þriðjudagur, júní 14, 2005

 

Long time, no blog!

Það er orðið langt síðan ég hef látið ljós mitt skína og auðvitað er frá æði mörgu að segja. Þann 4. júní fórum við Ella sem sagt til Danmerkur, nánar tiltekið Jótlands, að heimsækja Vallý og höfðum það frábærlega skemmtilegt í heila viku. Við fórum vítt og breitt, þvers og kruss um norður- og austurhluta Jótlands og þótt ég hafi þrisvar áður komið út á Jótland hef ég aldrei séð eins mikið og núna. Á sunnudaginn fórum við á nokkra markaði, fyrst á markað þar sem fólk var að selja ýmislegt sem það annað hvort býr til eða var að losa úr geymslunni. Hann var reyndar ekkert sérlega merkilegur en gaman að sjá hann. Svo var farið á stóran innimarkað sem er svona blanda af antík- og flóamarkaði. Virkilega gaman að labba þar um og skoða. Það munaði engu að ég keypti 2 stk. Butlers Tray, virkilega fína og gamla, fyrir tvöþúsund danskar, en sá svo að ég kæmi þeim aldrei heim öðruvísi en að borga stórfé í flutningsgjald og toll svo það varð ekkert úr því. Á mánudaginn gerðum við úttekt á tískubúðunum í Silkiborg en gerðum ekki mikil innkaup, enda var ég ekkert í þeim hugleiðingum. Á leiðinni þangað fórum við reyndar fyrst í furðulega búð í gamalli hlöðu langt uppi í sveit, þar sem alls kyns föt voru á boðstólum á mjög góðu verði. Þar festi ég kaup á sumarjakka og hversdagsbuxum og voru það lengi vel einu fatakaupin mín. Þriðjudagurinn var svo tekinn í ferð norður til Skagen og það var sko skemmtilegt. Merkilegast fannst mér að koma á Skagen Odde þar sem Skagerak og Kattegat mætast. Undarlegt að sjá strauminn koma úr báðum áttum og öldurnar skella saman við tangann. Eins var skrýtið að sjá Den tilsandede kirke, sem er stór kirkja sem grafist hefur í sand þannig að aðeins turninn stendur upp úr. Á miðvikudaginn fórum við til Århus og litum þar á búðir og veitingahús og enduðum svo í litlum bæ þar rétt hjá og hlustuðum á tónleika hjá Skólakór Mosfellsbæjar þar sem Arnhildur mín blessunin var undirleikari. Fínir tónleikar en lélegur hljómburður í kirkjunni. Þá var kominn fimmtudagur og haldið til eyjunnar Mors á Limafirðinum að skoða stærsta blómagarð í Evrópu (Danir segja reyndar í heiminum) sem var stórskemmtilegur. Þar varð ég fyrir þeirri reynslu að fá í fyrsta sinn eldri borgara afslátt! Aðgöngumiðinn kostaði sem sagt kr. 100 en fyrir 60 ára og eldri bara kr. 80. Ég geymi aðgöngumiðann og ætla að kaupa ramma utan um hann! Á föstudaginn var Viborg heimsótt og gerð úttekt á verslunum þar - ég keypti samt ekki neitt. Þótt ég reyndi ítrekað fann ég hreinlega ekkert sem mig langaði í þrátt fyrir að margt æðislegt væri þarna að sjá og Ella mín dressaði sig glæsilega upp fyrir þingið í Lucern. Gott að ég ákvað að fara ekki þangað, annars hefði ég hreinlega lent í vandræðum með fatnað. Um kvöldið dressuðum við okkur upp (jú, ég tók með mér þokkalegt dress) og fórum út að borða á dásamlegan stað uppi í sveit. Hann heitir Knutshule og er eiginlega farfuglaheimlili og líka er hægt að leigja þar smáhýsi og svo er þessi frábæri veitingastaður sem við vorum að sjálfsögðu búnar að kanna áður, svona fínar dömur taka enga áhættu. Á laugardaginn var svo hlustað á jasstónleika á torginu í Silkiborg og markaðurinn sem þar er á laugardögum skoðaður. Þar keypti ég 2,5 kíló af nýjum kartöflum sem ég tók með mér heim. Þegar hljómsveitin fór í pásu stóðum við Vallý upp til að liðka okkur aðeins og haldið þið að ég hafi ekki dottið inn í búð með frábæran fatnað og keypt mér voða lekkeran sumarjakka eða blússu. Ég veit eiginlega ekki hvort heldur ég á að kalla flíkina, held samt að hún sé skyldari jakka. Eftir snemmbúinn kvöldverð hjá Vallý keyrði hún okkur svo aftur til Billund þaðan sem við flugum heim. Það var svo ákveðið að þetta yrði endurtekið að ári. Ég má til með að bæta því við að á kvöldin sátum við þrjár á náttfötunum og spiluðum póker og drukkum koníak. Hvað viljið þið hafa það betra?

En nú er þetta orðið nokkuð langt skrivelsi og ég hef hreinlega ekki neitt til að nöldra yfir eins og er og held að ég láti þetta nægja.

P.S. Ég sagði víst að bíllinn okkar ætti að heita Litla krílið en það er ekki rétt. Hann heitir Litli kútur!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?