sunnudagur, febrúar 06, 2005

 

Fyrsta bloggið

Í dag tók ég ákvörðun um dálítið sem ég hef lengi verið að hugleiða, sem sagt að byrja að blogga. Undanfarna mánuði hef ég skoðað ótalmargar bloggsíður, sumar mjög athyglisverðar, þar er fjallað málefnalega um það sem er efst á baugi og margt skemmtilegt þar að finna. En það sem ég er svolítið hissa á er hversu margir nota bloggið bara til að skammast út í allt og alla, það er eins og sumir líti aldrei glaðan dag og burðist með allan heiminn á herðunum. Ég heiti því þess vegna að dreifa aðeins birtu og gleði á síðunni minni, en svo dett ég kannski ofan í sama ruglið og hinir og byrja að rífast og skammast. Annars kann ég ekkert á þessi ósköp og er ekki einu sinni viss um að koma þessu skammlaust frá mér - ætli ég verði ekki að hringja í yngri soninn til að fá leiðbeiningar!

Þessi dagur hefur svo sem verið ágætur, ég steinsvaf til klukkan hálfellefu þegar bóndinn ræsti mig og síðan var farið í Sundlaug Seltjarnarness eins og er fastur liður á sunnudagsmorgnum. Þegar heim var komið tók ég mig til og bakaði helling af vatnsdeigsbollum svo nú ætti að vera nóg til af bollum fyrir morgundaginn - en af gamalli reynslu býst ég við að þurfa að baka smáskammt í viðbót á morgun, það er svo merkilegt hvað þessar krásir eru fljótar að hverfa en það er auðvitað álfinum í kæliskápnum að kenna. Hann á það til að borða það sem stungið er inn í skápinn til geymslu.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?