þriðjudagur, júlí 24, 2007

 

Haldið þið ekki...

að ég hafi látið verða af því að fá mér nýjan GSM síma. Gullfallegan, kampavínsgylltan samlokusíma með öllum huganlegum fúnksjónum og bæði fyrir evrópska og ameríska kerfið. Ég get þá alltént hringt í 911 ef ég skyldi fá slæmt sykurfall einhvers staðar á sléttum Minnesota eða Manitoba. En að öllu gamni slepptu finnst mér ákveðið öryggi í því að vera með síma sem virkar þarna vestanhafs. Gripurinn er með myndavél og ég er meira að segja búin að taka mynd af eiginmanninum við vinnu sína og senda honum á MMS - og það tókst. Nú tekur það mig næsta árið að læra á hann, (þ.e. símann, ekki eiginmanninn, ég hef haft rúm fjörutíu ár til þess), en ég hef ekki nema viku til að læra það allra nauðsynlegasta, því við leggjum í hann á fimmtudaginn í næstu viku. Það er búið að prenta boli á mannskapinn og sömuleiðis til að færa eftirvæntingarfullu frændfólki sem bíður okkar með óþreyju. Þeir eru off white og á bringunni stendur RAUÐHYLTINGAR (með rauðum stöfum að sjálfsögðu) á bakinu með heldur stærri stöfum: The Red Hill Gang. Við sýndum og seldum gripina í gærkvöldi í Lystihúsinu við Kaffi Flóruna í Laugardalnum og þar var stanslaust hlegið í tvo tíma. Það verður pottþétt gaman hjá stórfjölskyldunni þessa daga!
Og ég á lítið eftir af því sem ég þarf að klára áður en ég fer svo ég þarf engar áhyggjur að hafa.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?