miðvikudagur, júlí 26, 2006

 

Svartklæddi maðurinn og Ástarsaga úr fjöllunum

Í gær tókum við hjónin tvær DVD myndir á leigu og horfðum á í gærkvöldi. Önnur var Walk the Line - ævi Johnnys Cash - og hin Brokeback Mountain. Það er skemmst frá því að segja að Walk the Line var hreint frábær og ég horfði frá upphafi til enda án þess að láta truflast af neinu. En ég verð að viðurkenna að ég er ekki eins hrifin af Brokeback Mountain eins og allir aðrir virðast vera. Landslagið í myndinni var auðvitað ægifagurt og margt fleira ágætt, en mér tókst aldrei að fá neina samúð með aðalpersónunum. Ég fann eiginlega mest til með eiginkonugreyinu sem tók svo saman við búðarlokuna - fann traustan mann en áreiðanlega hrikalega leiðinlegan. Og ég skildi aldrei af hverju hún var að bjóða sínum fyrrverandi í mat á þakkargjörðardaginn. Kannski til að þakka fyrir að vera laus við hann, hvað veit ég? En sem sagt, þá hefur mér tekist að sjá þessar tvær myndir eins og ég var búin að einsetja mér. Eiginmaðurinn er að spyrja hvort ég vilji koma með sér í bíó að sjá Captain Jack Sparrow og sjóræningjana í Karíbahafinu en ég er dauðhrædd um að verða fyrir vonbrigðum og þá sé ég svo eftir peningunum. Annars stendur Johnny Depp auðvitað alltaf fyrir sínu. Sé eftir að hafa ekki keypt dagatal 2007 með honum á Ítalíu.
Nú er Rauðhylltingagleðin á laugardaginn og vonandi verður þokkalegt veður og góð mæting. Við mætum allavega galvösk enda þótt eiginmaðurinn sé að bíða eftir að fá úrskurð um hvað gert verður við nýrnasteininn sem er að angra hann - hann gengur fyrir verkjalyfjum þessa dagana. Fer í myndatöku á föstudagsmorguninn og hittir svo lækninn til skrafs og ráðagerða seinnipartinn. Meira um það seinna.

sunnudagur, júlí 16, 2006

 

Pjatt???

Ég var að lesa greinina hans Össurar Skarphéðinssonar í Mogganum í dag þar sem hann lýsir raunum sínum við að fá nýtt vegabréf. Ég verð að viðurkenna að ég er hjartanlega sammála honum um vinnubrögðin sem eru viðhöfð þarna. Í fyrsta lagi er furðulegt að geta ekki greitt með krítarkorti og í öðru lagi eru tilburðirnir við myndatökuna fáránlegir. Hvers vegna í ósköpunum þarf myndefnið sjálft að hækka og lækka stólinn og snúa sér á alla enda og kanta? Hvers vegna er ekki verið með tölvustýrða myndavél sem hægt er að hækka og lækka og snúa? Sem sagt, furðulegt í þessu tölvuvædda samfélagi okkar. En ég get samt sem áður ekki annað er brosað út í annað (eða jafnvel bæði) yfir því að þingmanninum fannst myndin ekki nógu góð og fór þó nokkra vegalengd og eyddi tíma í að láta taka af sér betri mynd í passann. Það er ekki eins og verið sé að sýna þessa mynd í sí og æ, passanum er ekki stillt upp með öðrum fjölskyldumyndum. Og yfirleitt er maður ekki skælbrosandi að fara í gegnum vegabréfaskoðun, þess vegna finnst mér stórfurðulegt að þurfa að brosa á passamyndum. Mér finnst dálítið sniðugt að þingmaðurinn skuli vera svona pjattaður. Reyndar hef ég einu sinni verið óánægð með mynd í passanum mínum, á henni var ég ískyggilega lík félaga í Bader Meinhof.

föstudagur, júlí 14, 2006

 

Reiðihrollur

Atferli Ísraelsmanna og velþóknun Bandaríkjamanna á gerðum þeirra veldur mér reiði og ónotahrolli.

fimmtudagur, júlí 13, 2006

 

Blóðberg

Heppilegt að hafa ekki haft sérlega mikið að gera undanfarna daga. Var að ljúka við að lesa bókina Blóðberg eftir Ævar Örn Jósefsson og mæli hiklaust með henni. Einhvern veginn býsna rökrétt glæpasaga miðað við íslenskar aðstæður.

mánudagur, júlí 10, 2006

 

Til hamingju Ítalía!

Ég hef ekki orðið svona spennt yfir knattspyrnuleik síðan ég var innan við tvítugt, sat límd við tækið og engdist og emjaði. Og auðvitað hélt ég með Ítölum sem verðskulduðu sigurinn svo sannarlega. Ekki síst eftir skandalinn hjá Zidane. Samt synd að hann skuli enda knattspyrnuferilinn með því að láta skapið hlaupa svona hrapalega með sig í gönur. Auðvitað var hinn búinn að spæla hann eitthvað en mér er sama. Aftur á móti fannst mér Buffon markvörður vera maður leiksins - var reyndar að vona að hann verði eins og eitt víti, það hefði verið skemmtilegra að vinna þannig heldur en vegna þess að Frakkinn klúðraði skotinu. En engu að síður er ég ánægð með mína menn!

laugardagur, júlí 08, 2006

 

Við fyrsta hanagal!

Ég vaknaði við hanagal í morgun og hélt að ég væri orðin rugluð eða kannski dáin og þetta væri haninn minn í Himnaríki, því þar ætla ég að búa góðu búi með hamingjusamar hænur, kýr í fjósi og fáeinar kindur og svo auðvitað reiðhest, góðan töltara. Auðvitað datt mér ekki í hug að ég væri á hinum staðnum, enda hanarnir þar örugglega steiktir og steinþegjandi. En svo kom í ljós að þetta var hljóð sem eiginmaðurinn var að vinna með í tölvunni. Hvað sem því líður var virkilega gaman að vakna við eitthvað svona skemmtilegt og óvenjulegt og ég sem er yfirleitt frekar morgunfúl varð fegin að vera ekki dáin og komst strax í ljómandi gott skap. Dreif mig í sturtu og eyddi svo morgninum í það sem vinkonur mínar telja hina örgustu tíma- og líkamsorkusóun, sem sagt að strauja viskustykkin og borðtuskurnar sem ég þvoði í gær og líka eldhúsgardínur sem fengu að fljóta með í þvottinum og þarf auðvitað að strauja. Og nú ætla ég að þvo eldhúsgólfið og þrífa baðherbergið svolítið og kannski fer ég aðeins yfir stofugólfið með rykmoppu og þurrka af. Gallinn við blessaða sólina er að óhreinindin koma svo gjörla í ljós þegar hún skín inn til manns. Svo er fólk að ergja sig yfir rigningunni en áttar sig ekki á að þá berst ekki nærri eins mikið ryk inn og mun auðveldara er að hafa snyrtilegt heldur en í sólinni. Allavega fyrir okkur sem búum uppi á 4. hæð og slabbið og bleytan verður eftir í stiganum svo nágrannarnir þurfa að þrífa það, ha, ha, ha, aumingja þeir! Enda brosi ég alltaf ákaflega blítt og býð góðan dag þegar ég mæti þeim.
Í kvöld eigum við svo von á frumburðinum með allt sitt slekti í mat og auðvitað duga ekki minna en tvö lambalæri ofan í mannskapinn. Og ef eitthvað verður eftir höfum við hjónin ekkert á móti því að eiga lambakjöt í kæliskápnum til að narta í á morgun. Sem sagt þetta verður væntanlega hin ágætasta helgi.

miðvikudagur, júlí 05, 2006

 

Stríðsglæpamaðurinn

Ekki skil ég hvað rekur menn til að bjóða Bush gamla hingað í lax. Þetta er ekkert annað en gamall stríðsglæpamaður sem gengur fyrir olíu og peningum. Og svo býður minn gamli flokksbróðir og lærifaðir, forseti Íslands, honum heim með viðhöfn - og gefur honum veiðistöng og sérhannaða flugu. Ja, svei, Ólafur Ragnar, þú færð mínus í kladdann hjá mér fyrir þetta! Annars var þrælskemmtilegt að lesa lýsingu Steingríms Hermannssonar á því þegar hann bauð Bush í Þverá um árið og sá gamli þóttist þaulreyndur laxveiðimaður en svo kom í ljós að hann hafði aldrei rennt fyrir lax áður. Og það er athyglisvert að vita að Steingrímur var látinn hafa sætaskipti við karlinn þegar þeir áttu fund saman. Það þótti víst einhver hætta á að Bush kynni að verða skotinn - en auðvitað allt í lagi þótt Steingrímur yrði lagður að velli!
Amen og hallelúja!

mánudagur, júlí 03, 2006

 

Barnahanskar

Ég sá fyrir stuttu að einn kollegi minn þýddi "kid gloves" sem barnahanska. Framvegis mun ég taka á öllu með barnahönskum. Minnir mig á "ekta hanskaskinnsleður".

laugardagur, júlí 01, 2006

 

Þau sem keyra á umferðaskilti eru heimskingjar

Að þessari niðurstöðu komumst við hjónin í ökuferð okkar áðan suður í Straum. A. m.k. held ég að það sé samhljóða niðurstaða. Eiginmaðurinn hóf máls á því hvað það væri asnalegt að koma fyrir umferðaeyju með skilti á miðri götu en ég benti á að það væri trúlega gert til að draga úr umferðarhraða og framúrakstri. Hann kom með þau mótrök að kannski væri maður á eftir einhverjum sem æki lúshægt (eins og oft hefur pirraði mig á Nesveginum) og ákvæði að taka fram úr og þá allt í einu blasti bara við skilti og --búmm! En gæti þá ekki alveg eins blasað við manni bíll sem væri að koma á móti? Er ekki grundvallarregla að taka ekki fram úr nema vera viss um að gatan framundan sé "auð og hindrunarlaus"? Og þar sem ég fullyrti að aðeins heimskingjar ækju á svona umferðaskilti og hann væri enginn heimskingi og hefði þar af leiðandi aldrei ekið á skilti, held ég að hann hafi verið sammála þessum rökum mínum. En nú verð ég auðvitað að passa mig á að aka ekki á umferðaskilti á eyju því þá er ég auðvitað alger heimskingi!
Annars var ferðin í Straum verulega skemmtileg. Þar var verið að opna listamiðstöðina Víkingahringinn og þar var margt að sjá og ljúfar veitingar voru á boðstólum, sem gældu við bragðlaukana og runnu ljúflega niður. Nú erum við komin heim, kartöflurnar að bakast í ofninum og bráðum verður nautakjötið sett á grillpönnuna. Uppáhaldsrauðvínið sem ég keypti í fríhöfninni bíður á sínum stað. Verði okkur að góðu!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?