mánudagur, júní 27, 2005

 

Mikið lifandis ósköp!

Mikið lifandis ósköp hlýtur Eiríkur Jónsson að þekkja leiðinlegt og ómerkilegt fólk ef aðalumræðuefnið á vinafundum og fjölskyldusamkomum eins og fermingarveislum eru kjaftasögur um náungann. Aumingja maðurinn á bara alveg hræðilega bágt. Ég var að hlusta á hann í Kastjósinu og er í sannleika sagt ekki viss um að hann sé alveg með öllum mjalla. Ég verð að minnsta kosti að játa þegar hann var að vísa í hið fornkveðna að fegurðin sé í auga sjáandans og vitnaði í fyrirsagnirnar sem hafa verið á forsíðu Hér og nú að undanförnu að ég sé ekki fegurð í þeim, aðeins illgirni og ljótleika. Held þess vegna að mat Eiríks á fegurð hljóti að vera hræðilega brenglað og sömuleiðis kímnigáfa hans fyrst fyrirsögnin Bubbi fallinn átti að vera fyndin. Og svo er alltaf spurning hvað manni komi einkalíf annarra við. Og varðandi þetta með að Bubbi átti að hafa fjármagnað laxveiðarnar með því að hætta að reykja held ég að hann sé alveg nógu efnaður til að veiða lax þótt hann hafi byrjað að reykja aftur. Allavega er það ekki Eiríkur Jónsson sem borgar laxveiðarnar hans! En ekki meira um þetta, ég segi bara: Áfram Bubbi, stattu þig!

Annars var ég geysilega upptekin á kirkjudögum um helgina. Kórinn við opnunarhátíðina vakti mikla athygli og lukku. Mér skilst að það eigi að vera framhald á þessu samstarfi og ég verð að segja að þar sem ég syng í tveimur kvennakórum fannst mér rosalega gaman að syngja í svona blönduðum kór. Málstofa Kvennakirkjunnar á laugardaginn tókst mætavel og það var gaman að vera í básnum okkar, ég held að við höfum fengið heilmikla jákvæða athygli. Merkilegt samt að sjá viðbrögð sumra þegar minnst var á feminíska guðfræði. Og mér fannst svolítið sorglegt að heyra unga pilta halda þvi blákalt fram að það væri hlutleysi að ávarpa samkomur í karlkyni. Þeim fannst samt mjög óviðeigandi ef samkomur væru ávarpaðar í kvenkyni. En jafnvel þetta nægði ekki til að koma mér úr góða skapinu allan laugardaginn og ég bjó að því á sunnudaginn þegar við fórum suður í Selvog til að halda messu í Strandarkirkju. Það var yndislegt eins og alltaf og ekki spillti fyrir hvað veðrið var dásamlegt. Svo var þetta fyrsta ferð Litla kúts út fyrir malbikið og hann stóð sig með ágætum á Krísuvíkurleiðinni. Eða er það Krýsuvíkurleiðin? Finn ekki nafnið í orðabók en af hverju ætti ý-ið að vera komið? Ekki er þetta nein krús eða hvað? Svar óskast ef einhver veit hið rétta.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?