miðvikudagur, september 14, 2005

 

Í minningu stórleikara

Bessi Bjarnason, einn mesti snillingur sem íslenskt leikhús hefur átt, er látinn. Sem dæmi um snilld hans langar mig að segja ofurlitla sögu frá því að eldri sonur minn var lítill. Bessi Bjarnason var vitaskuld eitt mesta átrúnaðargoð drengsins og að verða þeirrar ánægju aðnjótandi að vera eitt sinn óvænt staddur í verslun á sama tíma og hann var ógleymanlegt litlum stubb. Svo var það þegar snáðinn var líklega fimm ára eða á fimmta ári að verið var að sýna Litla Kláus og Stóra Kláus í Þjóðleikhúsinu og fór Bessi með hlutverk hins voðalega Stóra Kláusar. Ég fór að sjálfsögðu með frumburðinn í leikhús og þarna sátum við og fylgdumst grannt með öllu sem fram fór á sviðinu. Síðan kemur þar í leikritinu að stóri Kláus hefur komið litla Kláusi í pokann og ætlar að tylla sér inn á krá og fá sér hressingu áður en lengra er haldið, en þá snýr Bessi sér að salnum og segir við krakkana að þeir verði að kalla og láta sig vita ef litli Kláus ætli að sleppa úr pokanum. Auðvitað byrjar litli Kláus að reyna að sleppa og alltaf stækkar opið á pokanum og ég finn að sá litli við hliðina á mér ókyrrist meira og meira. Loks er svo komið að það er auðsýnt að fanginn sleppi og þá stenst drengurinn ekki mátið en hrópar háum rómi: „Stóri Kláus! Stóri Kláus, hann er að sleppa!“ Frænka drengsins og jafnaldra sem sat hinum megin við hann sneri sér þá við og rak honum vel útilátinn löðrung. „En...“ byrjaði drengurinn. „Maður heldur ekki með stóra Kláusi,“ hvæsti hún á hann.
En svona var Bessi, lítil sál gat ekki skilið að átrúnaðargoðið gæti leikið vondan mann.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?