laugardagur, júlí 08, 2006

 

Við fyrsta hanagal!

Ég vaknaði við hanagal í morgun og hélt að ég væri orðin rugluð eða kannski dáin og þetta væri haninn minn í Himnaríki, því þar ætla ég að búa góðu búi með hamingjusamar hænur, kýr í fjósi og fáeinar kindur og svo auðvitað reiðhest, góðan töltara. Auðvitað datt mér ekki í hug að ég væri á hinum staðnum, enda hanarnir þar örugglega steiktir og steinþegjandi. En svo kom í ljós að þetta var hljóð sem eiginmaðurinn var að vinna með í tölvunni. Hvað sem því líður var virkilega gaman að vakna við eitthvað svona skemmtilegt og óvenjulegt og ég sem er yfirleitt frekar morgunfúl varð fegin að vera ekki dáin og komst strax í ljómandi gott skap. Dreif mig í sturtu og eyddi svo morgninum í það sem vinkonur mínar telja hina örgustu tíma- og líkamsorkusóun, sem sagt að strauja viskustykkin og borðtuskurnar sem ég þvoði í gær og líka eldhúsgardínur sem fengu að fljóta með í þvottinum og þarf auðvitað að strauja. Og nú ætla ég að þvo eldhúsgólfið og þrífa baðherbergið svolítið og kannski fer ég aðeins yfir stofugólfið með rykmoppu og þurrka af. Gallinn við blessaða sólina er að óhreinindin koma svo gjörla í ljós þegar hún skín inn til manns. Svo er fólk að ergja sig yfir rigningunni en áttar sig ekki á að þá berst ekki nærri eins mikið ryk inn og mun auðveldara er að hafa snyrtilegt heldur en í sólinni. Allavega fyrir okkur sem búum uppi á 4. hæð og slabbið og bleytan verður eftir í stiganum svo nágrannarnir þurfa að þrífa það, ha, ha, ha, aumingja þeir! Enda brosi ég alltaf ákaflega blítt og býð góðan dag þegar ég mæti þeim.
Í kvöld eigum við svo von á frumburðinum með allt sitt slekti í mat og auðvitað duga ekki minna en tvö lambalæri ofan í mannskapinn. Og ef eitthvað verður eftir höfum við hjónin ekkert á móti því að eiga lambakjöt í kæliskápnum til að narta í á morgun. Sem sagt þetta verður væntanlega hin ágætasta helgi.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?