fimmtudagur, febrúar 10, 2005

 

Sprengidagur seint og um síðir

Í gær var sprengidagur en þar sem ég fór í söngtíma klukkan fjögur og svo á kóræfingu strax á eftir var ekki eldað saltkjöt og baunir á þessu heimili. Í söngtímanum fór ég rétt aðeins í lagið sem ég var að fá, Ich Liebe Dich eftir Beethoven (eða Ludvig van) og nú reyni ég að æfa það heima fyrir næsta tíma ásamt Vittoria, mio core. Annars var ég hálfþreytt og illa upplögð svo mér gekk ekki sérlega vel í tímanum. Og vegna þess að ég þarf að bíða í hálftíma þar til kóræfingin byrjar hef ég verið svo elskuleg að taka að mér laga kaffi fyrir kórinn en haldið þið ekki að helv. kaffivélin hafi tekið upp á að stríða mér. Það tókst samt að laga á eina könnu áður en æfingin hófst og ég setti aðra af stað til að hafa tilbúna í hléinu en þá hafði vélin klikkað aftur. Merkilegt nokk náði ég samt einum bolla í pásunni! Á æfingunni var aðeins rætt meira um hugsanlega Ítalíuferð, það er komið í ljós að okkur býðst að syngja við hámessu í Markúsarkirkjunni í Feneyjum 26. júní og að halda tónleika í einhverri annarri kirkju í borginni þá um kvöldið. Flogið yrði til Bologna og ekið til Rimini og dvalið þar á íbúðahóteli í viku. Ein kórsystirin kom strax til mín og bað mig að vera herbergisfélagi sinn. Hún hefur reynslu af því og greinilega ekki mjög slæma. Ég er samt ekki alveg ákveðin í að fara þótt mig blóðlangi - mér finnst ekkert ægilega spennandi að vera á Rimini innan um þúsundir Íslendinga, en auðvitað er hægt að sleppa því að vera á börunum og sækja frekar í menninguna sem er hvar sem litið er eða fæti drepið niður á Ítalíu. Það kitlar mig líka að eiga von um að komast á strönd en mér finnst svolítið skítt að við yrðum bara í Feneyjum þennan eina dag. Færum þangað að morgni og snerum aftur um kvöldið. En mér er svo sem engin vorkunn þar sem ég hef komið þangað tvisvar sinnum áður. Svo er enn í ath. hvort betri helmingurinn gæti komið þegar kórferðinni lýkur og við lagt Ítalíu undir fót í viku eða tíu daga - það yrði frábært. Við sjáum til með það.

Í dag hófst ég svo handa að elda saltkjöt og baunir og slökkti undir pottunum þegar við þurftum að fara í kraftgönguna svo krásirnar voru tilbúnar þegar við komum heim aftur - þurftum bara að hita það aðeins upp og sjóða kartöflurnar. Og mikið rosalega var þetta gott! Ég er svo búin að sitja með vatnsglas við hendina í allt kvöld alveg hræðilega þyrst en það var vel þess virði! Annars þurfti ég að setjast við þegar heim var komið og klára myndina sem ég var að þýða. Það tók nú ekki nema rétt um klukkutíma, ég átti svo lítið eftir, og nú er ég búin að senda hana frá mér. Þetta var bara nokkur góð mynd, A Touch of Pink, sem fjallar um múslimskan homma, kvikmyndatökumann sem vinnur í London og býr þar með elskhuga sínum og fjölskyldu hans,
þ. e. hommans, en hún býr öll í Toronto. Annars fannst mér múslimsku konurnar vera gerðar svo óttalega einfaldar stereótýpur - það þarf enginn að segja mér að múslimakonur hugsi bara um skartgripi, fínheit og að gifta börnin sín. Það er gaman að fá endrum og eins að fást við skemmtileg verkefni en svo tekur eitthvað nýtt við á morgun.

Mikið svakalega fer í taugarnar á mér að dagsetningin á blogginu er alltaf á ensku. Ég verð að finna út hvernig ég breyti því. Og nú er ég farin að rausa eins og ég hét víst að gera ekki!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?