laugardagur, október 28, 2006

 

Hvalveiðar

Ég hef velt vöngum fram og til baka yfir hvalveiðunum sem hafnar eru á ný og hef loksins komist að því að ég tel þetta mistök, enda þótt mér þyki súrt rengi hinn besti matur og rétt tilreitt hvalkjöt hin ljúffengasta steik. Reyndar var ég á sínum tíma alfarið á móti því að láta taugaveiklaða útlendinga (hef aldrei kunnað við orðið "móðursjúkir") ráða því hvernig við nýtum okkar náttúruauðlindir og verð að viðurkenna að mér finnst fólk sem ættleiðir hvali ekki beinlínis stíga í vitið. Og ég varð yfir mig hneyksluð þegar haft var eftir sjávarútvegsráðherra Breta í Mogganum að það væri hroðalegt að sjá hvernig þetta glæsilega dýr (langreyðurin) væri dregið í land þar sem því væri slátrað til skemmtunar fyrir blóðþyrsta áhorfendur. Mjög trúlega er ekki þetta ekki rétt haft eftir eða ekki rétt þýtt, því varla heldur maðurinn að við séum í kúrekaleik og snörum hvalina á hafi úti og drögum þá svo í land til slátrunar? Ég gréti líka þurrum tárum tæki einhver sig til og myndi sökkva Sea Shepherd, ef mannbjörg yrði. En þrátt fyrir þessar skoðanir mínar held ég að fyrst við létum undan á sínum tíma séu það reginmistök að byrja á þessu aftur. Þetta skiptir engu fyrir þjóðarbúið og eiginlega engu fyrir neinn nema Kristján Loftsson og það væri trúlega betra að við borguðum honum fyrir að láta þetta vera, þótt ég auðvitað, sem fyrrverandi Hafnfirðingur, standi með Stjána Lofts (svona að vissu marki).
Ég hef líka heyrt að nú séu útlendingar farnir að koma hingað á haustin til að fara í göngur og taka þátt í réttunum - og borga trúlega dágóða upphæð fyrir skemmtunina. En gerir það fólk sér þá ekki grein fyrir að fallegu dilkarnir sem skoppa um heiðarnar eru svo reknir í sláturhúsið og étnir? Ég bara spyr.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?