fimmtudagur, júlí 12, 2007

 

Urr - ergelsi

Það er ýmislegt sem ergir mig þessa dagana þótt maður eigi auðvitað ekki að liggja í einhverju fýlukasti í þessu yndislega veðri.

1) Þessi fáránlegi dómur í nauðgunarmálinu á Hótel Sögu - það liggur ljóst fyrir að stúlkan var með áverka og blóðug eftir aðfarirnar en það dugir ekki til að um nauðgun hafi verið að ræða.

2) Utanríkisráðherrann okkar flengist á milli einræðisherra í Afríku og Arabalöndum til að biðja um stuðning við setu Íslands í Öryggisráði SÞ. Og lætur svo hafa eftir sér að í Afríku sé okkur treyst til að taka sjálfstæðar ákvarðanir þar sem við séum ekki í Evrópusambandinu og og rekum því sjálfstæða utanríkisstefnu. Var ekki einmitt eitt af kosningamálum Samfylkingarinnar að athuga með aðild að EB? Og hver borgar svo öll ferðalögin og baráttuna? Jú, auðvitað ég og við öll. Ég hefði frekar viljað sjá þessu fjármagni varið í þróunarhjálp - eða einfaldlega í velferðarkerfið hér á Íslandi, sbr. lið 3.

3) Það skelfir mig að það hafi átt að láta fatlaða unglinga vinna þrjá og hálfan tíma kauplaust í hverri viku þegar verið er að sóa peningum skv. lið nr. 2. Hvaða skilaboð sendir það þessu unga fólki og út í samfélagið?

4) Slökkviliðsmenn (minnir mig) hjóla landshorna á milli og verða matarlausir á miðri leið en félagar þeirra hjá Landhelgisgæslunni fljúga með mat til þeirra í óbyggðirnar - og fréttamann að sjálfsögðu líka. Hver borgar svo þetta matarskutl? Jú, ég og við öll.

Ég gæti talið upp sitthvað fleira en nenni því hreinlega ekki í þessari veðurblíðu.

Lifið heil.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?