þriðjudagur, febrúar 08, 2005

 

Kraftganga

Áramótaheit okkar hjónakornanna var að reyna að þjálfa okkur aðeins upp, okkur fannst við vera að verða eins og gamalmenni og það er nú ekki gott til afspurnar. Til að gera eitthvað í málinu fórum við að stunda kraftgöngu í Öskuhlíðinni með alveg dásamlegum leiðbeinendum. Í fyrstu tímunum vorum við auðvitað móð og másandi og svitinn rann ekki bara af okkur í taumum heldur lækjum. En núna, eftir sex skipti, erum við bara öll að færast í aukana held ég, þótt ekki sjáist þess mikil merki á vigtinni - en góð vinkona mín sagði mér í dag að það tæki þrjá mánuði að fara að sjá árangur. Ég hef það til marks um árangur að við förum alltaf upp sömu brekkuna í lok göngunnar og hún er ekki nærri því eins erfið núna og hún var fyrst. Sem sagt, þetta er alveg frábær hreyfing og góð útivera. Við byrjum alltaf inni í Perlunni og hitum upp, síðan er farið út og arkað um Öskjuhlíðina í um það bil hálftíma og síðan eru gerðar teygjuæfingar í Perlunni í lokin. Það var svolítið skondið í síðustu viku að það var einhver fín móttaka á jarðhæðinni þar svo við þurftum að hita upp og teygja niðri í kjallaranum og urðum síðan að skjóta okkur, kófsveitt og eldrauð í framan, í gegnum allt fína fólkið í móttökunni. Okkur dauðlangaði að vita hvert tilefnið var en tókum ekki sénsinn að vera talin boðsgestir svo við flýttum okkur út! Núna erum við sem sagt nýkomin úr kraftgöngunni og ég er búin að fara í sturtu og komin í náttfötin - og búin að steikja kjötbollur í tilefni dagsins og meira að segja borða þær líka. Ég hef ekkert æft mig fyrir söngtímann á morgun, verð að muna að fara nokkrum sinnum yfir fyrsta kaflann í Vittoria, mio core eins og mér var sett fyrir - ég hef morgundaginn til þess. Reyni að vakna skikkanlega í fyrramálið og vinna eins og manneskja fram að hádegi.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?