mánudagur, október 15, 2007

 

Annir og partí

Þrátt fyrir gífurlegt annríki okkar hjónanna tókum við okkur frí á föstudagskvöldið og brugðum okkur í partí, þ.e. hið árlega haustgrill Hjaltastaðafélagsins. Við Inda frænka erum auðvitað nýjar í því ágæta húsfélagi og það var ekki hægt annað en að bregða sér á samkomuna og hitta fyrir aðra félaga. Við hjónakornin sóttum frænku og síðan var brunað suður í Kópavog þar sem samkvæmið var haldið. Ekki þarf að orðlengja að þetta var frábært kvöld, ljúffeng lambalæri með fínu meðlæti og á eftir kaffi og súkkulaði, Og félagsskapurinn var auðvitað það besta, bráðskemmtilegur og mikið hlegið og fíflast. Það verður örugglega ekki vandamál að vera í húsfélagi með svona góðu fólki, mér sýndist það ekki mjög smámunasamt. Eitt af því sem stungið var upp á í partíinu var að hóa saman Kanadaförunum með skylduliði og þess vegna fleirum og halda smáskrall. Og þar sem það er í tísku að halda októberfest ákváðum við að halda frekar nóvemberfest og auðvitað var undirbúningnum skellt á okkur Indu svo við verðum víst að fara að huga að einhverju skipulagi, reyndar ætlar Inghildur að sjá um myndagræjur svo hægt sé að vera með myndir á diskum til að sýna á skjá. En við sjáum nú til hvað verður úr þessu, það er alltaf svo auðvelt að ákveða, meira vesen að framkvæma.
Nú veitir víst ekki af að vera dugleg að vinna fram í tímann fyrst ég er að fara til Köben á aðventunni, við ætlum nefnilega að vera með aðventutónleika þar. Ég er meira að segja búin að kaupa miða í óperuna og fá þá senda. Ætla að sjá Don Carlos í nýju, fínu óperunni þeirra Kaupmannahafnarbúa. Jón er víst líka að fara til Köben um miðjan nóv. vegna myndarinnar um Jónas svo við förum bæði þangað tvisvar þetta árið en ekki þó saman.
Og svo erum við að spá í að komast saman í frí í janúar, helst að fara í sól og liggja þar með tærnar upp í loftið í viku eða tíu daga.
Nánar um það síðar.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?