laugardagur, júlí 01, 2006

 

Þau sem keyra á umferðaskilti eru heimskingjar

Að þessari niðurstöðu komumst við hjónin í ökuferð okkar áðan suður í Straum. A. m.k. held ég að það sé samhljóða niðurstaða. Eiginmaðurinn hóf máls á því hvað það væri asnalegt að koma fyrir umferðaeyju með skilti á miðri götu en ég benti á að það væri trúlega gert til að draga úr umferðarhraða og framúrakstri. Hann kom með þau mótrök að kannski væri maður á eftir einhverjum sem æki lúshægt (eins og oft hefur pirraði mig á Nesveginum) og ákvæði að taka fram úr og þá allt í einu blasti bara við skilti og --búmm! En gæti þá ekki alveg eins blasað við manni bíll sem væri að koma á móti? Er ekki grundvallarregla að taka ekki fram úr nema vera viss um að gatan framundan sé "auð og hindrunarlaus"? Og þar sem ég fullyrti að aðeins heimskingjar ækju á svona umferðaskilti og hann væri enginn heimskingi og hefði þar af leiðandi aldrei ekið á skilti, held ég að hann hafi verið sammála þessum rökum mínum. En nú verð ég auðvitað að passa mig á að aka ekki á umferðaskilti á eyju því þá er ég auðvitað alger heimskingi!
Annars var ferðin í Straum verulega skemmtileg. Þar var verið að opna listamiðstöðina Víkingahringinn og þar var margt að sjá og ljúfar veitingar voru á boðstólum, sem gældu við bragðlaukana og runnu ljúflega niður. Nú erum við komin heim, kartöflurnar að bakast í ofninum og bráðum verður nautakjötið sett á grillpönnuna. Uppáhaldsrauðvínið sem ég keypti í fríhöfninni bíður á sínum stað. Verði okkur að góðu!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?