til þess), en ég hef ekki nema viku til að læra það allra nauðsynlegasta, því við leggjum í hann á fimmtudaginn í næstu viku. Það er búið að prenta boli á mannskapinn og sömuleiðis til að færa eftirvæntingarfullu frændfólki sem bíður okkar með óþreyju. Þeir eru off white og á bringunni stendur RAUÐHYLTINGAR (með rauðum stöfum að sjálfsögðu) á bakinu með heldur stærri stöfum: The Red Hill Gang. Við sýndum og seldum gripina í gærkvöldi í Lystihúsinu við Kaffi Flóruna í Laugardalnum og þar var stanslaust hlegið í tvo tíma. Það verður pottþétt gaman hjá stórfjölskyldunni þessa daga!
Og ég á lítið eftir af því sem ég þarf að klára áður en ég fer svo ég þarf engar áhyggjur að hafa.

föstudagur, júlí 13, 2007

 

Óttablandið ergelsi

Það setur að mér kvíða við að heyra að Rio Tinto sé að ná fótfestu á Íslandi.

fimmtudagur, júlí 12, 2007

 

Urr - ergelsi

Það er ýmislegt sem ergir mig þessa dagana þótt maður eigi auðvitað ekki að liggja í einhverju fýlukasti í þessu yndislega veðri.

1) Þessi fáránlegi dómur í nauðgunarmálinu á Hótel Sögu - það liggur ljóst fyrir að stúlkan var með áverka og blóðug eftir aðfarirnar en það dugir ekki til að um nauðgun hafi verið að ræða.

2) Utanríkisráðherrann okkar flengist á milli einræðisherra í Afríku og Arabalöndum til að biðja um stuðning við setu Íslands í Öryggisráði SÞ. Og lætur svo hafa eftir sér að í Afríku sé okkur treyst til að taka sjálfstæðar ákvarðanir þar sem við séum ekki í Evrópusambandinu og og rekum því sjálfstæða utanríkisstefnu. Var ekki einmitt eitt af kosningamálum Samfylkingarinnar að athuga með aðild að EB? Og hver borgar svo öll ferðalögin og baráttuna? Jú, auðvitað ég og við öll. Ég hefði frekar viljað sjá þessu fjármagni varið í þróunarhjálp - eða einfaldlega í velferðarkerfið hér á Íslandi, sbr. lið 3.

3) Það skelfir mig að það hafi átt að láta fatlaða unglinga vinna þrjá og hálfan tíma kauplaust í hverri viku þegar verið er að sóa peningum skv. lið nr. 2. Hvaða skilaboð sendir það þessu unga fólki og út í samfélagið?

4) Slökkviliðsmenn (minnir mig) hjóla landshorna á milli og verða matarlausir á miðri leið en félagar þeirra hjá Landhelgisgæslunni fljúga með mat til þeirra í óbyggðirnar - og fréttamann að sjálfsögðu líka. Hver borgar svo þetta matarskutl? Jú, ég og við öll.

Ég gæti talið upp sitthvað fleira en nenni því hreinlega ekki í þessari veðurblíðu.

Lifið heil.

sunnudagur, júlí 08, 2007

 

Ofnæmi

Eiginmaðurinn fór í ofnæmispróf í síðustu viku og í ljós kom að hann hefur ofnæmi fyrir fíflum. Mig hefur auðvitað alltaf grunað þetta en nú er það staðfest.

mánudagur, júlí 02, 2007

 

Komin heim á ný með enn slitnari skó!

Árlega útilegan og ættarmótið í Fannahlíð um síðustu helgi tókst frábærlega vel. Hátt í sextíu manns voru mættir og talsverður fjöldi tjaldaði - aðrir fóru heim um kvöldið. Akureyrarfjölskyldan mætti eins og hún lagði sig og Reykjavíkurunglingarnir tveir komu með okkur gömlu hjónunum, sem sagt allir í okkar fjölskyldu sem voru á landinu mættu. Og það var hlegið og sungið og talað og að sjálfsöðgu borðað af bestu lyst! Veðrið var auðvitað stórkostlegt og gaman að sitja úti á flöt og drekka síðdegiskaffi á laugardeginum. Og gúllassúpan mín í hádeginu á sunnudag gerði sig býsna vel. En það var líka gott að komast heim og fara í sturtu og fá sér síðan svolítinn beauty sleep. En nú tekur alvara lífsins við, ekki nema mánuður þar til við förum til Kanada (eða Kanödu) og ég þarf að ljúka allavega sex vikna verkefnum á þeim tíma svo það verður ekki mikið útstáelsi á mér þangað til. Reyndar ætluðum við hjónin að reyna að komast á Búðir í tvo daga þegar Jón verður búinn í sínu verkefni - við sjáum til. Það er bara heldur seint að fara ekki fyrr en eftir miðjan ágúst, en þá er auðvitað hægt að fara í bláber uppi í Eysteinsdal, nú vitum við orðið hvar besta berjamóinn þarna er að finna!
Annars er þetta blogg mitt farið að vera frekar leiðinlegt, ég er að verða svo fjandi andlaus. Auðvitað er aldrei að vita nema það lagist þegar öllu þessu djammi og ferðalögum lýkur!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?