mánudagur, júlí 02, 2007

 

Komin heim á ný með enn slitnari skó!

Árlega útilegan og ættarmótið í Fannahlíð um síðustu helgi tókst frábærlega vel. Hátt í sextíu manns voru mættir og talsverður fjöldi tjaldaði - aðrir fóru heim um kvöldið. Akureyrarfjölskyldan mætti eins og hún lagði sig og Reykjavíkurunglingarnir tveir komu með okkur gömlu hjónunum, sem sagt allir í okkar fjölskyldu sem voru á landinu mættu. Og það var hlegið og sungið og talað og að sjálfsöðgu borðað af bestu lyst! Veðrið var auðvitað stórkostlegt og gaman að sitja úti á flöt og drekka síðdegiskaffi á laugardeginum. Og gúllassúpan mín í hádeginu á sunnudag gerði sig býsna vel. En það var líka gott að komast heim og fara í sturtu og fá sér síðan svolítinn beauty sleep. En nú tekur alvara lífsins við, ekki nema mánuður þar til við förum til Kanada (eða Kanödu) og ég þarf að ljúka allavega sex vikna verkefnum á þeim tíma svo það verður ekki mikið útstáelsi á mér þangað til. Reyndar ætluðum við hjónin að reyna að komast á Búðir í tvo daga þegar Jón verður búinn í sínu verkefni - við sjáum til. Það er bara heldur seint að fara ekki fyrr en eftir miðjan ágúst, en þá er auðvitað hægt að fara í bláber uppi í Eysteinsdal, nú vitum við orðið hvar besta berjamóinn þarna er að finna!
Annars er þetta blogg mitt farið að vera frekar leiðinlegt, ég er að verða svo fjandi andlaus. Auðvitað er aldrei að vita nema það lagist þegar öllu þessu djammi og ferðalögum lýkur!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?