mánudagur, október 23, 2006

 

Matur og magadans

Ég hef ekki bloggað mikið að undanförnu, sem aðallega stafar af miklu annríki. En mér tókst samt að klára allt sem ég hafði sett mér á réttum tíma fyrir helgina og á föstudagskvöldið skellti ég mér með BPW vinkonum mínum austur að Minni Borg í Grímsnesi þar sem við dvöldum fram á sunnudag í góðu yfirlæti í sólskini og blíðu. Á laugardaginn drifum við okkur um hádegisbilið til að skoða Sólheima en það verður að segjast að við urðum fyrir talsverðum vonbrigðum því þar sást ekki hræða á ferli og allt var lokað. Kaffihúsið átti að opna klukkan tvö, verslunin klukkan þrjú og kertagerðin eitthvað um svipað leyti. Þarna er vissulega fallegt og friðsælt og það var ósköp indælt að ganga þarna um, en konur vilja auðvitað alltaf komast í búð til að skoða og jafnvel kaupa. Svo við drifum okkur bara til baka í bústaðina og klukkan þrjú vorum við mættar í félagsheimilið þarna, þar sem við fengum kennslu í indverskri matargerð (ég er allavega útskrifuð með meirapróf í lauksteikingu). Það var býsna skemmtilegt og maður fræddist heilmikið um alls kyns krydd og aðferðir sem tengjast þessari matargerð. Shabana, sem var kennarinn okkar, var líka skemmtileg og auk þess að kenna okkur að elda mat kenndi hún okkur indversk sönglög. Að eldamennskunni lokinni settumst við að sjálfsögðu niður og borðuðum framleiðsluna og hún var rosalega góð. Mikið af grænmetisréttum og góðum karríréttum (en karrí er bara samheiti sem notað er á Vesturlöndum yfir ýmsar kryddblöndur). Og þegar við vorum pakksaddar af góðgætinu vorum við drifnar í magadans, tvær dansmeyjar mættu á svæðið og sýndu okkur kúnstirnar og svo urðum við allar að spreyta okkur. Ég lýsti því yfir að í næsta fjölskylduboði yrði aðalnúmerið "amma sýnir magadans" - veit reyndar ekki hvað fjölskyldan segir um það!
Þegar ég var svo komin heim á sunnudaginn hringdi sonurinn á Akureyri og sagði að siglingakappinn væri að koma heim eftir Svíþjóðarferðina og þyrfti að fá gistingu eina nótt, sem var auðvitað sjálfsagt, enda gisti hann hjá okkur nóttina áður en hann fór út. Drengurinn birtist svo undir miðnættið alsæll með ferðina og sagðist hafa lært alveg heilan helling. Og bætti við að þeir hefðu verið vaktir klukkan sjö alla morgna og drifnir út að hlaupa fyrir morgunmat. Mér heyrðist hann samt ekki ætla að leggja það í vana sinn að öllu jöfnu. Honum var svo skutlað á flugvöllinn til að taka vél til Akureyrar klukkan tvö.
Man ekki eftir fleiru í bili - lifið heil.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?