miðvikudagur, febrúar 23, 2005

 

Hvað er þetta með okkur?

Hvað er þetta með okkur hjónin að vera vitlaus í raunveruleikaþætti í sjónvarpinu? Það var næstum eins og jólin í gær þegar Survivor byrjaði aftur - það liggur við að ég sé búin að ákveða með hverjum ég held og hverja ég þoli ekki. Svo tókum við Blokkina upp og mikið rosalega fer snobbaða líkamsræktarparið í taugarnar á mér. Þau voru svo spæld yfir að vera ekki boðin í brúðkaupið hjá hinum að þau urðu að halda stórpartí í garðinum fyrir fínu vinina og ættingjana! Ha, ha, ha! Minnti mig á: „Þau eru súr,“ sagði refurinn. Núna áðan stóð ég mig að því að hlusta með athygli á strákana í American Idol og ákveða yfirvegað hverjir mér finnst að eigi að detta út og nota svo tímann þar til það kemur í ljós til að skrifa þetta blogg. Og ekki má svo gleyma Amazing Race, sem ég hef reyndar ekki horft á fyrr en núna og þá bara af því ég vildi sjá fyrsta þáttinn sem var tekinn hérna. Ég vil endilega að fríkið sem er alltaf að skamma konuna sína tapi. Ég held að hún hljóti að sparka honum um leið og þau detta út úr keppni, ef ekki fyrr. Ég þekki svo sem fólk sem er ekki ólíkt honum og snobbaða parinu í blokkinni. Sumir standa einfaldlega í þeirri trú að þeir séu betri en allir aðrir og það er því miður sjaldan hægt að leiðrétta. Auðvitað er ekki eðlilegt að liggja svona í þessum þáttum - við sem alla jafna höfum talið okkur sæmilega skynsamt fólk. Ég held að ég verði að fara að endurskoða það álit mitt á okkur hjónakornunum. En nú er þetta farið að vera nöldur svo ég ætla að hætta því. Annars er því við að bæta að ég er ekki enn lögst yfir Next topmodel en ef það gerist held ég að ég verði að leita til sálfræðings!

Þrotin að kröftum!
Ég kom heim þrotin að kröftum eftir kraftgönguna í dag, þvílíkt púl, maður minn. Ég sem hélt að ég væri öll að styrkjast! Líklega verð ég að endurskoða líkamlega ástandið jafnt því andlega! Það var verið að tala um að fara í gönguferð um Hornstrandir í sumar og mikið svakalega væri gaman að fara með í hana. Það verður bara að koma í ljós eftir því hvenær verður farið og hvað það kemur til með að kosta. Ætli það sé ekki best að byrja á fjöruferðinni um aðra helgi og sjá til hvernig maður verður eftir hana.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?