laugardagur, febrúar 12, 2005

 

Tíðindalaust vestur á Nesi

Vaknaði í morgun um hálftíuleytið og fékk vatn í munninn þegar ég fann þessa líka indælu bökunarlykt. Ég vissi að Jón hafði ætlað að taka heita croissants með í vatnslitatímann og dauðsá eftir að hafa ekki beðið hann að baka einn handa mér líka. Haldið þið svo ekki að þessi elska hafi gert það alveg hreint óbeðinn - ég er viss um að hann hefur fundið hlýja strauma frá mér þegar ég settist niður með blöðin og nýlagað kaffi og croissant með smjöri og osti. Frábært upphaf að laugardegi. Eftir að hafa flett yfir blöðin og leyst krossgátuna í Lesbók Moggans æfði ég mig svolítið fyrir tímann á eftir. Eitt örlítið, venjulegt tónbil í Med en primula veris þvælist skelfilega fyrir mér en ég SKAL ná því í tímanum í dag. Ég hef margoft sungið þetta lag og þetta hefur aldrei þvælst neitt fyrir mér áður svo ég hlýt að geta losað mig við þessa meinloku. Eiginlega ætluðum við Ella og Vala að taka Laugavegsrispu í dag en í gær ákváðum við Ella að fresta því og ég lofaði að tala við Völu og láta hana vita. Ákvað svo að bíða með það þar til hún kæmi heim úr vinnunni og þar með gleymdist það með öllu. Ég hringdi svo til hennar núna um hádegið og þá hafði hún fastlega reiknað með að rispunni væri frestað og var búin að panta sér miða á African Sanctus í Neskirkju klukkan sex og það varð úr að ég ákvað að fara með henni. Ég hafði einmitt séð tónleikana auglýsta og dauðlangaði að fara en framkvæmdirnar eru aldrei í líkingu við löngunina þegar um eitthvað svona er að ræða. Sem sagt í dag eru það tónleikar klukkan sex og á morgun sextugsafmæli Dídíar. Nóg að gera þessa helgina.
Eins og sést tókst mér að koma dagsetningunum yfir á íslensku. Það var reyndar með hjálp Daníels, ég vissi það alveg að hann gæti leiðbeint mér. En mér tókst ekki að fylgja leiðbeiningum hans við að setja upp linka svo það verður að bíða betri tíma. ÞaÐ getur hugsast að hann gisti hjá okkur eina nótt um næstu helgi því þá verður hann á einhverju kennaraþingi á Selfossi - var að bjóða sig fram í stjórn Kennarasambandsins og þá er eins gott að mæta.

Annars var aldrei ætlunin að þetta blogg mitt yrði nein dagbók, málið er að mér hefur bara ekki dottið neitt annað í hug en nú er Kalli prins búinn að tilkynna að hann ætli að kvænast Kamillu sinni í vor og var nú bara tími til kominn. Ég var að lesa að þau hafi kynnst fyrir 35 árum en ekki fengið að eigast af því hún var ekki nógu fín. Hvað ætli það hafi svo gert margar manneskjur óhamingjusamar og sorgmæddar? Andsk. rugl þetta. Annars hef ég heyrt kenningu um að Karl sé í raun og veru hommi og Kamilla klæðskiptingur, en hún er auðvitað fundin upp af einhverjum körlum sem finnst Kamilla ekki nógu sæt og kvenleg. Og hvað með það? Kemur það nokkrum við fyrst Kalli er ánægður með hana og hún með hann. Hann er svo sem ekkert kyntröll sjálfur.
En nú rausa ég ekki meira í bili.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?