laugardagur, september 02, 2006

 

Snæfellsnes

Við komum heim seinnipartinn í dag eftir frábæra tveggja daga vist á Búðum. Ég sný ekki aftur með það að það stafar einhverjum krafti frá jöklinum. Allavega fannst mér ég fyllast orku um leið og ég mætti á staðinn. En í þetta sinn fengum við ekki herbergi 17 heldur herbergi 14, sem er bara standard herbergi. Það er ekkert hægt að setja út á sjálft herbergið, en það angraði okkur talsvert að það var svo mikil klóaklykt á baðinu. Skýringin kom í morgun þegar ég orðaði þetta um leið og við tékkuðum okkur út og gerðum upp. Það hafði komið upp stífla í lögnunum á þessu herbergi og þrátt fyrir að einhver stíflusérfræðingur hefði komið og gert eitthvað var það greinilega ekki nóg. Veðrið lék við okkur, við hefðum ekki getað verið heppnari. Í gær byrjuðum við daginn á að aka út á Arnarstapa þar sem við lögðum bílnum og gengum síðan yfir að Hellnum, sem er svona á að gista klukkutímaganga. Við vorum samt eitthvað lengur því það var svo mikið af berjum á leiðinni, alveg við göngustíginn, að það var ekki hægt að standast mátið. Vorum nokkuð þreytt þegar við komum í Fjöruhúsið á Hellnum, þar sem við vörpuðum mæðinni og fengum okkur Swiss Mocca. Síðan gengum við aðeins um á staðnum - höfum reyndar skoðað flest allt þar áður - og enduðum svo aftur í Fjöruhúsinu þar sem við fengum þessa líka frábæru fiskisúpu og heimabakað brauð áður en gengið var til baka. Ég verð að viðurkenna að ég var ansi hreint þreytt í fótunum. Eftir þetta afrek var svo ekið yfir á Hellissand og þaðan til Ólafsvíkur þar sem við fengum okkur kaffi í bakaríinu eins og er fastur liður þegar við komum á þessar slóðir. Ég verð að segja að mér finnst afar merkilegt að í þessu litla sjávarplássi skuli vera svona frábært bakarí - konditori. Og svo keypti ég auðvitað hálandabrauð þar til að taka með heim. Þegar komið var aftur að Búðum beið okkar "óvæntur glaðningur" á herberginu og það var geysilega notalegt að fleygja sér upp í rúm með bók og freyðivínsglas og slaka á fram að kvöldverði eftir kenjum kokksins. Komumst reyndar að því í þessari ferð að "kenjar kokksins" eru að hann ræður hvenær fólk fær matinn. Við þurftum bæði kvöldin að bíða ansi hreint lengi á milli rétta.
Í morgun var talsvert hvasst en við létum það ekki á okkur fá og skruppum í gönguferð um Búðafjöru áður en við tókum saman og tékkuðum út. Og enn bættist við steinasafnið sem ég hef verið að koma mér upp úr fjörunum á Snæfellsnesi. Líklega þarf ég að fara að finna einhverja huggulega skál undir grjótið.
En sem sagt, tveir frábærir dagar að baki og á morgun þarf ég að vinna.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?