sunnudagur, júní 19, 2005

 

Áfram, stelpur!

Í dag er 19. júni og 90 ár síðan íslenskar konur fengu kosningarétt, þá var móðir mín 15 ára. Hún sagðist muna vel eftir fyrstu kosningunum eftir að kosningarétturinn fékkst og verið alveg hissa á að sumar konur vildu ekki nota hann. Vel að merkja voru það aðeins konur 40 ára og eldri sem nutu þessa réttar fyrstu fimm árin, það var ekki fyrr en 1920 sem konur fengu sama rétt og karlar. Þetta væri auðvitað alveg frábært ef árangurinn eftir 90 ár væri aðeins sjáanlegri. Baráttumálin í dag virðast mikið til þau sömu og fyrir 30 árum, þegar ég fór að taka þátt í kvennahreyfingunni, t.d. sömu laun fyrir sömu vinnu og fleiri konur í valdastöður. Fyrir 30 árum heyrðist líka krafan um jafnan rétt og jafna möguleika til menntunar, það virðist þó hafa unnist, a.m.k. eru stúlkur núna meirihluti nemenda við Háskóla Íslands svo kannski tekst þeim að breyta einhverju til batnaðar á sínum ferli. Við rákum líka áróður fyrir því að karlar tækju jafnan þátt í heimilisstörfum og barnauppeldi, þar hefur sem betur fer orðið mikil breyting á held ég. En ég verð samt að viðurkenna að ég er orðin ansi þreytt á baráttunni, nú er komið að næstu kynslóð að halda áfram. Þess vegna ætla ég að sleppa því að mæta á Þingvöll í dag en áfram stelpur! Alls ekki að gefast upp!

Hvernig er það annars, er ekki lenska að það sé rok og rigning 17. júní?
Manni varð bara um og ó í veðurblíðunni í fyrradag. Við hjónin tókum einn rúnt um miðbæinn upp úr hádeginu áður en mestu lætin hófust og ég þekkti mig varla. Alls staðar voru borð úti þar sem fólk sat léttklætt í sólinni við hvert einasta borð, allavega gátum við hvergi fundið sæti til að skella í okkur eins og einum kaffibolla eða ölglasi. Við fórum því bara heim og nutum dagsins á svölunum þar til komið var mál að undirbúa matarboðið, sem var svo sem ekkert mikið vesen. Lambahryggi skellt í ofninn ásamt stórum bökunarkartöflum og hrásalat rifið niður. Þegar allt hafði verið þar í eins og klukkutíma var löguð frábær sósa (m.a. með smáslummu af rúsínusinnepinu sem ég keypti hjá fröken Friis á Jótlandi). Svo var bara borðað og setið og spjallað. Brutum reyndar regluna um að ræða hvorki trúmál eða stjórnmál og ræddum hvort tveggja og síðan urðu allir sammála um að vera ósammála og skáluðu fyrir því. Þessu ágæta samsæti lauk svo einhvern tíma á 3. tímanum eftir miðnætti að ég held.

Ég veit ekki hvort það er sumarið og veðurblíðan en ég finn ekki neitt til að nöldra um núna.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?