fimmtudagur, febrúar 17, 2005

 

Ys og þys - ekki út af engu

Það er búið að blása kórferðina af. Ég sé eiginlega ekkert eftir því, enda var ég aldrei ákveðin í að fara og það kom í ljós að áhuginn var ekki nógu mikill, ekki nema ca. 1/3 af kórnum sýndi áhuga. Í staðinn verður væntanlega farið eitthvað í haust eða í febrúar-mars á næsta ári og mér finnst það líka miklu betri tími. Magga nefndi til dæmis að okkur stæði til boða að halda tónleika í New York, einhverri kirkju á miðri Manhattan, og hugsanlega líka á Guggenheim-safninu og það finnst mér brjálæðislega spennandi! Auk þess er dollarinn svo hagstæður núna að það yrði hræódýrt að fara í aðra Ameríkuferð - ekki eins og síðast þegar hann var rúmar hundrað krónur.
En nóg um það - í bili allavega.

African Sanctus tónleikarnir á laugardaginn voru frábærir í einu orði sagt. Höfundurinn, David Fanshawe, notar upptökur frá Afríku undir eigin tónsmíðar, latneska messu með öll tilheyrandi, sanctus, kyrie, gloria, credo, crusifixus og Agnus Dei. Meiri háttar flott samsetning og svo söng Diddú einsöng og hún stendur að sjálfsögðu alltaf fyrir sínu. Á sunnudag var svo sextugsafmæli Dídíar með miklu fjöri og flottum veitingum. Ég gæti hugsað mér afmælið mitt eitthvað í þessa veru ef ég held upp á það. Á mánudagskvöldið var samsöngur í Domus Vox, ég tók Till There Was You og fékk held ég bara góða umsögn. Ekki mikla krítik á sönginn en góðar ábendingar varðandi túlkunina. Á þriðjudagskvöldið eftir kóræfingu tók við dömu- og daðurnámskeið hjá Helgu Brögu. Ég ætti að vera útskrifuð í fræðunum þar sem þetta er annað námskeiðið sem ég er á hjá henni. Svo setur fólk upp undrunarsvip þegar ég segi frá því! Í gærkvöldi var svo kertaljósafundurinn hjá BPW, hátíðlegur og flottur eins og alltaf. Jóna Hrönn miðborgarprestur var með fyrirlestur og fór á kostum - hún er alveg bráðskemmtileg og svo lifandi og sjarmerandi manneskja.

Nú, sem sagt er komin ró yfir mig og ég er alveg dauðfegin að geta verið heima og þurfa ekki að fara nokkurn skapaðan hlut - við hjónakornin fórum í sund í dag og ég get svo svarið að ég er viss um að vigtin í sundlauginni er snarbiluð! Hún stenst bara alls ekki. Annars grunar mig að einhver spellvirki sitji um að fikta í henni þegar hann sér mig mæta í sund og horfa svo á mig í gegn um falda myndavél og skellihlæja þegar hann sér fýlu- og undrunarsvipinn færast yfir andlitið á mér.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?