laugardagur, mars 31, 2007

 

Þvítþvegin

Ég hef víst ekki alltaf fetað hinn mjóa veg dyggðarinnar að undanförnu og því gekk ég tvisvar til altaris í dag svona til vonar og vara.

Aðrar fréttir eru þær að við hjónin erum að fara í leikhúsið á Akureyri á laugardagskvöldið eftir viku. Sýningin klukkan sjö var uppseld þegar ég loksins kom mér að því að panta miða en búið að setja upp aðra sýningu klukkan hálftíu sem við festum okkur miða á. Svo nú er spurningin hvort yngri sonurinn gefi okkur að borða áður en við förum eða, þar sem ég var búin að blogga um að við myndum borða í bænum eftir sýningu, hann hermi upp á okkur að hafa ætlað á veitingahús og vísi okkur út. Annars er aldrei að vita nema það náist við hann samningar þegar við hittumst. Hins vegar er núna grísabógur að steikjast í ofninum hér á Tjarnarbóli og von á eldri syninum með fjölskylduna í mat á eftir.

Annars er ég viss um að nú er vorið að koma því vordemóninn er byrjaður að kitla mig. Ég er farin að hlakka til Danmerkurferðar í júni, við stöllurnar erum búnar að festa okkur bústað á Norður Sjálandi, rétt hjá Frederiksværk, vikuna 9. til 16. júní. Ég fékk leigusaminginn undirritaðan af hr. Nielsen í pósti í gær og búin að borga helming leigunnar. Við Ella erum svo bókaðar í flug til Köben 8. júni. Ég meira að segja gat notað vildarpunktana og slepp því billega. Vallý kemur með lestinni eftir vinnu föstudaginn 8. júní og við þeysum allar þrjár saman í bústaðinn daginn eftir. Það verður áreiðanlega mikið spilað, mikið farið um og mikið hlegið þessa viku og kannski aðeins sopið á rauðvíni.

Það er óvíst að ég bloggi meira fyrr en eftir páska og því óska ég öllum vinum og velunnurum nær og fjær ánægjulegrar páskahátíðar og vona að þið eigið ljúfar stundir í vændum.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?