fimmtudagur, september 28, 2006

 

Dapurleiki

Í dag er svartur dagur í Íslandssögunni, dapurlegt til þess að vita hvað verið er að gera fyrir austan. Og allt fyrir einhver 400 störf og svo þegar betra orkuverð býðst annars staðar lokar Alcoa bara búllunni og flytur sig. Mig langar að nefna sem dæmi að verkefnið Auður í krafti kvenna stóð í 3 ár og varð til þess að stofnað var 51 fyrirtæki og við það urðu til 217 ný störf. Í allt kostaði verkefnið 250 milljónir, en til samanburðar má geta að Kárahnjúkavirkjun mun kosta 250 milljarða og skapa 400 ný störf. Hefði ekki verið hægt að fara af stað með eitthvað slíkt verkefni fyrir austan? Það hefur verið sagt við mig að ég geti ekki haft skoðun á þessu máli þar sem ég hafi aldrei komið á þetta svæði. En ég hef séð myndir þaðan (ófótósjoppaðar)og það nægir mér. Ég sá heldur aldrei Búddalíkneskin sem Talíbanarnir brutu niður um árið, bara myndir af þeim, en samt fannst mér verið að fremja stórglæp. Það vakti líka alþjóðaeftirtekt þegar Aswan stíflan var reist á sínum tíma og þá tókst með mótmælum að bjarga ýmsum ómetanlegum fornminjum. Má ekki líka með sanni kalla hina ósnortnu náttúru Íslands ómetanlegar fornminjar? Ég bara spyr.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?