miðvikudagur, júlí 26, 2006

 

Svartklæddi maðurinn og Ástarsaga úr fjöllunum

Í gær tókum við hjónin tvær DVD myndir á leigu og horfðum á í gærkvöldi. Önnur var Walk the Line - ævi Johnnys Cash - og hin Brokeback Mountain. Það er skemmst frá því að segja að Walk the Line var hreint frábær og ég horfði frá upphafi til enda án þess að láta truflast af neinu. En ég verð að viðurkenna að ég er ekki eins hrifin af Brokeback Mountain eins og allir aðrir virðast vera. Landslagið í myndinni var auðvitað ægifagurt og margt fleira ágætt, en mér tókst aldrei að fá neina samúð með aðalpersónunum. Ég fann eiginlega mest til með eiginkonugreyinu sem tók svo saman við búðarlokuna - fann traustan mann en áreiðanlega hrikalega leiðinlegan. Og ég skildi aldrei af hverju hún var að bjóða sínum fyrrverandi í mat á þakkargjörðardaginn. Kannski til að þakka fyrir að vera laus við hann, hvað veit ég? En sem sagt, þá hefur mér tekist að sjá þessar tvær myndir eins og ég var búin að einsetja mér. Eiginmaðurinn er að spyrja hvort ég vilji koma með sér í bíó að sjá Captain Jack Sparrow og sjóræningjana í Karíbahafinu en ég er dauðhrædd um að verða fyrir vonbrigðum og þá sé ég svo eftir peningunum. Annars stendur Johnny Depp auðvitað alltaf fyrir sínu. Sé eftir að hafa ekki keypt dagatal 2007 með honum á Ítalíu.
Nú er Rauðhylltingagleðin á laugardaginn og vonandi verður þokkalegt veður og góð mæting. Við mætum allavega galvösk enda þótt eiginmaðurinn sé að bíða eftir að fá úrskurð um hvað gert verður við nýrnasteininn sem er að angra hann - hann gengur fyrir verkjalyfjum þessa dagana. Fer í myndatöku á föstudagsmorguninn og hittir svo lækninn til skrafs og ráðagerða seinnipartinn. Meira um það seinna.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?