miðvikudagur, október 04, 2006

 

Erfitt

Gærdagurinn var erfiður. Þannig er að vinkona mín og kórsystir hafði verið afar lasin allt síðastliðið ár, þurfti að fara í erfiða aðgerð í fyrrahaust og núna í sumar greindist hún með illkynja æxli í heila. Hún kvaldist sem betur fer ekki neitt en lést 21. september og var jarðsett í gær. Við söngsysturnar sungum við jarðarförina og það er eitthvað það erfiðasta sem ég hef á ævi minni gert. Var eiginlega miður mín í allan gærdag því hún var nánasta vinkona mín í kórnum og við höfðum gott samband og gerðum ýmislegt fyrir utan það að syngja saman. Kórinn hefur auðvitað sungið oftar við jarðarfarir og einu sinni við útför annarar kórsystur en það var einhvern veginn allt annað - hún vildi fara. En þetta fylgir auðvitað lífinu, enginn veit hvenær kallið kemur. Svo var kóræfing í gærkvöldi og við æfðum kafla úr Gloríu Vivaldis - mér fannst hann erfiður en það var gott að einbeita sér að tónlistinni.

Og svo var nú ekki allt jafndapurlegt í gær. Ég hringdi í yngri soninn og co. í gærkvöldi og frétti að siglingakappinn á Akureyri er á leið til Svíþjóðar í keppni! Gott hjá honum. Held allavega að það sé keppni, en kannski eru þeir bara að fara til að æfa siglingar. Gaman samt.

Í dag á eiginmaðurinn afmæli og ég er búin að lofa honum að elda uppáhaldsmatinn hans, ostakótelettur. Ætli það verði ekki líka eina afmælisgjöfin, hann vantar ekki neitt og ég get ekki fundið upp á neinum hégóma til að gefa honum.
Meira seinna, lifið heil.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?