mánudagur, september 19, 2005

 

Nöldur og þó ekki

Ég gæti skrifað heillangt nöldur um nýja samgöngumannvirkið sem ætlað er að létta borgarbúum lífið í umferðinni, þ.e. nýja kaflann á Miklubrautinni, en þessar framkvæmdir hafa lengt til muna tímann sem það tekur okkur að komast frá Tjarnarbólinu upp að Perlu, en ég held að ég sleppi bara öllu nöldri af því mér líður svo ljómandi vel núna. En það fer ekki á milli mála að umferðarljósin eru eitthvað vitlaust stillt, allavega á Reykjanesbrautinni upp í Öskjuhlíðina. Hvað um það, við fórum í kraftgönguna eins og lög gera ráð fyrir og eftir það í sund og gufu og nú líður mér eins og nýhreinsuðum hundi, eins og frændi minn sálugi hefði sagt.
Og svo er það annað. Er einhver hissa þótt Halldór hafi lýst yfir framboði til Öryggisráðsins án þess að tala fyrst við Davíð eða Geir? Það er bara dæmigert fyrir flumbruganginn sem einkennir þessa ríkisstjórn. Þegar Geir (sem reyndar er eini ráðherrann sem ég treysti) var spurður í hvað hann vildi eyða peningunum sem fengust fyrir símann sagðist hann ekki geta tekið ákvörðun um það einn, það væri Alþingi sem færi með fjárveitingavaldið. Skömmu síðar lýsti ríkisstjórnin því yfir í hvað peningarnir færu án þess að það væri nokkurn tíma borið undir Alþingi. Hver er svo hissa á að Dóri missi eitthvað út úr sér í hita leiksins? Eru kannski allir búnir að gleyma Bermúdaskálinni? Eða var Dabbi bara borgarstjóri þá?

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?