þriðjudagur, mars 27, 2007

 

Um ristilhreinsanir og fleira

Á sunnudaginn fór ég á Carmina Burana í Langholtskirkju - það var dásamleg stund. Okkur vinkonunum kom saman um að þetta væri sálarbætandi og gerði miklu meira gagn en að fara í ristilhreinsun til Póllands. Sem ég reyndar skil ekki að nokkur fari í af fúsum og frjálsum vilja.
Og nú er loksins ákveðið að við ætlum að verja páskahátíðinni hjá yngri syninum og fjölskyldu á Akureyri. Mig dreplangar að fara í leikhúsið þar og sjá Lífið notkunarreglur í leiðinni, ég sé að það er sýning á laugardagskvöldið sem við gætum farið á. Verst að hún er á hundleiðinlegum tíma, klukkan sjö, svo annað hvort yrðum við að borða fyrir allar aldir, eða rölta niður í bæ að sýningu lokinni og fá okkur snæðing. Sem er jú auðvitað ekki vitlaus hugmynd. Ég með mína skavanka þyrfti helst að borða kvöldverð á sama tíma alla daga árið um kring, en þetta gæti nú samt verið allt í lagi. Ræði þetta við eiginmanninn þegar hann kemur heim á aftir.
Í kvöld verður löng kóræfing vegna styrktartónleikanna á morgun, ég verð sennilega ekki komin heim fyrr en klukkan að ganga tíu - þá verður kvöldmaturinn snæddur býsna seint. Vona bara að tónleikarnir á morgun heppnist vel og fái góða aðsókn því þetta er fyrir gott málefni. Ljósið, sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinssjúka og aðstandendur þeirra fær allan ágóðann. Meðal þeirra sem koma fram eru Diddú og Stebbi Hilmars svo þetta verður ansi hreint fjölbreytt efnisval.

Að endingu vil ég bara segja að mér fannst þjóðsöngurinn hjá Spaugstofunni á laugardaginn hreint dásamlegur.

"Við erum eitt smáblóm með titrandi tár
sem tilbiður Alcan og deyr."

Hvenær hafa sannari orð verið töluð? Vonandi ber Hafnfirðingum gæfa til að kjósa gegn stækkun álversins á laugardaginn. Mér finnst ranglátt að allir íbúar suðvesturhornsins fái ekki að kjósa, en þess ber að gæta að á pappírunum er verið að kjósa um deiliskipulag í Hafnarfirði.
Lifi Sól í Straumi!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?