fimmtudagur, september 28, 2006

 

Að strauja orðabækur

Fljótlega eftir að ég byrjaði að starfa sem þýðandi festi ég kaup á ensk-íslensku orðabókinni sem var gefin út af Erni og Örlygi árið 1984. Ég fékk hana þá á fornsölu fyrir tiltölulega lítinn pening vegna þess að kápuna vantaði á hana, en auðvitað jaskaði ég henni út þannig að spjöldin duttu af henni og fljótlega voru komin hundseyru á síðurnar og hún farin að líta frekar druslulega út. Þá blöskraði eiginmanninum þetta og hann tók sig til og strauaði blaðsíðurnar sléttar. Ætli það séu ekki svona 7 eða 8 ár síðan og bókin hefur þjónað mér vel, en nú var farið að sækja í sama farið, ef ekki enn verra en áður en hún var sléttuð á sínum tíma. Og auðvitað blöskraði eiginmanninum þetta enn á ný, en nú tók hann sig til að keypti stífelsisúða í Hagkaupum (spray-stífelsi) og úðaði á hundseyrun og sléttaði mjög huggulega. Bókin er 1241 blaðsíða og þetta tók nokkra daga en nú liggur gripurinn hér á borðinu hjá mér, slétt og felld. Ef hann verður svo spurður hvað hann hafi gert skemmtilegt um síðustu helgi getur hann svarað: "Ég straujaði orðabókina."

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?