sunnudagur, júlí 16, 2006

 

Pjatt???

Ég var að lesa greinina hans Össurar Skarphéðinssonar í Mogganum í dag þar sem hann lýsir raunum sínum við að fá nýtt vegabréf. Ég verð að viðurkenna að ég er hjartanlega sammála honum um vinnubrögðin sem eru viðhöfð þarna. Í fyrsta lagi er furðulegt að geta ekki greitt með krítarkorti og í öðru lagi eru tilburðirnir við myndatökuna fáránlegir. Hvers vegna í ósköpunum þarf myndefnið sjálft að hækka og lækka stólinn og snúa sér á alla enda og kanta? Hvers vegna er ekki verið með tölvustýrða myndavél sem hægt er að hækka og lækka og snúa? Sem sagt, furðulegt í þessu tölvuvædda samfélagi okkar. En ég get samt sem áður ekki annað er brosað út í annað (eða jafnvel bæði) yfir því að þingmanninum fannst myndin ekki nógu góð og fór þó nokkra vegalengd og eyddi tíma í að láta taka af sér betri mynd í passann. Það er ekki eins og verið sé að sýna þessa mynd í sí og æ, passanum er ekki stillt upp með öðrum fjölskyldumyndum. Og yfirleitt er maður ekki skælbrosandi að fara í gegnum vegabréfaskoðun, þess vegna finnst mér stórfurðulegt að þurfa að brosa á passamyndum. Mér finnst dálítið sniðugt að þingmaðurinn skuli vera svona pjattaður. Reyndar hef ég einu sinni verið óánægð með mynd í passanum mínum, á henni var ég ískyggilega lík félaga í Bader Meinhof.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?